„Gemini“ Eitt verkanna á sýningu Lauru Valentino.
„Gemini“ Eitt verkanna á sýningu Lauru Valentino.
MYNDLISTARKONAN Laura Valentino opnaði sýningu á grafíkverkum í gær í sal Íslenskrar grafíkur, Tryggvagötu 17, hafnarmegin.

MYNDLISTARKONAN Laura Valentino opnaði sýningu á grafíkverkum í gær í sal Íslenskrar grafíkur, Tryggvagötu 17, hafnarmegin. Hún sýnir grafíkverk unnin með ljósmyndaaðferð sem kallast „gum bichromate“ en það er aðferð sem var vinsæl um hríð seint á 19. öld, einkum í meðförum ljósmyndara sem vildu ná fram tjáningarríkri handverksáferð í myndunum, svo þær líktust helst málverki. Myndlistarmenn sem nota ljósmyndamiðilinn hafa á síðustu áratugum endurlífgað þessa prentaðferð og þróað hana áfram. Við vinnslu verkanna eru notaðir vatnslitir sem leystir eru upp í ljósnæmri blöndu. Byggð eru upp nokkur lög af þessari blöndu og við það næst fram áferðin, sem einna helst minnir á málverk og verður hvert prent einstakt.

„Ég vinn með ljósmyndirnar í tölvu en í stað þess að senda þær í tölvuprentarann kýs ég að vinna með þær á þennan skapandi hátt,“ segir listakonan. „Prentunin er mjög stór hluti af sköpunarferlinu.“

Í verkunum segist Laura fást við eilíf þemu, eins og fegurðina.

„Myndefnið er munúðarfullt,“ segir hún. „Ég vinn með sígilt myndefni. Ég sýni til dæmis stúdíur af karlmannslíkamanum, teknar í stúdíói og unnar áfram í tölvunni, en einnig myndir af tangódönsurum sem minna á stillur úr kvikmyndum.“

Laura Valentino er með meistaragráðu í myndlist frá University of California og BFA-gráðu í myndlist frá Eastern Kentucky University. Þá hefur hún próf í íslensku frá Háskóla Íslands. Laura hefur verið búsett á Íslandi um skeið og er meðlimur Íslenskrar grafíkur og SÍM. Hún hefur tekið þátt í fjölda sýninga á Íslandi og erlendis. efi@mbl.is