Daniel Kehlmann Sló í gegn með Mælingu heimsins en í Ruhm kveður við annan tón.
Daniel Kehlmann Sló í gegn með Mælingu heimsins en í Ruhm kveður við annan tón.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Rithöfundurinn Daniel Kehlmann þarfnast lítillar kynningar. Nægir að minnast á metsölubókina Mæling heimsins og síðustu bókmenntahátíð í Reykjavík, þar sem hann tróð upp við góðan orðstír.

Rithöfundurinn Daniel Kehlmann þarfnast lítillar kynningar. Nægir að minnast á metsölubókina Mæling heimsins og síðustu bókmenntahátíð í Reykjavík, þar sem hann tróð upp við góðan orðstír. Nú bregður svo við að ný bók eftir hann, Ruhm: Ein Roman in neun Geschichten (Orðstír: skáldsaga í níu hlutum), leit nýlega dagsins ljós. Bók sem að sjálfsögðu hefir ratað inn á metsölulistana.

Nú er Daniel í samtíðinni. Mæling heimsins er nefnilega undantekning hvað feril hans varðar. Ekki er sem sagt planið að hamra þá sögulegu glóð. Daniel er þó á svipuðum slóðum og áður, þó með þeirri undantekningu að mörk skáldskaparins og veruleikans eru enn meira þanin – hvar tekur skáldskapurinn við er veruleikanum sleppir og öfugt? Veltir hann fyrir sér frægð og fallvaltleika, sannleika og blekkingum.

Marglaga heildarmynd

Hvað stíl og form varðar mætti gera sér í hugarlund að Daniel hefði sturtað margvíslegum hráefnum í blandara. Það úir enda og grúir af mismunandi blæbrigðum. Stundum er textinn afar fágaður og hárbeittur, stundum hvunndagslegur og brandarakenndur. Sjónarhornunum og frásagnarmáta er einnig víxlað til og frá og greina má margvísleg áhrif frá þekktum höfundum.

Í bókinni er greint frá manni sem nýverið keypti sér farsíma og fær stöðugt símtöl ætluð öðrum og byrjar eftir nokkra hríð að gangast upp í hlutverki þess aðila; þekkts leikara sem einn góðan veðurdag hættir að fá símtöl; rithöfundar á tveimur ferðalögum með konu sem óttast ekkert meir en að verða skrifuð inn í eina af sögum hans; internetfíkils sem þráir ekkert heitar en að verða karakter í sögum umrædds höfundar; sjálfshjálparbókahöfundar er hefur í hyggju að fremja sjálfsmorð; glæpasagnahöfundar er týnist í Mið-Asíu; gamallar dauðvona konu sem þráttar við skapara sinn um örlög sín (sá skapari er rithöfundurinn) og deildarstjóra hjá farsímafyrirtæki er tapar bæði starfinu og vitinu út af tvöföldu lífi sínu. Þessum hlutum er svo haganlega fléttað saman í margslungna og marglaga heildarmynd sem minnir um margt á skáldsögu.

Brugðið á leik

Þema bókarinnar (eða eitt þeirra) er fallvaltleiki lífsins. Hvernig allt getur breyst á svipstundu. Spurningin um örlög eða tilviljun er alltumlykjandi. Inn í þær pælinga skrifast svo höfundurinn (sínálægur og afskiptasamur og sem hliðarsjálf Daniels) sem skapari og kómísk fígúra, stundum samtímis. Hversu mikil áhrif höfum við á eigið líf? Verkið upphefur svo að segja viðtengingarhátt, í yfirfærðri merkingu. Hvað hefði gerst ef... þá væri lífið allt öðruvísi. Gott dæmi er hvernig glæpasagnarithöfundurinn í Mið-Asíu öðlast nýtt líf við það að tapa sambandinu við umheiminn. Hún nær ekki farsímasambandi og endar sem eins konar þræll hjá bændafjölskyldu. Svo er það aðilinn sem fær símtöl annars manns og gengur inn í hans líf. Fljótlega verður ljóst að sá aðili er frægur leikari...

Það mætti hafa mörg orð um þessa bók, enda er hún mjög stórsnjöll og skemmtileg og efniviður í umtalsvert lengri grein en þessa. Látum nægja að hér sér brugðið á leik með stíl og sjálfsmyndir og sjálfsmyndarhrun í tilverunni og hugsanlega mætti notast við orðið bókmenntaparódía til að lýsa verkinu.

Ólafur Guðsteinn Kristjánsson