Silfurdrengirnir „Myndin, með sínum jákvæða boðskap og trú á að ekkert sé útilokað, á að vera til á hverju heimili.“
Silfurdrengirnir „Myndin, með sínum jákvæða boðskap og trú á að ekkert sé útilokað, á að vera til á hverju heimili.“ — Morgunblaðið/Brynjar Gauti
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Íslensk heimildarmynd. Leikstjóri: Þór Elís Pálsson. Handrit: Þór Elís og Anna Þóra Steinþórsdóttir. Kvikmyndataka: Guðbergur Davíðsson. Klipping: Anna Þóra Steinþórsdóttir. Hljóð: Gunnar Árnason. Tónlist: Valtýr Guðjónsson. Þulur: Hilmir Snær Guðnason.

Íslensk heimildarmynd. Leikstjóri: Þór Elís Pálsson. Handrit: Þór Elís og Anna Þóra Steinþórsdóttir. Kvikmyndataka: Guðbergur Davíðsson. Klipping: Anna Þóra Steinþórsdóttir. Hljóð: Gunnar Árnason. Tónlist: Valtýr Guðjónsson. Þulur: Hilmir Snær Guðnason. Framleiðandi: Guðbergur Davíðsson. Helstu viðmælendur: Guðmundur Þ. Guðmundsson og íslenska handboltalandsliðið. Hvíta fjallið, HSÍ og RÚV, með styrk frá Kvikmyndamiðstöð. 81 mín. Ísland 2009.

Eins og nafnið gefur til kynna fjallar heimildarmyndin Gott silfur gulli betra um glæsilegustu frammistöðu íslenskra hópíþróttamanna á stórmóti; silfurverðlaunahafana, handboltakempurnar okkar á Ólympíuleikunum í Beijing sumarið 2008. Myndin byrjar á slæmu gengi „strákanna okkar“ í síðasta Evrópumóti og undankeppninni fyrir Ólympíuleikana þar sem við börðumst um laust sæti og unnum það. Síðan hefst þessi ótrúlega sigurganga í Kína, sem byrjar á rosalegum nótum; sigri á Rússum og Þjóðverjum og í framhaldinu slátrum við hverri stórþjóðinni á fætur annarri uns komið er í úrslitaleikinn og eina tapleikinn – á móti heimsmeisturum Frakka.

Kvikmyndafólkið fylgist náið með keppendunum, þjálfaranum og aðstoðarfólkinu, þessum firna vel samvalda hópi sem ruddi hverri hindruninni á eftir annarri úr vegi í markvissri átt að glæsilegasta árangri okkar manna og vakti athygli um heimsbyggðina. Reynt er að komast að leyndarmálinu á bak við árangurinn, þar sem allt og allir lögðust á eitt um að við berðumst um gullið, nokkuð sem enginn gat ímyndað sér á undirbúningstímanum.

Það er ljóst að Guðmundur og aðstoðarmenn hans höfðu getuna og kunnáttuna til að laða fram (mótívera) allt það besta í leikmannahópnum og láta hann toppa á réttum tíma. Farið er vel og vandlega yfir myndbönd af leikjum andstæðinganna, hópurinn geymdur í hálfgerðri einangrun til að forðast truflanir frá umhverfinu. Guðmundur og co. sömdu skotheldar hernaðaráætlanir, leituðu uppi veikleika andstæðinganna og hinn heimspekilega sinnaði fyrirliði og stórmenni í íþróttinni, Ólafur Stefánsson, sá um andlega uppbyggingu sem skilaði mikilvægum árangri.

Keppnin fór fram síðsumars, rétt fyrir fallið mikla, bankahrunið, heimskreppuna. Það lék allt í lyndi og ráðamenn enn steinblindir á að við vorum að hrapa fram af brúninni fáeinum dögum síðar. Síðan „strákarnir okkar“ þjöppuðu saman þjóðinni og fylltu hjarta okkar gleði og stolti hefur lítið jákvætt gerst til að hressa upp á þjóðarsálina. En minningin um ævintýralegan árangur snillinganna sem lyftu merki lands og þjóðar í hæstu hæðir í Beijing verður aldrei frá okkur tekin og nú er komin þessi fína mynd, vel gerð, frábærlega klippt og skorin, sem við getum glatt okkur yfir um ókomin ár. Handboltalandsliðið sýndi og sannaði, líkt og Vilhjálmur Einarsson og fleiri góðir menn, að við eigum jafnan að taka þátt í stórmótum, minnast Davíðs og Golíats, Guðmundar og hetjanna hans. Myndin Gott silfur gulli betra , með sínum jákvæða boðskap og trú á að ekkert sé útilokað, á að vera til á hverju heimili. Þá getum við upplifað hrifningarölduna sem umlék landsmenn á þessum dýrðardögum fyrir ósköpin. saebjorn@heimsnet.is

Sæbjörn Valdimarsson