Fyrir kosningar yfirtók styrkjamálið svokallaða alla pólitíska umræðu um hríð. Nú, mánuði eftir kosningar, birtir Samfylkingin frekari upplýsingar um styrki stórfyrirtækja árið 2006.
Eftir Önund Pál Ragnarsson

onundur@mbl.is

HÁIR styrkir fyrirtækja til Samfylkingarinnar á árinu 2006 námu alls 73,2 milljónum króna. Áður hefur verið sagt frá 36 milljóna styrkjum til aðalskrifstofu Samfylkingarinnar, en í gær greindi Magnús M. Norðdahl, gjaldkeri Samfylkingarinnar, einnig frá styrkjum til aðildarfélaga hennar og kjördæmis- og sveitarstjórnarráða.

Tugmilljónir frá bönkunum

Stærsti styrkveitandinn var Kaupþing sem gaf samanlagt tíu milljónir. Því næst Landsbankinn og FL Group sem gáfu átta milljónir hvort. Glitnir og Actavis gáfu 5,5 milljónir hvort, Dagsbrún og Baugur fimm milljónir hvort, Exista og Ker þrjár milljónir hvort og Eykt gaf tvær og hálfa milljón.

Minni styrkir einstaklinga og fyrirtækja til aðildarfélaga og kjördæmisráða námu 30.124.000 krónum svo alls hefur verið upplýst um ríflega 103 milljóna króna framlög til flokksins á árinu 2006.

Í bréfi Magnúsar sem sent var í gær segir að Samfylkingin skori á aðra stjórnmálaflokka að birta upplýsingar um fjáröflun sína með sama hætti. Samfylkingin hefur einnig upplýst um styrki til sín á árunum 2007 og 2008.

Tengjast athafnamönnum

Segja má að félög sem veittu samanlagða styrki upp á 25 milljónir króna til Samfylkingarinnar árið 2006 tengist Jóni Ásgeiri Jóhannessyni sterkum böndum. Þá veittu félög tengd Björgólfsfeðgum um 16 milljóna styrki, félög tengd Ólafi Ólafssyni 14 milljóna styrki og félög tengd Ágústi og Lýði Guðmundssonum sömuleiðis 14 milljóna styrki, en Kaupþing, stærsti styrkveitandinn, tengist bæði Ólafi og þeim bræðrum.

Til félaga og ráða

Kaupþing 5.000.000

Dagsbrún 5.000.000

FL Group 5.000.000

Landsbankinn 4.000.000

Actavis 2.500.000

Atlantsolía 2.000.000

Glitnir 2.000.000

Baugur 2.000.000

Eykt hf. 1.500.000

Atafl hf. 1.000.000

Brimborg ehf. 1.000.000

Samskip hf. 1.000.000

Olíufélagið 1.000.000

Olís 1.000.000

Nýsir hf. 1.000.000

Vís 1.000.000

Eik fasteignafélag hf. 600.000

SPRON 600.000

Til aðalskrifstofu

Kaupþing 5.000.000

Landsbankinn 4.000.000

Glitnir 3.500.000

FL Group 3.000.000

Exista 3.000.000

Baugur Group 3.000.000

Actavis 3.000.000

Ker hf. 3.000.000

Milestone 1.500.000

Straumur Burðarás 1.500.000

Teymi ehf. 1.500.000

Eykt ehf. 1.000.000

Eimskip 1.000.000

SPRON 1.000.000

Eignarhaldsfélag Samvinnutrygginga 1.000.000