Fórnarlambið Benno Ohnesorg borinn á brott eftir að lögregluþjónn skaut hann 2. júní 1967. Ohnesorg lést af sárum sínum.
Fórnarlambið Benno Ohnesorg borinn á brott eftir að lögregluþjónn skaut hann 2. júní 1967. Ohnesorg lést af sárum sínum. — AP
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eftir Karl Blöndal kbl@mbl.is Sumarið 1967 var ólga í loftinu í Vestur-Þýskalandi. Nýir straumar fóru um þjóðfélagið og ríkjandi viðhorf voru dregin í efa. Margt varð til þess að ýta undir róttækni á þessum tíma.

Eftir Karl Blöndal

kbl@mbl.is

Sumarið 1967 var ólga í loftinu í Vestur-Þýskalandi. Nýir straumar fóru um þjóðfélagið og ríkjandi viðhorf voru dregin í efa. Margt varð til þess að ýta undir róttækni á þessum tíma. Einn af þeim viðburðum var morðið á Benno Ohnesorg. Ohnesorg var einn af fjölmörgum, sem tóku þátt í mótmælum gegn Íranskeisara, sem þá var í heimsókn í Vestur-Berlín, 2. júní. Hann var á ferð með konu sinni, Christu. Þau voru nýgift og áttu von á barni. Henni fannst ástandið ógnvekjandi og fór heim. Honum hafði blöskrað ofbeldi lögreglu og vildi sjá hvað væri á seyði þar sem lögregla rak mótmælendur á undan sér. Á torgi í hverfinu Charlottenburg slógu þrír lögregluþjónar Ohnesorg niður. Svo gall skotið við og Ohnesorg lá í blóði sínu. Skotið kom úr byssu lögreglumannsins Karl-Heinz Kurras og hæfði Ohnesorg í hnakkann.

Vitni heyrðu lögregluþjón ganga að Kurras og hrópa: „Ertu galinn að skjóta hérna?“ „Skotið hljóp af,“ á Kurras að hafa svarað.

Morðið á Ohnesorg hafði víðtækar afleiðingar og Kurras var í huga margra birtingarmynd hins fasíska eðlis að baki þýska stjórnkerfinu.

Það var því sem eldingu hefði lostið í þýskt samfélag þegar greint var frá því í fréttum í Þýskalandi fyrir hálfum mánuði að Kurras hefði leikið tveimur skjöldum. Hann hefði verið útsendari Stasi, þýsku öryggislögreglunnar, og félagi í austurþýska kommúnistaflokknum, SED. Um árabil hafði hann stundað njósnir fyrir Austur-Þýskaland.

„Maðurinn, sem að því er virðist skaut á meinlausan mótmælanda án þess að honum væri ógnað, var innblásinn af sósíalískri hugmyndafræði,“ sagði í vikublaðinu Der Spiegel . „Skyndilega spurðu sig margir hvort þeir hefðu lifað fölsku lífi. Hvort þeir hefðu breytt nákvæmlega eins hefðu þeir vitað að draumar Kurras voru ekki brúnir á litinn, heldur rauðir?“

Í kvikmyndinni Baader Meinhof Komplex, sem sýnd var hér á landi fyrr á þessu ári, er áhersla lögð á afleiðingarnar af morðinu á Ohnesorg. En nú er komið í ljós að forsendurnar voru rangar.

2. júní 1967 var upphafið að þeirri bylgju, sem náði hámarki 1968. Morðið á Ohnesorg átti stóran þátt í þeirri djúpu gjá, sem myndaðist á milli stúdenta og stjórnvalda í Vestur-Þýskalandi. Það hafði mikil áhrif á forsprakka hryðjuverkahreyfingarinnar, sem kennd var við Andreas Baader og Ulrike Meinhof og á áttunda áratugnum hélt Vestur-Þýskalandi í greipum ógnar. „Kúlan úr byssu þessa lögreglumanns, Kurras, sem myrti Ohnesorg – hún breytti raunverulega öllu,“ sagði Bommi Baumann, sem var viðriðinn hryðjuverkahreyfinguna.

„2. júní 1967 var fæðingardagur stúdentahreyfingarinnar,“ skrifar Bernd Ulrich í vikublaðið Die Zeit , „nú er ljóst að hún var með fæðingargalla.“

Ekki er hægt að ráða af gögnunum, sem fundist hafa um störf Kurras fyrir Austur-Þjóðverja, að hann hafi skotið Ohnesorg að þeirra undirlagi, þótt ljóst sé að austurþýsk stjórnvöld hafi séð sér hag í að kynda undir ólgu í grannríkinu.

Eins og bent er á í Der Spiegel skaut Kurras eftir sem áður Ohnesorg, „en það er ekki lengur hægt að kalla hann strengjabrúðu ríkis með fasískar tilhneigingar. Hann var strengjabrúða sósíalísks ríkis...“

Það er því eðlilegt að menn spyrji sig hvað hefði gerst ef strax hefði komið í ljós að Kurras væri félagi í SED og útsendari Stasi? Hefði það breytt þýskri sögu? Hefðu mótmælin 1968 ekki átt sér stað?

Ógerningur er að segja til um það, en óhætt er að fullyrða að tekið hefði verið á máli Kurras með öðrum hætti. Á sínum tíma stóð borgarstjóri Berlínar með honum og sömuleiðis forusta lögreglunnar. Sagt var að hann hefði „farið rétt að“. Fjölmiðlar forlags Axels Springers sögðu að Kurras væri tryggur vörður vestræns frelsis. Ohnesorg hefði verið fórnarlamb skrílsláta. Rannsakað hefur verið að 83% frétta fjölmiðla Springers fjölluðu um mótmæli stúdenta með niðrandi hætti árið 1967. Ljóst var að kerfið stóð með lögreglumanninum. Sönnunargögn hurfu og hann var sýknaður af ákæru um að hafa myrt Ohnesorg. Hefðu réttarhöldin farið á annan veg ef vitað hefði verið að Kurras léki tveimur skjöldum?

Kurras var sem sagt birtingarmynd fasismans í augum vinstriafla og brjóstvörn lýðræðisins í augum hægriafla. Nú geta vinstrimenn farið í naflaskoðun út af skoðanabróðurnum, sem var gerður að skotskífu, og hægrimenn nagað sig í handarbökin yfir því að hafa varið manninn, sem vildi grafa undan málstað þeirra. Engin svör eru til við spurningunni um það hvað hefði gerst ef sannleikurinn um Kurras hefði strax komið fram. Sagan verður hins vegar ekki skrifuð með sama hætti og áður.

Andlit fasismans reyndist útsendari Stasi

Karl-Heinz Kurras sýndi aldrei neina iðrun eftir atburðina á torginu í hverfinu Charlottenburg í Vestur-Berlín 2. júní 1967. Þá varð skot úr byssu hans Benno Ohnesorg, 26 ára gömlum háskólastúdent, að bana.

Nú hafa fundist gögn um að hann hafi verið á mála hjá þýsku öryggislögreglunni, Stasi, og félagi í þýska kommúnistaflokknum, SED. Gögnin fylla sautján möppur.

Starfsemi Kurras fyrir Austur-Þjóðverja hófst 19. apríl 1955. Þá var Kurras 27 ára og yfirmaður í lögreglunni í Vestur-Berlín. Þennan dag bankaði hann upp á hjá miðstjórn SED í Austur-Berlín og bað um að fá að tala við fulltrúa öryggislögreglunnar.

Samkvæmt gögnum hélt Kurras því fram að hann væri ósáttur við pólitíska þróun mála í Vestur-Berlín og myndi fremur vilja helga krafta sína „hinu betra Þýskalandi“. Viðmælandi hans sá strax fyrir sér hvernig lögregluþjónninn gæti nýst og sannfærði hann um að hann kæmi að mun meira gagni með því að vera áfram vestan megin og veita Stasi upplýsingar á laun.

Nokkrum dögum síðar hitti hann tengilið sinn og skrifaði þá: „Þótt ég sé pólitískt ólærður er ég þeirrar skoðunar að leið austursins er hin rétta pólitíska leið. Til að aðstoða við þessa þróun er ég tilbúinn að greina fulltrúa öryggislögreglunnar frá atburðum innan lögreglunnar sannleikanum samkvæmt. Ég lýsi mig reiðubúinn til algerrar þagnar gagnvart hverjum sem er um störf mín. Ég mun undirrita skýrslur mínar með dulnefninu „Otto Bohl“. Karl-Heinz Kurras.“

Kurras reyndist í áranna rás drjúg uppspretta upplýsinga um innra starf lögreglunnar og gat iðulega varað aðra útsendara við. Árið 1965 var hann meira að segja kvaddur í sérhóp, sem hafði það hlutverk að finna uppljóstrara, sem vitað var að væri innan lögreglunnar. Aðgerðin hét „kvöldroði“ og Kurras lét hana ekki koma sér úr jafnvægi. Áfram hélt hann að senda upplýsingar og gögn til Stasi.

Stasi sleit sambandinu við Kurras eftir morðið á Ohnesorg. Honum var vikið tímabundið frá störfum, en fór aftur til vinnu eftir að hafa verið sýknaður í réttarhöldum og var í lögreglunni til ársins 1987. Kurras er nú 81 árs. „Hvað með það þótt ég hafi unnið fyrir Stasi,“ sagði hann í viðtali við Bild fyrir nokkrum dögum. „Það breytir engu.“

Stasi skildi eftir sig slóð mála í Vestur-Þýskalandi

Austur-þýska öryggislögreglan, Stasi, eitraði austur-þýskt samfélag með linnulausum persónunjósnum. Hún hafði einnig sín áhrif á gang mála í Vestur-Þýskalandi. Mál Karls-Heinz Kurras þykir sýna hve ófullkomna mynd menn hafa gert sér af störfum Stasi í vestrinu.

Ýmislegt er þó vitað. Stasi mútaði þingmönnum og breiddi út falsaðar upplýsingar um forystumenn í stjórnmálum. Stasi hjálpaði einnig hryðjuverkamönnum, sem voru eftirlýstir í Vestur-Þýskalandi, að hverfa sporlaust í Austur-Þýskalandi.

Eitt þekktasta málið varðaði Günter Guillaume, sem kom til Vestur-Þýskalands sem flóttamaður árið 1956 og gekk í flokk sósíaldemókrata. Árið 1970 fékk hann stöðu í skrifstofu kanslarans og var orðinn einn af nánustu samstarfsmönnum Willys Brandts 1972. 1973 vöknuðu grunsemdir um að hann væri njósnari fyrir Austur-Þýskaland og í apríl 1974 voru hann og kona hans handtekin. Brandt sagði af sér skömmu síðar.

Ekki ástæða til að skrifa söguna upp á nýtt

Otto Schily, fyrrverandi ráðherra, var lögfræðingur fjölskyldu Bennos Ohnesorgs í málinu gegn Karl-Heinz Kurras. Hann segir að hann hefði aldrei getað gert sér í hugarlund að Kurras hafi verið útsendari Stasi. Í viðtali við þýska vikublaðið Der Spiegel vill hann þó ekki gera of mikið úr hlut Kurras. Horfa verði á hlutina í heildarsamhengi. „Sá sem segir að nú þurfi að skrifa sögu '68-hreyfingarinnar upp á nýtt hefur rangt fyrir sér,“ segir hann.

Hann segir hins vegar að hefði sannleikurinn verið kominn fram á sínum tíma hefði það breytt gangi réttarhaldanna og dauði Ohnesorgs upplýstur að fullu. Schily á ekki von á að málið verði tekið upp að nýju þar sem engar vísbendingar sé að finna um að Stasi hafi skipað Kurras að skjóta stúdent í mótmælum.

Einnig á mála hjá sovéskum yfirvöldum?

Karl-Heinz Kurras virðist ekki aðeins hafa verið á mála hjá Stasi, heldur einnig sovésku leynþjónustunni. Kurras barðist fyrir nasista. Sovétmenn tóku hann til fanga og var hann í haldi í Buchenwald. Kurras er á lista MVD, forvera KGB, yfir fanga. Af honum má ráða að Kurras hafi verið félagi í kommúnistaflokknum, KPD, frá 1945, en samkvæmt gögnum Stasi byrjaði hann ekki að vinna fyrir Austur-Þjóðverja fyrr en 1955. 1946 var Kurras dæmdur í tíu ára fangelsi fyrir að vera með vopn, en var látinn laus 1950, mun fyrr en aðrir fangar Sovétmanna, og þykir það vísbending um að hann hafi þegar verið kominn á mála.