— Morgunblaðið/Golli
Hvað efnisleg gæði snertir, þá er nægjusemin engin, aðeins græðgi, græðgi, græðgi, kröfur og kröfur. En við sýnum því hinsvegar lítinn áhuga að rækta okkar innri mann. Dalai Lama, trúarleiðtogi Tíbeta.

Hvað efnisleg gæði snertir, þá er nægjusemin engin, aðeins græðgi, græðgi, græðgi, kröfur og kröfur. En við sýnum því hinsvegar lítinn áhuga að rækta okkar innri mann.

Dalai Lama, trúarleiðtogi Tíbeta.

Á krepputímum á að lækka skatta og örva neyslu, en hækka skatta og draga úr neyslu á þenslutímum. Ætlum við aldrei að læra svo einfaldan hlut?

Halldór I. Elíasson stærðfræðingur, í grein í Morgunblaðinu.

Þetta eru stærstu þáttaskilin í Íslandssögunni frá styrjaldarárunum og því draumur sagnfræðinga með áhuga á samtímanum að ráðast í svona skrif.

Guðni Th. Jóhannesson, lektor við Háskólann í Reykjavík, um efni nýrrar bókar sinnar „Hrunið“.

Nú erum við víst orðnir norðurbæingar á Akureyri. Hríseyingar eru þá miðbæingar og allir hinir innbæingar.

Garðar Ólason, oddviti Grímseyinga, eftir sameiningu Grímseyjar og Akureyrar.

Ég óttast að það verði hrikalegar uppsagnir framundan ef svo heldur fram sem horfir.

Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ.

Í stað hjálpar búa þessi heimili við sértækar, flóknar og jafnvel lítillækkandi aðgerðir af hálfu stjórnarinnar. Teygjulán, bómullargjaldþrot og þvíumlíkt.

Þráinn Bertelsson, þingmaður Borgarahreyfingarinnar.

Töfralausnirnar og yfirboðin og popúlisminn hjálpar ekki nokkrum manni nokkurn skapaðan hlut heldur raunhæfar aðgerðir, sem eru í samræmi við getu þjóðarbúsins.

Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra.

Það má segja að það sé komið á kartöflustríð milli okkar, Þykkbæinga og „Kalla kartöflukóngs“.

Markús Ársælsson í Hákoti, en ágreiningur er á milli landeigenda nokkurra jarða í Þykkvabæ í Rangárþingi ytra og Karls Ólafssonar í Háfi um landskikann Borgartúnsnes.

Obama leitar sátta við múslima og Ísraelar munu verða að borga brúsann.

Ísraelskur fréttaskýrandi.

Íslendingar sitja ekki og væla yfir hlutunum. Bretar hata ekki Íslendinga og aðrir eiga eftir að skilja út af hverju þegar þeir sjá þessa mynd.

Breska kvikmyndagerðarkonan Heather Millard, sem gerir heimildarmynd um Ísland eftir bankahrunið.

Mér varð hugsað til konunnar, en hún stóð á kajanum og horfði á þetta allt saman.

Karl Einar Óskarsson, annar tveggja manna sem voru í hafnsögubátnum Auðuni, sem sökk í Sandgerðishöfn.

Okkur er umhugað um að heildarmarkmiðum sé náð, en ekki um smáatriði eins og hver vaxtaprósentan er, hversu mikið henni er breytt og hvenær. Slíkar ákvarðanir eru komnar undir Seðlabankanum sjálfum og peningastefnunefnd.

Franek Rozwadowski, fastafulltrúi IMF á Íslandi.

Mín skilaboð til stjórnvalda eru þessi: Hendið hugmyndinni og byrjið að bjarga þjóðinni.

Þorvarður Gunnarsson, framkvæmdastjóri Deloitte, um fyrningarleiðina, á fundi um auðlindanýtingu í Vestmannaeyjum.