Alfreð Guðmundsson fæddist í Hafnarfirði 1. ágúst 1946. Hann andaðist í Vikersund í Noregi 20. maí 2009 og fór útför hans fram frá Hafnarfjarðarkirkju 5. júní.

Alfreð Guðmundsson mágur minn og vinur er látinn. Alls óvænt var hann hrifinn brott úr þessum heimi frá miklum áformum. Hann var í miðjum klíðum að byggja upp hótelrekstur á Filippseyjum með eiginkonu sinni, kunni vel við sig í sólarhitanum og átti þar fjölda vina.

Alli var bjartsýnn og hamingjusamur í fermingarveislu hjá okkur um páskana og er það góð minning. Hann vildi að við kæmum sem fyrst í heimsókn og fyrir hans tilstuðlan hlaut dóttir okkar þar hlýjar móttökur fyrr í vetur.

Alli var maður breytinga og átaka, óragur að takast á við ný og spennandi, allt að því óhefðbundin, verkefni. Honum leið aldrei betur en þegar hann stóð í framkvæmdum. Hann hafði hrifist af asískum vörum, flutt þær til Íslands og selt í verslunum sínum. Einnig seldi hann fisk út til Asíulanda.

Leiðir okkar Alla lágu saman þegar hann var að fara sinn fyrsta túr sem bátsmaður á togaranum Bjarna Benediktssyni, en ég var háseti í sumarvinnu á hans vakt. Ég fann að hann var dálítið spenntur að taka við svo erfiðu ábyrgðarstarfi og vildi greinilega standa sig, sem hann og gerði. Hann var sterkur, snar í snúningum, djarfur, kunni vel til verka á dekkinu og var okkur strákunum góð fyrirmynd við sjómannsstörfin. Hann var afbragðs netagerðarmaður og hafði næman skilning á trollinu. Mér er enn minnisstætt er hann útskýrði fyrir mér á mjög lifandi hátt hvernig sérhver hluti trollsins hegðaði sér á sjávarbotni og hvers bæri að gæta svo ekkert truflaði það. Það kom því ekki á óvart að Alli gerði síðar merkar endurbætur á uppbyggingu trollsins, sem hann framleiddi í eigin netaverkstæði og seldi víða um land.

Í landlegunni bauð Alli mér á Hringbrautina að hitta móður sína Sillu sem var honum afar kær. Ég vissi ekki þá að ég ætti síðar eftir að venja komur mínar á það góða heimili.

Í næsta veiðitúr slasaðist Alli alvarlega og féll það í minn hlut sem læknastúdent að annast hann og hafa samskipti við lækna í landi þar til hann kæmist á sjúkrahús. Höfðu afleiðingar slyssins slæm áhrif á hann, en með miklum karakterstyrk tókst honum að fóta sig í tilverunni á ný.

Alli var margfróður og lífsreyndur og gat skýrt frá flóknum hlutum ljóst og sannfærandi. Hann var tilfinninganæmur og kappsfullur, á vissan hátt hugsjónamaður, með heiðarleika og réttsýni að leiðarljósi. Hann var tilbúinn að berjast, tók virkan þátt í stofnun stjórnmálahreyfingar og gerðist kosningastjóri.

Eftir að við Alli bundumst fjölskylduböndum höfum við átt ótal skemmtilegar samverustundir. Það var ekki lognmolla yfir Alla, þvert á móti vissi maður vel af nærveru hans. Hann var fljótur í ferðum, kallaður „Alli á pedalanum“ eftir að hafa ekið alla Evrópu á einni viku.

Á vissan hátt má segja að Alli hafi lifað hratt og upplifað meira en margur gerir á langri ævi. Nú hverfur hann aftur til foreldra sinna sem hann mat svo mikils. Ég kveð góðan vin með söknuði og sendi samúðarkveðjur til eiginkonu hans, barna og barnabarna sem eiga um sárt að binda. Megi góður guð styrkja þau og blessa.

Atli Ólason.

Kveðja frá FH

Þegar við FH-ingar fréttum lát Alfreðs Guðmundssonar hvarflaði hugurinn nokkur ár aftur í tímann. Allt frá því að nokkrir strákar í FH létu sig dreyma um að eiga alvöru fótboltalið hafa ýmsir lagt hönd á plóg til að gera þann draum að veruleika. Það var býsna grýtt leið og tók áratugi. Þá var nauðsynlegt að eiga kraftakarla sem létu hlutina gerast með dugnaði og áræði. Einn af þeim var Alfreð Guðmundsson.

Alli sat í stjórn knattspyrnudeildar FH á árunum 1988 til 1993. Hann var maður sem gerði hlutina og miklaði lítt fyrir sér þótt hindranir væru framundan. Þeir sem setið hafa í slíkum stjórnum þekkja þungan rekstur íþróttafélaga og eftir á furða menn sig stundum á hvernig hlutirnir gengu upp. Alli var athafnamaður og hamhleypa og þeirra eiginleika naut FH í ríkum mæli.

Þótt Alli byggi erlendis hin síðari ár fylgdist hann grannt með stöðunni í Kaplakrika og gladdist mjög yfir velgengni síðustu ára. Sú velgengni er ekki sjálfgefin og gott að minnast þess að fyrir störf manna eins og Alfreðs Guðmundssonar hefur FH orðið það sem það er í dag. Við FH-ingar söknum vinar í stað og þökkum störf Alfreðs fyrir FH um leið og við sendum öllum aðstandendum hans okkar innilegustu samúðarkveðjur.

Viðar Halldórsson, formaður FH.