Töff Lögmenn í Boston Legal.
Töff Lögmenn í Boston Legal.
Lögfræðingarnir í Boston Legal-þáttunum á Skjá einum, sem nú hafa, illu heilli, sungið sitt síðasta, voru ofursnjallir og tóku oft að sér mál, sem virtust í meira lagi fjarstæðukennd. Þættirnir voru lúmsk háðsádeila og eftir á að hyggja býsna raunsæir.

Lögfræðingarnir í Boston Legal-þáttunum á Skjá einum, sem nú hafa, illu heilli, sungið sitt síðasta, voru ofursnjallir og tóku oft að sér mál, sem virtust í meira lagi fjarstæðukennd. Þættirnir voru lúmsk háðsádeila og eftir á að hyggja býsna raunsæir. Þeim lauk með því að Kínverjar sölsuðu fyrirtækið undir sig. Yfirtakan var mikið sjónarspil og ólíkindaleg vægast sagt. En þó ekki, Kína er jú eitt mesta fjármálaveldi heims og svona nokkuð gæti vel gerst í raunveruleikanum, hefur kannski gerst og er að gerast.

Sjálf horfði ég í forundran á einn síðasta þáttinn þegar gömul kona stefndi bandarískum sjónvarpsstöðvum fyrir mismunun. Henni fannst sér og sinni kynslóð gróflega misboðið með endalausu sjónvarpsefni fyrir unglinga. Og vann. Enda með rosalega flinkan lögfræðing.

Mér detta í hug ýmsir þættir, sem sú gamla hefur ábyggilega haft í huga. Flestir þekkja framhaldsþættina um amerísku gelgjuna og kappleikina um hver sé besta fyrirsætan, söngvarinn, dansarinn... og allan tilfinningaharmleikinn hjá þeim sem tapa. Kannski hefur Boston Legal vikið fyrir barnaþætti af þessu taginu. Er góður lögfræðingur á lausu?

Valgerður Þ. Jónsdóttir