Iggy Pop Orðinn bandarískur raulari.
Iggy Pop Orðinn bandarískur raulari.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Iggy Pop er sönnun þess að fátt sé betra en grenjandi rafgítarar og organdi söngvari; þeir sem séð hafa hann á sviði getað vitnað um það að hann er holdgervingur rokksins.

Iggy Pop er sönnun þess að fátt sé betra en grenjandi rafgítarar og organdi söngvari; þeir sem séð hafa hann á sviði getað vitnað um það að hann er holdgervingur rokksins. Ekki er þó allt sem sýnist því honum er líka vel lagið að syngja við vælandi klarínett eins og sannast á nýrri plötu hans, Préliminaires.

Franskir mansöngvar eru frábrugðnir því sem tíðkast víða annars staðar í því að beinlínis er gert ráð fyrir rödd sem ekki er hægt að kalla fallega; brákuð og beygluð, tilfinningarík og dramatísk, laus við væmni og tilgerð. Þannig rödd er Iggy Pop einmitt með og í fyrstu hendingu af fyrsta lagi Préliminaires er meiri saga og þungi en í ævistarfi margra annarra tónlistarmanna.

Haustlauf

Í laginu „Les feuilles mortes“, textinn eftir ljóðskáldið Jacques Prévert, lagið eftir Joseph Kosma, syngur Iggy í brotnum barítón um haustlauf og glataða ást, en lagið sló í gegn í Frakklandi 1945 og oft eftir það, meðal annars í flutningi Edith Piaf (bæði á frönsku og ensku). Aðrir sem sungið hafa lagið eru Nat King Cole, Yves Montand og Eva Cassidy, en fjölmargir hafa einnig gefið lagið út án söngs.

Undirspilið í „Les feuilles mortes“ að hætti Iggy Pop er naumhyggjulegt, slagverk, ástsjúkt orgel, rómantískur bassi og smávegis rafeindamúsík sem nær hápunkti í tregaþrungnu klarínettsólói – aðdáendur Iggy Pop fá flog. Hann lætur ekki nægja að taka fyrir franskan vísnasöng, heldur er líka á skífunni bossanova-lag, „Insensatez“ eftir Antonio Calos Jobim, sem heitir „How Insensitive“ í meðförum Iggys, og í því eru fiðlurnar ekki sparaðar.

Að þessu sögðu koma gítarar víða við sögu á plötunni, heyr til að mynda lagið „Spanish Coast“ þar sem skældur gítar ber uppi laglínuna (og minnir ekki svo lítið á Tindersticks) og eins „Nice to Be Dead“, hefðbundið rokklag sem gæti eins hafa verið á hvaða sólóskífu Iggys sem er. Fleiri dæmi eru um slíkt á plötunni, svona rétt eins og Iggy Pop hafi ekki alveg getað sagt skilið við uppruna sinn, en lögin sem koma á óvart eru þó fleiri, til að mynda áðurnefnt upphafslag plötunnar New Orleans-djasslagið „King of the Dogs“, þar sem Iggy fær laglínu lánaða hjá Louis Armstrong, „He's Dead – She's Alive“, kassagítarblús og bjöguð rödd, og svo lagið „A Machine For Loving“, þar sem sungið/talað er um ástríka hunda.

Tónlist við skáldsögu

Kveikjan að Préliminaires var sú að Iggy var beðinn að semja tónlist við heimildarmynd um það er Michel Houellebecq semur kvikmyndahandrit upp úr bók sinni La Possibilité d'une île og reynir síðan að telja menn á að gera mynd eftir handritinu. Undirbúningur að verkefninu fólst í því að lesa bókina, sem varð Iggy svo mikill innblástur að í stað þess að semja tónlist fyrir téða heimilarmynd samdi hann plötu upp úr bókinni, eins konar hljóðrás við hana. (Þess má geta að textinn við „A Machine For Loving“ er fenginn úr enskri útgáfu á bók Houellebecqs.) Þegar við ofangreint bætist að Iggy var búinn að fá ógeð á lúðum með rafgítara, að eigin sögn, kemur kannski ekki á óvart að hann hafi kosið að kúvenda svo rækilega.

Þess má svo geta að plötuna má kaupa sem niðurhal og á diski, en einnig er til sérstök viðhafnarútgáfa sem er meðal annars skreytt myndum eftir teiknarann snjalla Marjane Satrapi.

arnin@mbl.is

Hamskiptingar

Það getur verið erfitt að sitja fastur í sama hlutverkinu, hvort sem maður er leikarinn sem leikur alltaf vonda löggu eða tónlistarmaðurinn sem verður alltaf að vera hressi gæinn. Það getur þó verið erfitt að breyta um stíl og stefnu; ekki er gott að gera aðdáendurna fráhverfa sér til frambúðar því ekki er öruggt að stílbrotið skaffi nýja vini.

Með frægustu umskiptum rokksögunnar er þegar Bob Dylan hætti að vera vælandi mótmælasöngvari og fann upp nýtt tónlistarform í leiðinni; rafmagnað þjóðlagarokk. Aðdáendur hans tóku því illa, gerðu hróp að honum á tónleikum, en sagan hefur sýnt að þetta var réttur leikur.

Þegar menn eru komnir á síðasta snúning getur verið gott að taka annan kúrs. Það dugði til að mynda Johnny Cash vel í upphafi tíunda áratugarins þegar hann birtist einn með kassagítarinn á American Recordings og græddi grúa af nýjum aðdáendum – fór semsé í öfuga átt við Dylan.

David Bowie er meðal annars frægur fyrir sín stílbrigði og hefur dugað honum vel í gegnum árin. Sum hamskipti hans eru þó einfaldlega hallærisleg, til að mynda tilraunirnar þrjár í lok níunda áratugarins og upphafi þess tíunda; hallærisrokk með Tin Machine, eins konar síðnýrómantík með Outside 1995 og svo loks drum'n'bass-dellan Earthling 1997.

Stundum skipta listamenn um stíl og stefnu vegna þess að þeir eru í blindgötu og svo var því farið til að mynda þegar Björk hætti í gítarpoppsveitinni Sykurmolunum og tók til við framsækið danspopp ein síns liðs. Síðasta plata Sykurmolanna var meira af því sama, en fyrsta sólóplata Bjarkar, Debut, var byrjun á einhverju nýju.

Söngkonan Jewel var fræg fyrir sitt meinlausa menningarpopp þegar hún sendi frá sér breiðskífuna 0304. Aðdáendum hennar brá svo við þegar þeir heyrðu skífuna að það skvettist upp úr rauðvínsglösunum enda var tónlistin fjörugt og dansvænt popp, en ekki þjóðlagagaul að hætti hússins. Þessi stefnubreyting Jewel entist ekki nema þessa einu skífu, en 0304 er besta skífa hennar að margra mati og einnig sú skemmtilegasta.

Árni Matthíasson