Sigurbjörn Einarsson
Sigurbjörn Einarsson
25. Jesús kenndi í brjósti um mennina (Matt. 9,36), vorkenndi þeim, svo hraktir og vegavilltir og þjáðir sem þeir eru. Hann þráði ekkert heitar en að fá að hjálpa, styðja, græða, bjarga.

25.

Jesús kenndi í brjósti um mennina (Matt. 9,36), vorkenndi þeim, svo hraktir og vegavilltir og þjáðir sem þeir eru. Hann þráði ekkert heitar en að fá að hjálpa, styðja, græða, bjarga. Það var og er kvölin hans, að mennirnir sjá ekki þörf sína og loka á hann.

Og Jesús veit, hvernig Guð hugsar. Hver sem sér mig sér föðurinn, segir hann (Jóh. 14,9). Orðin mín eru ekki mín, heldur hans, höndin mín er ekki mín, heldur hans. Ég er kominn til að sýna hann og boða ríki hans. Og ríki hans er náð. Þar sem Guð ríkir og ræður þar er allt náð, eilíf náð. Í þessu ljósi getum við séð, að það er náð að þessi heimur er til.

Það er náð, að þú færð að vera til. Það er náð, að þessar dularfullu dyr að baki þér opnuðust og þú fékkst að koma út um þær hingað í heim. Það er náð, að hinar dyrnar framundan þér, ekki síður dularfullar, opnast, þegar stundin er komin, og þú færð að fara út um þær þangað, sem Guð kallar þig þá.

Náðarríki hans er þar fyrir handan. Þar verður það opinbert, sem hér er hulið: Að hann er „yfir og allt um kring með eilífri blessun sinni“, yfir fæðingu þinni og hverju fótmáli ævinnar, yfir dauða þínum og því sem þá tekur við. Það er náð að fá að vita þetta og mega treysta því. Taktu þetta til greina, taktu það til þín, sem

Guð segir við þig í náð sinni. Ljúk þér upp, þú hefur lykilinn: Biðjið og yður mun gefast, sérhver öðlast, sem biður, sá finnur, sem leitar, það er opnað fyrir þeim, sem knýr á, segir Jesús (Matt, 7), enginn fyrirvari um það, enginn vafi.

Getur hann sagt þetta? Getur það verið satt? Getur það staðist í ljósi áþreifanlegra, jarðneskra staðreynda? Hvað heyrir maður og sér í daglegum fréttum? Hvað getur maður orðið að horfa upp á af mannlegum raunum og þrautum, hörku, blindu og grimmd? Og hverju getur maður ekki þurft að mæta af vonbrigðum, óleysanlegum vandamálum, áföllum, þjáningum, sorg? Hvað skyldi verða úr þessum fagnaðarboðskap, þegar maður mætir algeru miskunnarleysi, þegar grimmdin urrar upp á mann úr öllum áttum, þegar allir snúa baki við manni, öll sund lokast, ekkert virðist vera til nema kvöl og myrkur?

Það var nú einmitt þetta, sem Jesús lifði sjálfur. Og sjálfur Guð í honum. Sá Guð, sem Jesús opinberar, er ljós og myrkur er ekki í honum (1. Jóh. 1,5).

En ljósið skín í myrkrinu (Jóh. 1,5). Guð sjálfur er í myrkrinu, neyðinni, kvölinni, örvæntingunni.

Guð lifir alla skelfingu, af því að hann þyrstir að hjálpa. Því vill hann segja við hvern, sem þjáist: Ég er hjá þér, ég stend með þér, ég líð með þér og í þér, þín synd og þraut er mín, við líðum saman, við sigrum saman. Ég er að endurfæða sköpunarverkið mitt með þraut. Með krossins kvöl og þraut, sem fæðir af sér upprisuna, sigur lífsins, sigur kærleikans. Sjá, ég gjöri alla hluti nýja.

Þannig er náðin mín, segir Guð. Og það er þráin mín, að þú, litla barn, viljir verða barn náðar minnar að fullu, vitandi vits, og að eilífu.

Pistlar sr. Sigurbjörns Einarssonar, sem Morgunblaðið birti á sunnudögum á síðasta ári, vöktu mikla ánægju meðal lesenda. Um það samdist, milli sr. Sigurbjörns og Morgunblaðsins, að hann héldi áfram þessum skrifum og hafði hann gengið frá nýjum skammti áður en hann lést.