— Morgunblaðið/Ómar
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Margrét og Guðrún, dætur Kristínar Njarðvík, leiðsögumanns og frumkvöðlakonu, og Jóns Bergþórssonar, búfræðings og stofnanda Nýju sendibílastöðvarinnar, hafa alltaf verið samrýmdar þrátt fyrir nokkurn aldursmun.

Eftir Steinþór Guðbjartsson

steinthor@mbl.is

Margrét „Mamma er byltingarforinginn okkar, gáfaðasta kona sem ég þekki, og við systkinin lærðum að lesa í bananabílnum hjá pabba, blíðasta pabba í bænum. Guðrún systir er hins vegar pólstjarnan í lífi mínu. Hún var fyrst systkina minna til þess að eignast barn og ég var strax mikið með henni og Tomma, manni hennar. Ég veit ekki hvort Sóley, elsta dóttir þeirra, er dóttir mín, systir mín eða systurdóttir mín enda sagði hún gjarnan, þegar hún var lítil, „mamma, æ, nei Margrét“, þegar hún talaði við mig. Ég hef fengið óheftan aðgang að því að elska dætur Guðrúnar og það er mjög rausnarlegt af þeim að taka mig þannig inn í sinn hóp. Langt fram eftir aldri flokkaði hún mig tilfinningalega með dætrum sínum en ekki systrum og ég var brjáluð vegna þessa fram eftir aldri. Nú geri ég mér grein fyrir að hún flokkaði mig í hóp með þeim vegna væntumþykju. Ég þurfti líka að hafa mikið fyrir því hjá Guðrúnu að fá inngöngu í samfélag fullorðinna og fá hana til þess að taka mark á mér. Ég var til dæmis oft æf á unglingsárunum þegar hún notaði virka hlustun á mig enda fannst mér það vera ofbeldistæki. Þá var ég mjög óörugg með sjálfa mig og vildi láta taka mig alvarlega.“

Allt leikur

„Guðrún varð ófrísk á síðasta ári í menntaskóla og ég man eftir henni sippandi á stofugólfinu heima þegar hún var komin einhverja daga fram yfir áætlaða fæðingu. Þegar vinkonur hennar voru allar fínar í stúdentsdrögtum með stúdentshúfu sat hún skellihlæjandi í eldhúsinu með hlandbleyju af barninu sínu á hausnum.

Ég hef elt það sem Guðrún hefur verið að gera og hef endalaust verið full aðdáunar á henni. Hún er afburðanámsmaður og algjörlega jafnvíg á hug- og félagsvísindi og raungreinar. Það er ævintýri að ganga með henni um náttúruna. Hún þekkir allt, sér allt, stoppar allt í einu bílinn og bendir þér á hreiður í fjörunni. Hún er afskaplega mikið náttúrubarn, les vel í náttúruna þannig að hún verður leikur. Í raun verður allt leikur í kringum Guðrúnu og við erum alltaf í leik og nennum að leika saman, þó við séum orðnar fullorðnar. Það verður allt skemmtilegt því hún sér spaugilegu hliðarnar á hlutunum og sjálfri sér. Svo er hún mjög fyndin og gagnrýnin og alltaf má treysta því að hún fer aldrei venjulega leið.

Hugmyndafræðilega hef ég fyrst og fremst tekið hana mér til fyrirmyndar. Ég var mjög ung þegar ég vandi komur mínar á Hótel Vík, þar sem Kvennalistinn kom saman. Á margan hátt var ég að spegla mig í stóru systur. Hún og mamma innprentuðu skýran og skemmtilegan femínisma í fjölskylduna og þannig hafði hún mikil áhrif á mig.“

Í beinni fyrir misskilning

„Guðrún getur verið algjör hryllingur og sérstaklega á íþróttasviðinu. Hún er alltaf að byrja í átaki í leikfimi og alltaf að fara að „meika“ það. Einu sinni fór hún að hlaupa með Tomma, sem er fyrrverandi Íslandsmeistari á skíðum og mikill íþróttagarpur, en það mælist ekki íþróttaáhugi í systur minni. Hún fór í gamlan, rifinn og ógeðslegan íþróttagalla af Tomma og ákvað að nú ætlaði hún að taka á því. Þegar hún kom út úr klefanum í Laugardalslauginni sá hún hvergi Tomma. Hvar er hann? sagði hún við sjálfa sig, en lét ekki þar við sitja heldur skokkaði út á Laugardalsvöll, þar sem þau ætluðu að hlaupa. Hún hljóp hring eftir hring á vellinum og heyrði alltaf öðru hverju hrópað og kallað „vá, hey, koma svo“, en sá hvergi Tomma. Hann hafði hins vegar séð það sem hún sá ekki, að það var Íslandsmeistarahlaup karla í hindrunarhlaupi á vellinum, og fór því annað að hlaupa. Þegar sýnt var frá þessu í sjónvarpinu mátti alltaf sjá Guðrúnu hlaupa hring eftir hring. Þessi útsending af henni hlaupandi í rifna hlaupagallanum af Tomma er mjög skemmtileg.“

Guðrún er mjög frjó og það er mikið í höfðinu á henni hverju sinni. Hún er alltaf að fá hugmyndir og höfuðið gneistar. Allt gerist mjög hratt. Hún sér stóru myndina og nennir ekki í smáatriðin. Stundum finnurðu banana í uppþvottavélinni hjá henni eða kaffivélina inni í ísskáp. Það gengur svo mikið á og það sem öðrum finnst aðalatriðið að framkvæma mælist ekki sem verkefni hjá henni því hún er alltaf að vinna í stóru málunum. Það er oft erfitt fyrir aðra að meðtaka hvað hún er fljót að sjá hlutina og því er hún stöðugt að ögra.“

„Þegar hún flutti til Noregs ætlaði hún í doktorsnám í líffræði. Það er skipulagt þannig að þér er úthlutað verkefnum og eitt rannsóknarverkefnanna var að vera sérfræðingur í bjarnarskít. Hún gat auðvitað ekki hugsað sér það, þannig að hún lærði félagsráðgjöf. Þar nýttist henni það sem hún lærði í kvennahreyfingunni og áður en ég vissi af var hún búin að stofna norræn samtök kvennaathvarfa sem urðu svo að heimssamtökum. Síðan kom hún heim og fór að vinna hjá Stígamótum. Strax var hún orðin leiðandi, ekki aðeins á Norðurlöndum eða í Evrópu heldur um víðan heim og einmitt á næsta ári gengst hún fyrir heimsráðstefnu í sínum málaflokki. Hún er alls staðar leiðtogi þar sem hún kemur, brautryðjandi. Hún er á undan sinni samtíð og það er ekki einfalt, því þeir sem eru á undan sinni samtíð fá ekki fylgismennina strax um borð. Helsti gallinn við Guðrúnu er hvað hún er allt of hógvær. Þetta er eitthvað sem hún hefur lært af mömmu, að láta verkin tala, og margir halda að hógværð hennar þýði að hún láti vaða yfir sig. Þeir komast fljótt að því að svo er ekki.

Það kveður mikið að henni í starfi og í grasrótarhreyfingum og auk þess er hún dásamleg fjölskyldumanneskja. Hún er límið í fjölskyldunni og nýtur þess sem hún gerir. Við erum stundum nefndar Jónsdæturmafían enda erum við sem ítölsk fjölskylda þar sem mikið gengur á, mikið talað, mikið hlegið og pláss fyrir marga einstaklinga.“

Alltaf á hjartabílnum

„Guðrún vinnur mikið en hefur samt pláss fyrir aðra í lífi sínu. Hún er einstaklega trygg og það er mjög gaman að vera í stemningu með henni. Líffræðingarnir, vinir hennar, fara í brjálæðislegustu gönguferðir á landinu og eru alltaf með svo góðan mat enda er Guðrún dásamlegur kokkur. Ég er svolítið afbrýðisöm út í þennan hóp. Hún á líka margar góðar, ungar vinkonur í kvennahreyfingunni og er frábær mentor þeirra. Hún talar við þær sem jafningja og er svo örlát. Þetta gífurlega örlæti, hvort sem það eru veraldlegir eða andlegir hlutir, er svo magnað við Guðrúnu. Hún gefur endalaust af sér.

Þrátt fyrir allt fæ ég nægan tíma með henni. Það eina sem er erfitt er þegar við Sóley, dóttir hennar, tölum saman í síma. Hún er svolítið afbrýðisöm út í það og treður sér alltaf inn í símtalið. Ef Guðrún er hjá mér og ég er að tala við Sóleyju tekur Guðrún símann af mér og ef hún er með Sóleyju tekur hún símann af Sóleyju.

Eitt það besta sem hún hefur gert mér var þegar ég var veik með strákana litla heima. Hún kom, tók börnin og sagði: „Farðu í sturtu og vertu lengi.“ Hún er svo næm á að lesa í þarfir, er alltaf á hjartabílnum og veit hvenær hún þarf að koma.“

Guðrún Jónsdóttir

Hún fæddist 21. apríl 1954. Hún tók stúdentspróf við Menntaskólann við Tjörnina 1974, BA-próf í líffræði við Háskóla Íslands 1978 og í félagsráðgjöf í Noregi 1994.

Eftir að hafa kennt við HÍ varð hún starfskona Kvennalistans og síðar Kvennaathvarfsins í Reykjavík. Hún vann að stofnun Stígamóta, var framkvæmdastjóri Kvennaathvarfahreyfingarinnar í Noregi eftir nám þar í landi og tók síðan aftur við framkvæmdastjórastarfi Kvennalistans, en hefur verið talskona Stígamóta frá 1999.

Guðrún stofnaði samtök 225 kvennaathvarfa á Norðurlöndum 1994, hóf útgáfu fréttablaðs samtakanna og var fyrsti ritstjóri þess. Hún er enn í skipulagsnefnd samtakanna, sem sér m.a. um ársþing, ráðstefnur og fundi. Hún hefur verið leiðandi í stofnun kvennaathvarfa og stuðningi við þau í Eystrasaltslöndunum og víðar í Evrópu.

Hún hefur fengið ýmsar viðurkenningar fyrir störf sín, meðal annars var hún sæmd riddarakrossi, heiðursmerki Hinnar íslensku fálkaorðu, fyrir störf að velferð og réttindum kvenna 2006.

Eiginmaður hennar er Tómas Jónsson og eiga þau dæturnar Sóleyju, Þóru og Kristínu og þrjú barnabörn.

Margrét Jónsdóttir

Hún fæddist 6. mars 1966 og varð stúdent frá Fjölbrautaskólanum í Breiðholti 1986. Hún tók BA-próf í spænsku við Háskóla Íslands 1991 og varð doktor í spænskum bókmenntum við Princeton-háskólann í New Jersey í Bandaríkjunum 2001. Síðan lauk hún MBA-námi frá Háskólanum í Reykjavík 2006.

Margrét er forstöðumaður alþjóðaskrifstofu Háskólans í Reykjavík og hefur verið dósent í spænsku við skólann frá 2005, en hóf þar störf 2003. 1995-2003 var hún lektor í spænsku við HÍ og kenndi spænsku við ýmsa skóla frá 1990.

Hún hefur skrifað fjölda greina, ritgerða og bóka um tungumálanám og fleira og haldið mörg erindi um sérsvið sitt. Meðal annars ritstýrði hún Spænsk-íslenskri orðabók sem kom út árið 2007. Hún hefur verið í ótal nefndum og stjórnum og er meðal annars vararæðismaður Spánar á Íslandi.

Eiginmaður hennar er Már Jónsson, prófessor í sagnfræði við HÍ, og eiga þau synina Ara, Bergþór og Snorra.

Eins og sunnudagaskólastúlka við hlið hennar

Guðrún „Ég var orðin vön því að eignast nýtt og nýtt systkini þegar Margrét bættist í hópinn. Þegar hún kom heim af spítalanum man ég eftir því hvað mér þótti strax undurvænt um hana og hvað ég hlakkaði til að koma heim úr skólanum og standa við vögguna og horfa á hana. Þessi tilfinning hefur fylgt mér síðan. Það hefur auðvitað sett mark á hana að hún er yngst og lengi framan af þurfti hún að berjast fyrir plássinu í systkinahópnum. Hún var mjög viðkvæm fyrir því, þegar henni fannst við hin eldri vera fullorðin en ekki hún. Hún var lengi litla barnið í hópnum og það hefur ekki alltaf verið gaman.“

Sigurvegari

„Við elskuðum hana öll en ekki á jafningjagrundvelli. Að hluta til á ég það til að mæðra hana og stundum hefur það pirrað hana en það er eins með hana og dætur mínar þrjár að sambandið við þær og hana er miklu meira jafningjasamband en áður. Segja má að kynslóðirnar hafi ruglast vegna þess að hún var átta ára þegar ég eignaðist mína fyrstu stelpu, Sóleyju. Þær hafa alla tíð verið mjög nánar og meira systur en eitthvað annað. Þær voru svo nánar að ef önnur datt og meiddi sig eða var skömmuð þá grenjaði hin. Í gegnum Sóleyju hefur Margrét verið með Sóleyjarkynslóð og Sóley heimtar að vera hluti af okkar kynslóð í gegnum Margréti. Þær hafa alltaf brúað bil fyrir hvor aðra.

Nýlega áttaði ég mig á því hvers konar þroska og reynslu hún hefur aflað sér í gegnum tíðina. Hvernig hún til dæmis tekur á málum þegar upp kemur ágreiningur eða einhver gengur á hennar rétt. Þá hef ég oft orðið fjúkandi reið fyrir hennar hönd en svo átta ég mig á því að hún hefur þann sjaldgæfa þroska að lyfta sér yfir aðstæður og kemur dúndursterk út úr því, kemur út sem sigurvegari.“

Afkastamikil

„Það fyrsta sem mér dettur í hug, þegar ég er spurð um Margréti, er að hún er eina manneskjan í lífi mínu sem fær mig til þess að finnast ég tiltölulega aðgerðalítil, bara sunnudagaskólastúlka, vegna þess að hún er svo gífurlega afkastamikil. Hún ræður við að hafa svo margt í gangi í einu og gera það vel að ég veit engin dæmi slíks. Mér finnst ég til dæmis hafa verið tiltölulega dugleg í vor. Ég er búin að ganga á Esju, Akrafjall og Leggjarbrjót og að Glym. Á föstudag fyrir rúmri viku kom hún frá Los Angeles og það var ferming hjá henni á sunnudag. Á mánudag hljóp hún á Eiríksjökul og á þriðjudag á Snæfellsjökul. Í samanburði er það sem ég hef verið að ganga eins og að ganga út í búð.

Um daginn var hún á spítala eftir aðgerð og á vöknuninni lauk hún við að fara yfir essin í orðabókinni sem hún er að vinna að meðfram öllu öðru. Eftir hnéaðgerð fór hún beint úr aðgerðinni í kennslu, það leið yfir hana og það varð að ná í hana. Þetta er dæmi um að stundum kann hún sér ekki hóf.

Hún er eldklár. Í skóla tók hún gjarnan helmingi meira nám en aðrir og á helmingi styttri tíma. Hún reif upp spænskudeildina í Háskóla Íslands og nemendum þar fjölgaði mikið. Hún kom á alþjóðlega stöðluðum prófum til þess að tryggja að námið stæðist kröfur hvar sem væri. Ég veit að hún hefur afkastað miklu í HR líka. Hún er margra manna maki. Hún tók doktorsprófið með þrjú lítil börn og var meira eða minna í fullri vinnu allan tímann. Síðan tók hún MBA-námið við HR líka í fullri vinnu með börnin heima. Heimilið hennar er eins og umferðarmiðstöð rétt eins og heimili okkar var í gamla daga og kannski líka heimilið hjá mér. Oft hafa strákarnir hennar spurt hver kæmi í mat í kvöld en ekki hvort einhver kæmi í mat í kvöld. Hún er alltaf með fólk. Við í fjölskyldunni köllum það alþjóðadeildina og erum pínulítið afbrýðisöm, því hún eyðir miklum tíma í það fólk sem hún laðar að sér. Hún er alltaf með hóp af útlendingum, börnum, sjúklingum og öldruðum undir væng sínum. Þegar þau bjuggu í Sevilla á Spáni fórum við hjónin í heimsókn til þeirra. Við vorum rétt komin á staðinn þegar síminn hringdi. Það var kona sem hún hafði hitt í veislu og var við það að fæða barn en þær höfðu sammælst um að Margrét færi til Madrídar og yrði viðstödd fæðinguna. Við það sama hoppaði Margrét upp í lest til þess að vera viðstödd fæðingu hjá konu sem við þekktum ekki neitt. Hennar síðustu orð áður en hún kvaddi var að brýna fyrir okkur að hugsa vel um norska skiptinemann sem við höfðum rétt hitt úti á götu í Sevilla. Hún hafði boðið honum í dagsferð með þeim hjónum og okkur og var hrædd um að við þrjú myndum ekki sinna honum nægilega vel.“

Takmörk

Margrét er gífurlega örlát og eitt af því mikilvægasta og fallegasta sem hún hefur gert fyrir mig var þegar hún tók elstu dóttur mína að sér. Okkur hafði lengi dreymt um að fara til útlanda og læra og þegar kom að því neitaði 16 ára dóttirin að fara með okkur. Við vorum í ákveðinni klemmu en Margrét bauð Sóleyju heim til sín og hafði hana í heimili hjá sér í tvö ár. Þá var hún nýbyrjuð að búa með sínum manni en gerði þetta af svo miklum rausnarskap og stórhug að það var næstum eins og ég væri að gera henni greiða. Þetta var mér algerlega ómetanlegt.

Margrét er mjög fljót að öllu sem hún gerir. Fyrir skömmu vorum við saman á matsölustað á Spáni. Ég var rétt sest og varla búin að taka við matseðlinum þegar Margrét var búin að „mynda“ allan matseðilinn, velja sér rétt og panta hann. Ég var ekki búin að lesa fyrstu línuna þegar hún var búin að afgreiða málið. Hún fer gjarnan fram úr mér og það eru fáir sem standast henni snúning. Það er aldrei ónotuð stund hjá henni. Hún er alltaf á hlaupum og hún hringir gjarnan þegar hún er að keyra á milli staða eða á göngu einhvers staðar. Ég hef sagt henni að mörkin mín séu þar að ég er hætt að tala við hana þegar hún er að ryksuga og þegar hún er með hrærivélina í gangi. Ég nenni því ekki.

Mér finnst eins og ég sé aldrei nógu góð við hana. Ég skamma hana stundum eins og dætur mínar og átta mig svo á því að ég er að skamma hana fyrir þætti sem eru alveg eins hjá sjálfri mér. Það finnst mér ískyggilegt.

Hún er mjög góð mamma. Strákarnir hennar eru ekki mjög vel tamdir, enda ekki uppeldislegt markmið, en þeir eru vel ræktaðir og hún hefur lagt sig fram um að rækta stelpurnar mínar líka. Hún á það til að gefa gjafir sem eru alveg út úr kortinu en þær eru alltaf gefnar af heilum hug.“

Gæðastundir

„Eftir að kreppan skall á ákváðum við að stofna ferðasnyrtistofu og við litum hárið hvor á annarri. Kristín, systir okkar, er líka í því kompaníi og úr þessu hefur okkur tekist að búa til algerar gæðastundir. Þá naglalökkum við okkur, sem við gefum okkur annars aldrei tíma til, litum á okkur augabrýrnar og hlæjum og flissum. Það er einmitt klassískt fyrir Margréti að hún er alltaf að gera margt í einu. Þegar við hittumst til að lita á okkur hárið þá erum við að hittast til þess að njóta samvista en erum jafnframt að gera eitthvað.

Ég held að við séum báðar flinkar í því að hafa það skemmtilegt og njóta lífsins alveg í botn. Að sjá möguleikana. Við sjáum þá alltaf og það er skemmtilegast þegar við sjáum þá saman.“