Leikarar og leikstjóri Lily Cole, Verne Troyer, Terry Gilliam og Andrew Garfield kynna The Imaginarium of Doctor Parnassus ásamt tveimur ónefndum einstaklingum. Myndin uppfyllir alla drauma pistlahöfundar.
Leikarar og leikstjóri Lily Cole, Verne Troyer, Terry Gilliam og Andrew Garfield kynna The Imaginarium of Doctor Parnassus ásamt tveimur ónefndum einstaklingum. Myndin uppfyllir alla drauma pistlahöfundar. — Morgunblaðið/ Halldór Kolbein
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Öll eigum við okkar litlu kjánalegu drauma sem stýra okkur oftar en ekki í lífinu, þótt við felum þá gjarna bak við einhverja praktíska útfærslu á þeim.

Öll eigum við okkar litlu kjánalegu drauma sem stýra okkur oftar en ekki í lífinu, þótt við felum þá gjarna bak við einhverja praktíska útfærslu á þeim. Ég þóttist til dæmis ætla að koma hingað til Cannes til þess að skrifa fyrir Moggann en auðvitað var draumurinn alltaf að hitta Terry Gilliam yfir glasi og bera undir hann hugmynd að handriti sem ég er með í maganum. Við Terry eigum bjórkvöldið ennþá eftir en draumurinn rættist þó án þess að ég gerði neitt annað en að vakna eldsnemma á föstudagsmorgni og mæta á einhverja göldróttustu bíómynd á rammgöldróttum ferli Gilliams, The Imaginarium of Dr. Parnassus . Þetta er Gilliam-mynd drauma manns – nema bara ennþá betri.

Sagan hefst í Lundúnum samtímans, fólk er að tínast heim af pöbbnum, flestir vel í glasi. En þá birtast Dr. Parmassus (Christopher Plummer) og félagar og setja upp lítið, yndislega fornfálegt og litríkt farandleikhús. Flestir labba áhugalitlir fram hjá en einn drengstauli ákveður að vera sniðugur og fer að atast í Parmassus og félögum og endar á því að ryðjast inn í töfraspegilinn – sem virkar ólíkt ódýrari og sjoppulegri en flest slík tæki í sirkusum heimsins. En ólíkt þeim þá virkar þessi og stráksi endar sem fangi eigin ímyndunarafls, „the imaginarium“ er vél ímyndunaraflsins, spegill allra þinna drauma.

Galdur myndarinnar er hversu skemmtilega Gilliam staðsetur Dr. Parmassus og töfravélina hans í nútímanum. Parmassus er ódauðlegur sögumaður sem þráir að deyja en fyrst þarf hann að ná að snúa enn einu sinni á djöfulinn sjálfan (Tom Waits). Þeir félagar eru báðir óforbetranlegir spilafíklar og hafa eytt eilífðinni í hin ýmsu veðmál þar sem miklu verðmætari hlutir en peningar eru undir. Í raun lýsir myndin Cannes ágætlega. Hér erum við sífellt að hitta fyrir leikstjóra og aðra listamenn sem sýna okkur inn í sína ímyndunaraflsvél og hér þurfa ófáir að gera veðmál við djöfulinn sjálfan á bak við tjöldin, svo þeir geti komið hingað aftur með nýja drauma í farteskinu á næstu hátíðir. Örfáir ná jafnvel að verða ódauðlegir að hætti Parmassusar og Ledgers.

Myndin er samsafn af öllum þeim sögum og ævintýrum sem Gilliam langaði að kvikmynda en vissi að honum myndi ekki endast ævin til. Margt rímar við Söguna endalausu eftir Michael Ende, hér elta allir óskir sínar, stundum með skelfilegum afleiðingum. Yfir þessu öllu vofir svo raunverulegur tregi, stórleikarinn sem dó alltof ungur, dó þegar við vorum rétt að byrja að átta okkur á hversu ótrúlegur hann væri. Þetta er myndin hans Heaths, þetta er ástarbréf handan grafar en ekki síður ástarbréf frá vinum hans, eða eins og segir í lok myndar: „A film from Heath Ledger and friends.“ En hún gæti líka orðið upphaf, þau Lily Cole og Andrew Garfield eru upprennandi stjörnur og eðaldvergurinn Verne Troyer, Mini-Me, fær vonandi fleiri alvöru hlutverk í kjölfarið. Svo er bara að sjá hvað gerist ef sá draumur rætist.

Íslenski draumurinn lifði góðu lífi á Croisettunni á fimmtudagskvöldið þegar Barði Jóhannsson og félagar í Bang Gang héldu tónleika við sjávarborðið á Croisettunni. Það var vel fullt og þurfti að bæta við sætum og það var klappað vel og lengi. Í þessum skrifuðum orðum er svo Rúnar Rúnarsson um það bil að fara að sýna heiminum hana Önnu sína í fyrsta sinn. Töfraspegill okkar Íslendinga virðist virka alveg ágætlega ennþá, enda gilda svipuð lögmál um töfraspegla og heilaga kaleika (eins og við lærðum öll í þriðju Indiana Jones-myndinni), það er sá ódýrasti sem virkar, við höfum ekkert með þessa gylltu að gera. asgeirhi@mbl.is

Ledger leikur Tony Blair

Þegar Heath Ledger féll frá þurfti ekki bara einn leikara heldur þrjá til þess að fara í skóna hans til að klára myndina. Ledger hafði náð að klára öll atriðin sem gerast í okkar heimi, en í myndinni fer Tony (Ledger) þrisvar í gegnum töfraspegilinn og fyrir þessi þrjú skipti voru fengnir þrír leikarar sem allir voru miklir vinir Heaths, þeir Johnny Depp, Jude Law og Colin Farrell. Og lógík myndarinnar þýðir að þetta gengur fullkomlega upp. Það merkilega er svo að Gilliam hefur játað það að hafa byggt persónu Tony á forsætisráðherranum Tony Blair. Hann segir Blair vera eins og sölumann snákaolíu: „Þegar hann talar þá trúir hann öllu sem hann segir ...“

Kvikmyndastjarnan Tom Waits

Tom Waits leikur Herra Nick, djöfulinn sjálfan, með miklum glans í þessari mynd Gilliams. Enda er angurbarkinn góði enginn nýgræðingur í leiklistinni. Hann hefur leikið í Rumble Fish og The Cotton Club hjá Coppola, lék í Mystery Men og Wristcutters: A Love Story , þar sem persóna hans var ekki svo ósvipuð djöflinum hér. Hæst hefur ferill hans sem leikara þó líklega risið í samvinnu við Jim Jarmusch í myndunum Down by Law og Coffee and Cigarettes .

Keppir um Gullpálmann

Morgunblaðið kynnir þær kvikmyndir sem keppa um Gullpálmann á Cannes. Þessi er næst í röðinni:

Map of the Sounds of Tokyo

Leikstjóri: Isabel Coixet

Ryu er veikburða stúlka á að líta og vinnur á næturvöktum á fiskmarkaðnum í Tókýó. En hún sinnir einnig störfum launmorðingja í hjáverkum. En þegar hún er ráðin til þess að jafna metin í flóknum fjölskylduharmleik dregst hún inn í óvænta ástarsögu, mitt í hefndarþorstanum miðjum.

.Ásgeir H Ingólfsson