Töffarar Söngleikurinn um bandarísku unglingana hefur notið mikilla vinsælda um allan heim.
Töffarar Söngleikurinn um bandarísku unglingana hefur notið mikilla vinsælda um allan heim.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Söngleikurinn Grease verður frumsýndur í Loftkastalanum á föstudag. Hann hefur áður verið sýndur hér á landi, en í dag eru rétt 37 ár frá því að hann var fyrst sýndur á Broadway í New York. Þá var Barry Bostwick í hlutverki töffarans Danny Zuko.

Söngleikurinn Grease verður frumsýndur í Loftkastalanum á föstudag. Hann hefur áður verið sýndur hér á landi, en í dag eru rétt 37 ár frá því að hann var fyrst sýndur á Broadway í New York. Þá var Barry Bostwick í hlutverki töffarans Danny Zuko. Hann öðlaðist þó meiri frægð sem Brad í söngleiknum Rocky Horror Picture Show árið 1975 og síðar sem borgarstjórinn í sjónvarpsþáttunum Spin City, þar sem Michael J. Fox lék aðstoðarmann hans. Í fyrstu uppfærslu söngleiksins í London árið 1973 lék hinn óþekkti Richard Gere aðalhlutverkið, en hann hafði verið forfallaleikari í uppfærslunni í New York.

Söngleikurinn hét upphaflega Grease Lightning og var settur á svið í Chicago árið 1971. Þar vakti hann athygli leikhúsmanna frá New York, sem gerðu ýmsar endurbætur og settu hann á svið þar í borg í febrúar 1972. Hann fékk frábærar viðtökur og framleiðendurnir fluttu hann hið snarasta í Broadhurst-leikhúsið á Broadway.

Eftir fimm mánuði í Broadhurst var söngleikurinn fluttur í Royal-leikhúsið á Broadway og þar voru sýningar í rúm sjö ár. Loks var Majestic-leikhúsið lagt undir og þar voru síðustu sýningar, af hvorki fleiri né færri en 3.388.

Jafn vinsæll söngleikur hlaut að verða kvikmyndaður. John Travolta og Olivia Newton-John gerðu þau Danny og Sandy ódauðleg í myndinni frá 1978.

Og enn er söngleikurinn settur á svið um allan heim. Í maí 1994 hófust aftur sýningar á Broadway í New York og urðu alls 1.505 talsins. Þar stigu margar stjörnur á svið, til dæmis léku þær Brooke Shields og Rosie O'Donnell hlutverk hinnar frökku Rizzo. Leikhópurinn ferðaðist um Bandaríkin í nokkur ár og þar sáust á sviði m.a. Debbie Gibson, félagarnir Mickey Dolenz og Davy Jones úr The Monkeys, Mackenzie Phillips og Jasmine Guy, sem áður var þekktust fyrir að leika hina ofursnobbuðu Whitley Gilbert í sjónvarpsþáttunum A Different World.

Fjölmargir aðrir leikarar hafa glímt við hlutverk í Grease. Patrick Swayze og Treat Williams voru einu sinni Danny og Linda Blair, sem enn er þekktust fyrir hlutverk sitt í Særingamanninum (The Exorcist) lék eitt sinn Rizzo.