Sigríður Bjarnadóttir fæddist í Hólabrekku á Mýrum, A-Skaftafellssýslu 12. júlí 1918. Hún lést á dvalar- og hjúkrunarheimilinu Ási í Hveragerði 14. maí síðastliðinn.

Sigríður var áttunda barn hjónanna Margrétar Benediktsdóttur, f. á Viðborði, A-Skaftafellssýslu, og Bjarna Eyjólfssonar frá Reynivöllum í Suðursveit. Systkini Sigríðar voru: Ingunn, f. 25. mars 1905, d. 29. apríl 1972. Álfheiður, f. 5. okt. 1906, d. 23. ágúst 1953. Sigurbergur, f. 8. maí 1908, d. 18. des. 1984. Svava, f. 2. júní 1910, d. 16. sept. 1989. Torfhildur, f. 18. nóv. 1911, d. 14. jan. 1954. Ásta, f. 1913, d. 1915. Margrét, f. 14. jan. 1916, d. 5. apr. 1990. Eyjólfur, f. 11. mars 1920, d. 23. apr. 2005. Ásta, f. 19. okt. 1924, d. 15. jún. 2008. Benedikt, f. 15. maí 1927, d. 7. des. 2000. Helga Ingibjörg, f. 21. mars 1930.

Sigríður kynnist eiginmanni sínum Sigurði Einarssyni, f. 21. september 1918, d. 10. júní 2007, syni Pálínu Benediktsdóttur móðursystur sinnar og Einars Sigurðssonar, f. í Sindurholti A-Skaftafellssýslu, þegar Sigurður kom sem kaupamaður til „frænku“ Guðrúnar Benediktsdóttur í Upphúsum á Mýrum, A-Skaftafellssýslu.

Þau hefja búskap í Kyljuholti og þar fæðast tvö elstu börn þeirra, Bjarney Gréta, f. 1938, og Einar Páll, f. 1940. Þau flytjast að Helli í Ölfusi til foreldra Sigurðar, þar fæðist Örn, f. 1941, og Gunndís, f. 1943. Frá Helli flytjast þau að Sogni í Ölfusi þar sem þau bjuggu í fimm ár, þar fæðast Grétar, f. 1945, og Bergrún, f. 1947. Þaðan flytjast þau í Hveragerði, þar fæðast Hugborg, f. 1949, Trausti Þór, f. 1951, og Álfheiður, f. 1953.

Sigurður fer að vinna við virkjunina á Írafossi og flytja þau þangað. Þar fæðast yngstu börnin, Hróðmar, f. 1957, og Ásdís, f. 1959.

Árið 1960 flytja þau á Selfoss og árið 2003 flytja þau að Ási í Hveragerði.

Útför Sigríðar var gerð í kyrrþey 22. maí síðastliðinn.

Mig langar til að minnast móður minnar í örfáum orðum. Þær eru margar myndirnar sem birtast af henni með hannyrðir við hönd og þau eru mörg stórverkin á því sviði sem eftir hana liggja. Og svo er það söngurinn, hann var stór þáttur í daglegu lífi hennar og hún kenndi okkur systkinunum að meta sönginn. Alltaf þegar stórfjölskyldan hittist, þá var sungið saman. Margar minningar á ég um það, þegar Ingunn móðursystir mín hafði samið nýtt lag, þá hringdi hún og vildi endilega að mamma fengi að heyra það sem fyrst. Eftir að ég var komin með bílpróf var ég oft kölluð til og þá var skroppið í Hveragerði til Ingunnar, þar sem þær systur spiluðu á orgelið og sungu, og ekkert vantaði í raddsvið þeirra. Hólabrekkusystkinin voru alin upp við mikla tónlist og átti faðir þeirra þar mestan þátt.

Mamma sagði okkur oft sögur úr sveitinni sinni, Mýrum á Hornafirði, þar sem náttúrufegurð er engu lík. Ég átti þeirri gæfu að fagna að kynnast sjálf þeim mætti, sem býr í jöklinum, og leitaði ég oft í styrk frá þessari ægifögru sveit, sveitinni hennar mömmu. Þá þótti mér ekki lítið ánægjulegt að geta farið með þær mömmu og Ásdísi systur austur á Mýrar síðastliðið sumar, þegar Ásta móðursystir mín var jörðuð. Þá fannst mömmu jökullinn hafa hopað mikið. Aldrei heyrðist frá mömmu uppgjöf eða þreyta, þrátt fyrir stóran barnahópinn, alltaf var ró og friður yfir henni og man ég enn eftir því frá barnæsku hvað var gott að koma heim, því mamma var alltaf til staðar. Hún var mikil mannréttindakona og hef ég fengið mikla og góða sýn í þeim málum frá henni.

Þetta eru bara örfá brot af myndum sem mig langar að sýna og ætla ég mér að hlúa vel að því nesti sem hún gaf mér. Þakka þér fyrir mig elsku mamma, þú munt alltaf lifa í minningu minni.

Ég óska þér blessunar hlýlega hönd,

þó héðan þér rétt get' ei mína.

Og hvar sem ég ferðast um framandi lönd,

ég flyt með þá vonina mína,

að allt sem þú foreldri fréttir um mig

sé frægð þinni að veg, því ég elska þig.

(St.G.St.)

Þín dóttir,

Bergrún.