Högni Sturluson fæddist á Látrum í Aðalvík hinn 15. apríl 1919. Hann lést á Fjórðungssjúkrahúsi Ísafjarðar 27. maí síðastliðinn. Foreldrar hans voru Sturla Þorkelsson sjómaður, f. 20. október 1889, hann drukknaði á mb. Nirði 12. desember 1924, og Ingibjörg Bárðlína Ásgeirsdóttir, f. 23. maí 1898, d. 30. október 1935. Þau hjón eignuðust þrjú börn: Högna, Guðrúnu Þorkötlu, f. 1923, og Sturlínu, f. 1924, sem báðar lifa bróður sinn. Seinni maður Ingibjargar var Sigurður Hjálmarsson, f. 1894, d. 1969. Börn þeirra voru fjögur, Guðrún Hjálmfríður sem er látin, Ásgerður Sigríður Kristín, f. 1929, Sturla Valdimar, sem dó í bernsku, og Björg Bjarndís, f. 1933.

Fyrri kona Högna var Júlíana Guðrún Júlíusdóttir, f. 24. júlí 1921, d. 1. september 1960, þau gengu í hjónaband 24. júlí 1950. Foreldrar hennar voru Júlíus Geirmundsson, útvegsbóndi frá Atlastöðum í Fljótavík, og Guðrún Jónsdóttir húsfreyja. Börn Högna og Júlíönu urðu sjö: 1) Sturlína Ingibjörg, f. 1941, gift Svanberg Einarssyni, þau eiga sjö börn. 2) Jónína Ólöf, f. 1942, gift Birki Þorsteinssyni, þau eiga tvö börn. 3) Júlíus Rúnar, f. 1945, kvæntur Guðmundu Kr. Reimarsdóttur og þau eiga fjögur börn. 4) Drengur, f. 1948, d. 1948. 5) Sturla Valdimar, f. 1949, kvæntur Sigrúnu Reimarsdóttur, þau eiga tvö börn. 6) Guðleifur, f. 1951, fórst með Geirólfi ÍS 20. október 1972. 7) Guðrún Elísa, f. 1954, gift Þórði Jónssyni, þau eiga tvö börn. Barnabörnin eru 17, barnabarnabörn 54 og barnabarnabarnabörn 14.

Seinni kona Högna var Jóhanna Friðriksdóttir, f. 10. febrúar 1914, d. 1. september 2008. Foreldrar hennar voru Friðrik Geirmundsson frá Efri-Miðvík í Aðalvík og Mikkalína Þorsteinsdóttir frá Borg í Skötufirði. Fyrri maður Jóhönnu var Pálmi Guðmundsson frá Rekavík bak Látur og áttu þau sex börn, en fyrir átti Jóhanna son með Ingólfi Magnússyni frá Keflavík. Högni og Jóhanna gengu í hjónaband hinn 15. apríl 1968.

Högni vann lengst af við sjómennsku og fiskvinnslu og við vélgæslu í Frystihúsinu í Hnífsdal. Einnig vann hann við byggingarvinnu og smíðar. Síðustu árin bjuggu Högni og Jóhanna í góðu yfirlæti á Hlíf á Ísafirði.

Útför Högna fer fram frá Hnífsdalskapellu í dag, 6. júní, og hefst athöfnin kl. 14.

Elsku pabbi minn, nú ertu laus við erfiðar þrautir, hefur hitt áður farna ástvini þína og ég veit að þær frænkur, mamma og Jóa, hafa tekið á móti þér. Þú þurftir að fara í gegnum margt mótlætið á lífsleiðinni en þú varst harður í horn að taka. Að utan sýndir þú hörku og það var til að lifa af en seinni ár gast þú ekki alltaf falið að þú varst viðkvæmur inn við beinið. Dugnað þinn hefur drengurinn minn erft frá þér í mótlæti í lífinu og er ég þakklát fyrir það. Þið Jóa áttuð fallegt líf saman og báruð mikla virðingu hvort fyrir öðru. Alltaf þökkuðuð þið hvort öðru með kossi og signdi hún okkur öll, hópinn ykkar og samferðafólk.

Þú hélst upp á 90 ára afmælið þitt 15. apríl í góðra vina hópi en þér þótti gaman að vera í margmenni og spjalla við fólk. Tölvutæknin var ekki vandamál hjá þér og talaðir þú við fólkið þitt á hverju kvöldi á „skæpinu“. Einnig eru þeir orðnir margir sem hafa stoppað og skoðað myndir sem þú hafðir viðað að þér og safnað á tölvudiska. Þú varst hafsjór af fróðleik og sóttu margir í þann sjóð, varst kaldur karl og lést ekkert stoppa þig.

Lögmáli heimsins lánast engum að breyta,

lífið og dauðinn stöðuga glímu þreyta.

Óðar en varir kemur þá kallið stríða,

kallið sem háum og lágum er gert að hlýða.

Æfinnar stundir skiptast í ljós og skugga,

skarpköldum rómi kveður hríðin á glugga.

Hraðfleygra stunda góðra megum við minnast,

mannlífsins gangur reynist að hittast og kynnast.

Muna skal þann er máttu ei forlögin buga,

manndómur stendur greyptur í okkar huga.

Félagi góður er horfinn til annarra heima,

hann sem ljósinu ræður megi hann geyma.

(Jóhannes Benjamínsson)

Þó í okkar feðrafold

falli allt sem lifir

enginn getur mokað mold

minningarnar yfir.

(Bjarni Jónsson frá Gröf)

Fyrir hönd fjölskyldunnar vil ég þakka öllu hinu yndislega hjúkrunarfólki á öldrunardeild Sjúkrahúss Ísafjarðar fyrir frábæra umönnun og öllu starfsfólki á Hlíf, sem var ykkur Jóu alveg frábært. Ég er þakklát fyrir að hafa fengið að halda utan um þig á endaspretti þessarar jarðvistar og þakka ég þér lífgjöfina og samferðina elsku pabbi minn.

Hvíl í friði.

Þín dóttir og tengdasonur,

Guðrún Elísa og Þórður.

Elsku pabbi, nú ert þú farinn yfir móðuna miklu. Þar munt þú hitta fólkið þitt, mömmu, Jóu og mömmu þína sálugu eins og þú sagðir alltaf.

Ég mun alltaf minnast þín og man þá daga þegar þú kenndir mér að stokka upp og beita, það voru fyrstu verkin sem ég vann með þér. Einnig man ég þegar þú leyfðir mér að fara á síld með Jóakim Pálssyni, frænda okkar, þar sem þú hafðir verið með honum til sjós og vissir því að hann myndi passa mig. Þú hafðir mikla trú á Jóakim og sagðir oft við mig að það væri gott að vera í skipsbrúnni hjá Jóakim frænda. Einnig man ég þegar við vorum að byggja húsið á Heimabæjarstíg 5. Þú varst mjög stoltur þegar því var lokið, enda mörg handtökin sem fóru í það hús og þar óluð þið mamma okkur upp.

Áfallið var mikið þegar við misstum mömmu, eins ung og við systkinin vorum, ég 15 ára. Á þessum tíma voru Inga systir og Svanni maður hennar stoð okkar og stytta og erum við þakklát fyrir það.

Þegar yngsti sonur minn fæddist og ég ákvað að skíra hann í höfuðið á þér þá hringdir þú og baðst mig um að skíra hann einnig Þorstein eftir henni Jóu og ég fann hvað þú varst ánægður þegar ég sagði já. Nú er nafni ykkar í San Francisco og þú hafðir gaman af því að segja köllunum á Hlíf frá því að hann væri þjónn þegar hann var að vinna á skemmtiferðaskipinu. Ég man líka hvað þið Jóa voruð glöð og stolt þegar hann bauð ykkur um borð í skipið í Reykjavíkurhöfn.

Elsku pabbi, hvíl í friði og berðu kveðju okkar til mömmu og Jóu.

Þinn sonur,

Júlíus Högnason.

Nú þegar sú stund er runnin upp að hann Högni afi hefur fært sig yfir í ný heimkynni, þá lítur maður til baka og minnist gamalla stunda. Hann hefur reynt margt um ævina sem hefur mótað hann þau 90 ár sem hann lifði. Afi eignaðist tvær góðar konur á þessum tíma, Júlíönnu ömmu sem andaðist 1. september 1960 og Jóhönnu ömmu sem andaðist 1. september 2008.

Hann var einstakur á sinn hátt og var fljótur að kynnast fólki. Ég er mjög þakklátur fyrir að hafa fengið að kynnast honum.

Þegar ég var nokkurra daga gamall missti hann fyrri konu sína frá 6 börnum en nokkrum árum síðar kynntist hann seinni konu sinni og gekk hann þá 7 einstaklingum í föður stað. Það var gaman hvernig honum tókst að vinna þetta verkefni þegar hópurinn stækkaði og stækkaði, honum þótti jafn vænt um alla. Það var mikið starf að fylgjast með þessum stóra hóp, þegar barnabörnin og síðan barnabarnabörnin og ekki síst þegar barnabarnabarnabörnin bættust í hópinn.

Skódinn þeysti um landið með afa og ömmu og alltaf var bolsíubaukurinn, faðmlag, kossar og kærleikur með til að gefa vinum og vandamönnum. Nú ertu kominn til gömlu vinanna, afi minn, glaður og kátur.

Við óskum þér alls hins besta í nýjum heimkynnum.

Högni J. Svanbergsson

og fjölskyld.

Hinsta kveðja

Hinsta kveðja

Hamingjan er ávöxtur ríkidæmis en hvers skonar ríkidæmis? Veraldlegum auði fylgir oft óttinn við að missa hann. Sannur auður er þekking sem gerir þér kleift að lifa lífinu í samræmi við þín innri gildi.

(Úr Friðargjöf.)

Elsku afi, þú varst maður sem þorðir, lást ekki á skoðunum þínum og þú varst fljótur til svara. Þegar þú komst í heimsókn á mínum yngri árum og hittir vini mína vildir þú fá að vita hverra manna þeir væru og hvaðan þeir ættu uppruna sinn. Þér fannst þekking unga fólksins á þeim málum ekki alltaf nógu góð. Þú varst mikill persónuleiki.

Með þessum fátæklegu orðum þakka ég þér samfylgdina.

Þinn dóttursonur,

Jón og börn.