Talsvert uppnám hefur orðið í þjóðfélaginu út af ljósmynd Sigurðar Guðmundssonar, lykilverki á listamannsferli hans, sem Listasafn Íslands keypti á 10 milljónir króna. Ýmsum sem tjáð hafa sig um málið þykir mikið í lagt að kaupa ljósmynd svo dýrum...

Talsvert uppnám hefur orðið í þjóðfélaginu út af ljósmynd Sigurðar Guðmundssonar, lykilverki á listamannsferli hans, sem Listasafn Íslands keypti á 10 milljónir króna. Ýmsum sem tjáð hafa sig um málið þykir mikið í lagt að kaupa ljósmynd svo dýrum dómum.

Slíkt segir heilmikla sögu af afstöðu margra til ljósmyndarinnar sem listgreinar, sem og til kvikmyndarinnar og nú síðast til vídeósins. Verður þessum viðhorfum best lýst sem fordómum.

Af einhverjum ástæðum rifjast upp fyrir mér saga sem Frank heitinn Ponzi, listfræðingur með meiru, sagði mér fyrir margt löngu.

Ponzi var mikill fagurkeri, áhugamaður um ljósmyndir og ljósmyndun, en leiðir okkar lágu saman vegna sameiginlegs áhuga á kvikmyndum sem listgreinar.

Sagan hans Ponzi hefst þegar hann starfaði sem listráðunautur hjá Guggenheim-safninu í New York nokkru áður en hann fluttist til Íslands seint á sjötta áratugnum með konu sinni, Guðrúnu Tómasdóttur söngkonu.

Hann var að róta í gömlum plöggum í safninu og rakst þá fyrir tilviljun á skjöl um að safnið hefði talsvert löngu áður fengið ýmsa helstu nútímamálara Bandaríkjanna á þessum tíma, væntanlega listamenn á borð við Jackson Pollock, Willem De Kooning, Mark Rothko, Franz Kline, Frank Stella o.fl., til að gera tilraunir til að yfirfæra listsköpun sína á kvikmyndir.

Guggenheim átti sem sagt vænt safn af tilraunakenndum kvikmyndum helstu nútímalistamanna Bandaríkjanna fyrir seinni heimsstyrjöldina, en sér til furðu komst Ponzi að því að engin vitneskja var um þetta safn hjá Guggenheim.

Ástæðan var vafalaust sú að kvikmyndirnar voru teknar á filmur sem innihéldu mikið af efninu nítróglýseríni og þar af leiðandi stafaði af þeim sprengihætta. Myndunum var vegna þessa komið fyrir í eldtraustu byrgi úti á Long Island þar sem þær féllu í gleymsku sem segir auðvitað sína sögu um afstöðuna til þessarar tegundar listar á þessum tíma.

Ponzi sagðist auðvitað hafa orðið óður og uppvægur við þennan fund og rokið út á Long Island til að huga að myndunum. Þar hitti hann einn varðanna sem gætt höfðu byrgisins um árabil og ekki séð starfsmann safnsins fyrr en Ponzi birtist þarna óvænt.

Saman fóru þeir niður í byrgið og opnuðu hirslurnar sem geymdu fjársjóðina.

En viti menn – filmurnar voru allar orðnar að dufti, enginn hafði hirt um að yfirfæra þær í endingarbetra form. Verðirnir höfðu því vakað yfir dufti nótt sem nýtan dag svo árum skipti.

Mér hefur oft síðan orðið hugsað til þessara vörslumanna duftsins. bsv@mbl.is

Björn Vignir Sigurpálsson