Bíó, einhverskonar bíó... Hvert sem litið er. Ef ekki leikarar, leikstjórar, fjölmiðlafólk sem skrifar um bíó, fólk á leið í bíó, þá auglýsingar um bíómyndir, utan á fólki sem er að hugsa um bíó...
Bíó, einhverskonar bíó... Hvert sem litið er. Ef ekki leikarar, leikstjórar, fjölmiðlafólk sem skrifar um bíó, fólk á leið í bíó, þá auglýsingar um bíómyndir, utan á fólki sem er að hugsa um bíó... — Morgunblaðið/ Halldór Kolbein
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Ásgeir H. Ingólfsson Það er erfitt að fá leigubíl hér í Cannes, raunar nánast vonlaust.

Ásgeir H. Ingólfsson

Það er erfitt að fá leigubíl hér í Cannes, raunar nánast vonlaust. Íbúðin okkar hér í Cannes er vel staðsett þannig að ég hef ekki þurft á slíkum að halda fyrr en ég er bókaður í viðtal í risastóru og glæsilegu sveitahóteli fyrir utan borgina. Og eftir að hafa prófað merkt leigubílastæði þar sem engir leigubílar voru, hringt í símanúmer hjá leigubílastöðvum sem aðeins höfðu símsvara og loks fengið hótelvörð til þess að bjarga okkur fengum við loks leigubíl, 50 mínútum eftir að leitin hófst. PR-fólkið uppi í Hótel Ducap var skilningsríkt og viðtölin björguðust.

En hvernig borg er þetta? Hvað er í gangi hér annað en kvikmyndahátíðin? Ekki mikið í augnablikinu og þegar hún er ekki í gangi eru ýmsar aðrar hátíðir, sjónvarpshátíð og fleira. Borgin er ekki fjölmenn, hér búa um 70 þúsund manns en þeim fjölgar upp í um 300 þúsund á sumrin heyrist mér, ríkir Bretar þar fjölmennir. Hátíðin fer nánast öll fram á Croisettunni, breiðgötu meðfram strandlengjunni. Öðrum megin eru fjölmörg glæsihótel sem eru mörg nánast yfirtekin af kvikmyndafyrirtækjum (og PR-fyrirtækjum) af öllum stærðum og gerðum, sem hýsa ekki bara starfsfólkið sitt þar heldur líka alla starfsemi sína. Hinum megin við götuna er ströndin þar sem ótal tjöld og annað bráðabirgðahúsnæði hýsir alls kyns starfsemi, mest þó fólk víða að úr heiminum að kynna bíómyndirnar sínar.

Á endanum er svo höllin þar sem allt gerist. Þar eru myndirnar sýndar í fjölmörgum risasölum, þar eru blaðamannafundirnir sem og öll aðstaða fyrir blaðamenn, pródúsenta og aðra. En hún er umsetin og þar sem netið í íbúðinni virkar ágætlega endar maður oftast á að vinna heima. Og þótt Croisettan hýsi megnið af formlegum hluta hátíðarinnar er maður bara á þvælingi þar ef maður á erindi, því ef maður labbar 30 metra upp fyrir Croisettuna er maður kominn í gamla bæinn, sem er ólíkt meira sjarmerandi og líka ódýrari. Það er þó fátt ódýrt hérna og flestir sem eru hérna búast við að enda í mínus, heimskreppan bítur alla og blaðamenn og bíófólk hérna er gjarnt að bæta við kreppuna yfirvofandi dauða prentmiðla, sjónvarps og bíóhúsa, sem menn segja að netið sé hægt og rólega að drepa. Samt erum við flest nógu rómantískir kjánar til þess að vera sannfærð um að bíóin lifi þetta allt af. Enda hlýtur maður að öðlast endurnýjaða trú á mátt kvikmyndanna hér í Cannes, enda getur maður villst upp í úthverfi og séð veggi heilu blokkanna skreytta myndum af Marylin og fleiri stjörnum.

Það óskiljanlegasta af öllu hér er þó röðin sem mætir manni þegar maður fer í bíó. Ég er svo heppinn að geta rétt fram blaðamannapassa og komist beina leið inn. Ef ég kem seint eru venjulega aðeins fáein sæti laus. En alltaf er röðin þarna, þótt ég hafi aldrei séð hana hreyfast einn sentimeter og sjái ekki nokkra von til þess að nein einasta manneskja úr þessum röðum komist nokkru sinni í bíó. Kannski finnst þeim svona gaman að spjalla við gráklædda verðina.

Takturinn er svo bíó og blaðamannafundir á morgnana og bíó aftur á kvöldin og vinna þar á milli. Eina kvöldið sem ég fór ekki í bíó hérna gat ég ekki sofnað, líkamsklukkan virðist vera farin að stilla sig eftir gangi bíósalanna. Sá gangur var þó með rólegasta móti í gær, Hvíti borðinn (Das weiße Band) eftir Haneke var eini stórviðburðurinn á hátíðinni og það er ekki hægt að neita því að þetta var vel gerð mynd – en skemmtileg er líklega ekki rétta orðið. Þó finnst mér ég ekki almennilega dómbær á myndina, ég sá hana nefnilega ekki almennilega fyrir textanum. Hér eru allar myndir sem eru á öðrum málum en ensku og frönsku textaðar á bæði málin og þá er enskan á aukatjaldi undir skjánum. Fyrirtaks fyrirkomulag sem hefur ekki truflað mig vitund hingað til en bæði var óvenjumikið skrafað í þessari mynd og myndramminn óvenju hár, sem olli því að augun skimuðu eilíflega frá textanum að myndinni og til baka. Líklega best að vera bara búinn að rifja menntaskólaþýskuna betur upp fyrir næstu Haneke-mynd.

Keppa um Gullpálmann

Morgunblaðið kynnir þær kvikmyndir sem keppa um Gullpálmann á Cannes. Þetta eru þær næstu í röðinni:

Í upphafi (À l'origine)

Leikstjóri: Xavier Giannoli.

Gérard Depardieu leikur smákrimma sem ákveður að leggjahraðbraut til þess að hressa upp á íbúa smábæjar í miðri kreppu. Ástæðan var sú að fyrirtækið sem átti að leggja hraðbrautina hætti við og síðan hefur atvinnuleysi og vonleysi ríkt í bænum. Þetta er sem sagt svipað og ef Alcoa hefði hætt við Kárahnjúkavirkjun og Lalli Johns hefði komið og reddað málunum.

The Time That Remains

Leikstjóri: Elia Suleiman.

Leikstjórinn Suleiman er Palestínuarabi og hér segir hann fjölskyldusögu sína í gegnum sextíu ára ofsóknir. Kvikmyndin spretturupp úr dagbókum sem faðir leikstjórans hélt og lýsir lífi Palestínumanna sem bjuggu áfram í Ísrael eftir hernám gyðinga.

asgeirhi@mbl.is