Pulp Ficton-dansinn Quentin Tarantino og Melanie Laurent dönsuðu að hætti Vincent Vega og Miu Wallace þegar þau mættu á rauða dregilinn fyrir frumsýninguna á Inglorious Basterds í gær.
Pulp Ficton-dansinn Quentin Tarantino og Melanie Laurent dönsuðu að hætti Vincent Vega og Miu Wallace þegar þau mættu á rauða dregilinn fyrir frumsýninguna á Inglorious Basterds í gær. — Reuters
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Þetta er 62. skiptið sem kvikmyndahátíðin hér í Cannes er haldin og fyrir fimmtíu árum frumsýndi Alain Resnais tímamótaverkið Hiroshima, mon amour hérna.

Þetta er 62. skiptið sem kvikmyndahátíðin hér í Cannes er haldin og fyrir fimmtíu árum frumsýndi Alain Resnais tímamótaverkið Hiroshima, mon amour hérna. Hann er núna rétt að verða 87 ára og er enn að frumsýna myndir hér, í þetta skiptið Villigrös ( Les Herbes folliers ). Í tilraun til þess að ná utan um þessa miklu sögu var viðeigandi að hita upp fyrir myndina með því að ræða við leikstjóra sem er hér í fyrsta sinn, Arnar Má Brynjarsson. Hann vann Stuttmyndadaga í fyrra og hluti af verðlaununum var ferð til Cannes að sýna myndina.

„Þetta er mikil lífsreynsla,“ segir Arnar um dvölina og segir það hafa gengið vel að koma myndinni áfram. „Það er búið að bjóða henni á hátíðir í Kína, Japan og Bandaríkjunum, svo er þetta bara spurning um að koma henni áfram, hitta rétta fólkið.“ Og halda áfram að gera bíó. Það eru tvær stuttmyndir í farvatninu hjá þessum unga leikstjóra og svo er bara að sjá hvort hann mætir aftur til Cannes árið 2059.

C annes hefur líklega sjaldan stökkbreytt lífi ungs leikstjóra á sama hátt og þegar Quentin Tarantino sýndi Pulp Fiction hér fyrir fimmtán árum. Í gær mætti hann hingað aftur með Inglorious Basterds – og þetta „er“ í Basterds er ekki stafsetningarvilla. Tarantino vildi ekki útskýra þessa sérviskulegu stafsetningu þegar ég spurði hann þannig að ég get mér þess til að þetta séu Laxness-komplexar frá síðustu Íslandsheimsókn. Þótt vissulega sé líklegra að þetta sé aðeins til þess að komast fram hjá ritskoðunarbatteríum heimsins.

En myndin kom skemmtilega á óvart, sérstaklega að því leyti að ólíkt flestum bandarískum stríðsmyndum tala allir á sínu eigin tungumáli og myndin því ýmist á þýsku, ensku eða frönsku – og í upphafi myndar skýtur Tarantino raunar skemmtilega á þann skrítna hliðarveruleika í Hollywood þar sem öll heimsbyggðin hefur ensku að móðurmáli. En þótt Tarantino sé nær raunveruleikanum en flestir í tungumálum lætur hann mannkynssöguna aldrei binda sig, þannig að menntaskólasagnfræðin á eftir að hjálpa áhorfandanum lítið við það að geta sér til um útkomuna.

Þ að óvæntasta var þó óþekktu andlitin í leikhópnum. Saga bastarðanna er aðeins hluti af myndinni og í raun er hvorki Brad Pitt né nein af hinum stjörnunum aðalhetja myndarinnar. 26 ára frönsk leikkona, Mélanie Laurent, sem leikur gyðingastúlkuna Shoshönnu, slær þeim öllum við. Hún rekur kvikmyndahús í París og rétt eins og bastarðarnir reynir hún að leiða nasistana þangað inn í gildru. Og þar reynist hún enn úrræðabetri og snjallari en bastarðar Pitts, þótt þeir velgi vissulega nasistunum rækilega undir uggum. En myndin er ekki sú ofbeldis- og slagsmálaorgía sem mætti búast við, hasaratriðin eru flest stutt og snörp á meðan Tarantino gefur persónunum góðan tíma til þess að plotta. Hetjur myndarinnar eru nær allar gyðingar, eða eins og gyðingurinn Eli Roth orðaði það: „Þetta er myndin sem mig hefur alltaf dreymt um, þetta er algjört kosher-klám.“

Roth leikur stærra hlutverk hér en hann er vanur og hann leikstýrir líka myndinni sem sýnd er í myndinni sjálfri. Sú fjallar um þýska stríðshetju og er umrædd stríðshetja afskaplega skotin í henni Shoshönnu og þau deila bæði óstöðvandi bíónördisma. Senurnar þeirra saman veita skemmtilega innsýn í löngu horfinn heim sem hefur kannski gleymst og fallið í skuggann á alltumlykjandi stríðinu, en á endanum eru galdrar kvikmyndanna helsta ógnin við þriðja ríkið. Sem á ágætlega við á kvikmyndahátíð sem upphaflega var stofnuð sem andsvar við fasistahátíð Mussolinis í Feneyjum.

Keppa um Gullpálmann

Morgunblaðið kynnir þær kvikmyndir sem keppa um Gullpálmann á Cannes. Nú er komið að næstu tveimur:

Villigrös (Les Herbes folles)

Leikstjóri: Alain Resnais.

Miðaldra maður finnur veski konu nokkurrar og eftir að hafa skilað veskinu fer hann að ofsækja hana. Sérviskuleg og skrítin gamanmynd, salurinn skemmti sér ágætlega en líklega er franskur húmor eitthvað sem ég á seint eftir að skilja almennilega.

Inglourious Basterds

Leikstjóri: Quentin Tarantino.

Lágstemmdari og ljóðrænni Tarantino en menn bjuggust við. Splunkuný sýn á seinni heimsstyrjöldina þar sem gyðingar berja á nasistum. Frábær leikur hjá þeim Mélanie Laurent og Christoph Waltz og Tarantino og félagar standa líka fyrir sínu. Svo á Göbbels nokkra góða brandara.

asgeirhi@mbl.is

Ásgeir H Ingólfsson