Úlfarsárdalur Sextán eigendur útboðslóða hjá borginni hafa formlega óskað eftir að fá að skila þeim en ekki fengið. Fleiri hafa óskað eftir að skila lóðum sínum og fengið neitun í gegnum síma.
Úlfarsárdalur Sextán eigendur útboðslóða hjá borginni hafa formlega óskað eftir að fá að skila þeim en ekki fengið. Fleiri hafa óskað eftir að skila lóðum sínum og fengið neitun í gegnum síma. — Morgunblaðið/RAX
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Einn hefur stefnt og annar hótar að stefna út af því að fá ekki að skila útboðslóð til borgarinnar. Því fyrr sem fæst niðurstaða því betra fyrir alla, segir skrifstofustjóri hjá Reykjavíkurborg.

Eftir Gunnhildi Örnu Gunnarsdóttur

gag@mbl.is

Verktakafyrirtækið Verkland hefur krafið borgina um að greiða sér til baka, með vöxtum og verðbótum, lóð að Nönnubrunni í Úlfarsárdal sem fyrirtækið keypti í útboði í maí 2006. Fyrir byggingarrétt á lóðinni greiddi Verkland rúmar 78,5 milljón króna en vill nú þremur árum síðar rúmar 120 milljónir króna endurgreiddar.

Eins og kunnugt er hefur borgin hafnað því að taka við útboðslóðum, utan þess að borgarráð veitti framkvæmdasviði leyfi til að taka við sex lóðum greiddum með skuldabréfi frá borginni hefðu eigendur þeirra lent í vanskilum. Framkvæmdasvið hefur tekið við einni slíkri. Borgin tekur einungis við lóðum sem úthlutað var á föstu verði og greiðir út auk vaxta og verðbóta.

Byggingarréttur á hverri lóð í útboði í Úlfarsárdal kostaði milljónir, jafnvel tugi milljóna, og kappsmál fyrir þá sem keyptu og geta nú ekki byggt vegna efnahagsástandsins að skila þeim aftur.

Í ýtarlegri greinargerð Verklands, sem lögmaður þess Einar Gautur Steingrímsson undirbjó og sendi til borgarstjórnar á fimmtudag, er rakið hvernig borgin hefur að mati þess ekki staðið við sinn hluta samningsins. Fallist hún ekki á að taka við lóðinni á grundvelli söluskilmálanna sjálfra, reglna borgarinnar um skil á byggingarrétti á lóðum eða af jafnræðissjónarmiðum, rifti verktakinn samningnum. Það geri fyrirtækið á þeim forsendum að borgin hafi ekki afhent það sem hún seldi. En það sem hafi gert útslagið að Verkland keypti lóðina hafi verið frétt á fréttatorgi Reykjavíkurborgar. Þar stóð m.a. að skólar og þjónusta yrðu í göngufæri við íbúðir, byggðin þétt og íbúar gætu sótt vinnu í hverfinu og þyrftu sem minnst að sækja út fyrir hverfið. Þessar forsendur hafi allar brostið. Til dæmis sé nú engin atvinnustarfsemi á svæðinu eftir að lögreglan stöðvaði þar kumpána með ólöglega plönturæktun!

Þá hafi borgin með saknæmum hætti og af stórfelldu gáleysi valdið töfum á því að byggingarframkvæmdir gætu hafist, með því að hafa rangt deiliskipulag á vef sínum með ómældum kostnaði fyrir fyrirtækið, sem þurfti af þeim sökum að láta endurhanna blokkina sem það hugðist reisa á lóðinni. Verktakinn náði því ekki að byggja í tíma áður en fasteignamarkaðurinn brast.

Verkland ætlar að stefna borginni fallist hún ekki á að taka við lóðinni. Það gefur henni tíu daga til að svara.

Ágúst Jónsson, skrifstofustjóri framkvæmdasviðs borgarinnar, fékk bréfið ekki samdægurs í hendur en staðfestir að fyrirtækið hafi sent greinargerð fyrir mánuði með kröfum um að skila lóðinni. Rök þess hefðu verið í skoðun hjá borginni og formlegt svar því ekki borist fyrirtækinu. Hann telur málið þurfa úrskurðar dómstóla því sannarlega sé ágreiningur um það: „Dómstólaleiðin er opin.“ Nokkur mál séu einnig í samgönguráðuneytinu þar sem menn hafa kært synjun borgarinnar á að taka við útboðslóðum og hann staðfestir að þegar hafi eitt fyrirtæki stefnt borginni vegna lóðar í Hádegismóum sem það vilji skila: „Því fyrr sem fæst niðurstaða, því betra fyrir alla.“

Fjölskyldur fái að skila

SAMFYLKINGIN lét bóka á fundi borgarráðs á fimmtudag að mikilvægt væri að útfæra tillögur um hvernig standa mætti að endurgreiðslu lóða til fjölskyldna sem fengu úthlutaðar lóðir eftir útboð, þannig að jafnræðis sé gætt.

„Til að það verði hægt óska fulltrúar Samfylkingarinnar eftir því að framkvæmda- og eignasvið upplýsi borgarráð og leggi mat á hugsanleg fjárútlát borgarinnar vegna slíkrar tillögugerðar.“

Ástæðu þessarar fyrirspurnar segir Samfylkingin vera að nú hafi 85 einbýlishúsalóðum, 16 lóðum undir par- og raðhús (94 íbúðir) og fjórum lóðum undir fjölbýli með 216 íbúðum verið skilað. Alls 395 lóðum á föstu verði hafi verið skilað en þar til nýlega engri sem úthlutað var eftir útboð.