Kristín Vala Ragnarsdóttir
Kristín Vala Ragnarsdóttir
Eftir Kristínu Völu Ragnarsdóttur: "Mikilvægt er að umfjöllun um ræktun erfðabreyttra lífvera sé málefnaleg"

ÞRIÐJA júní skrifaði Áslaug Helgadóttir fróðlega grein í Morgunblaðið um erfðatækni í landbúnaði. Það er áhugavert að hún telur ræktun á erfðabreyttu byggi til lyfja- og snyrtivöruframleiðsu vera landbúnað. Í þessari grein fer Áslaug mörgum orðum um að undirrituð hafi andmælt því að líftæknifyrirtækinu ORF Líftækni verði veitt leyfi til þess að rækta erfðabreytt bygg utandyra í Gunnarsholti. Það er rétt að ég skrifaði slíkt bréf – hins vegar er grein Áslaugar um allt annað efni en mitt bréf. Bréfið skrifaði ég til þess að vekja athygli á því að ekki hefði verið gefinn nægur tími fyrir almenning til þess að koma með athugasemdir um fyrirhugaða ræktun. Umhverfisstofnun gaf eina viku en samkvæmt Evrópulögum þarf að gefa 30 daga (ég sagði sex vikur í bréfinu – sem er rangt). Síðan skrifaði ég að umsóknin væri ekki að fullu gefin til umfjöllunar almenningi og því væri erfitt að meta hvaða grunnrannsóknir liggja að baki umsókninni. Samkvæmt ESB-lögum á að gera umhverfisáhættumat áður en leyfi er gert til útiræktunar á genbreyttum lífverum. Slíkt mat hefur ekki farið fram. Þetta mat metur míkró- og makrólvistkerfið fyrir ræktun og svo á meðan á ræktun stendur. Samkvæmt þeim gögnum sem lágu fyrir á vefsíðu UST hafa slíkar rannsóknir ekki verið unnar og eru ekki skipulagðar eftir að ræktun hefst. Síðan ræddi ég í bréfi mínu um möguleg áhrif á umhverfið en þau er einungis unnt að meta ef grunnrannsóknir á lífríkinu eru unnar. Þá spurði ég um öryggi tilraunareitsins svo að enginn, hvorki dýr né menn, gæti neytt þessa byggs sem kemur til með að hafa vaxtarþætti úr mönnum og er því ekki til manneldis.

Í bréfi mínu spurði ég einnig hver myndi standa að grunnrannsóknum á meðan á tilraunum stendur og hvaða tryggingafélag tryggir framkvæmdir ef eitthvað fer úr böndunum. Gögn vantar um að meta möguleika á að matvæli og fóður í nágrenni tilraunareitanna mengist. Þar sem grunnrannsóknir eru ekki fyrir hendi er ekki hægt að svara þessum spurningum.

Það er áhugavert að Ísland átti að samþykkja löggjöf ESB um ræktun erfðabreyttra lífvera fyrir 28. mars, 2008. Þessi löggjöf er Directive 18/2001 sem dróst að samþykkja í Evrópuþinginu vegna þess að Norðmenn vildu að þessi lög yrðu enn strangari. Nú er verið að fjalla um að aðlaga þessi lög á alþingi og þess vegna ætti ekki að gefa nein leyfi til útiræktunar uns löggjöfin hefur verið samþykkt.

Loks vek ég athygli á því í bréfi mínu að ESB hefur aldrei leyft útiræktun erfðabreyttra lyfja- eða iðnaðarplantna til framleiðslu fyrir markað. Núna eru þrjár umsóknir um tilraunaræktun slíkra plantna til umfjöllunar hjá ESB og ORF-umsóknin er ein þeirra. Evrópusambandið leyfir aðeins ræktun einnar tegundar erfðabreyttra plantna til framleiðslu fyrir markað. Þetta er fóður- og matjurtin Mon 810 maís en nú hafa Austurríki, Frakkland, Grikkland, Holland, Sviss, Ungverjaland og Þýskaland bannað ræktun hennar.

Á meðan grunnrannsóknir um umhverfisáhættumat eru ekki unnar á að mínu mati ekki að gefa leyfi til utanhússræktunar genbreyttra plantna á Íslandi. Hér á að beita varúðarreglunni til að vernda náttúruna eins og gert er ráð fyrir í lögum ESB og Sameinuðu þjóðanna. Ég stend því enn við hvert orð sem var í bréfi mínu til UST og umhverfisráðherra í sl. viku.

Eins og sjá má hér að ofan er grein Áslaugar Helgadóttur í Morgunblaðinu 3. júní um allt annað efni en bréf mitt til UST og umhverfisráðherra og er grein hennar því ekki málefnaleg.

Höfundur er doktor í jarðefnafræði og hefur 25 ára reynslu í umhverfisrannsóknum.