Dominique Pledel Jónsson
Dominique Pledel Jónsson
Eftir Dominique Pledel Jónsson: "Sleppingar af EB-plöntum með lyfjaprótín fyrir markað eru ekki leyfðar í Evrópu og áhættumat um áhrif þeirra hefur ekki farið fram á Íslandi."

Í Morgunblaðinu 3. júní birtast tvær greinar varðandi Orf líftækni ehf. og umsókn fyrirtækisins um leyfi til að rækta erfðabreytt bygg sem inniheldur lyfjaprótín. Þessi prótín eru notuð sem grunnefni í lyfjaiðnaði og snyrtivöruiðnaði (sbr. greinar sem birst hafa á heimasíðu Samtaka iðnaðarins). Gríðarlega sterk viðbrögð hafa komið frá almenningi að undanförnu gegn þessari umsókn og fjölmargar athugasemdir verið sendar, m.a. til Umhverfisstofnunar, í þá veru.

Í umfjöllun um málið hafa hvorki Orf líftækni né ýmsir fræðimenn gætt nákvæmni til hins ýtrasta og því miður villir það fyrir umræðunni. Á fundinum sem haldinn var í Gunnarsholti h. 26. maí sl. var bent á að Orf sækir um leyfi á Íslandi til framleiðslu og tilrauna á 600 fm til 10 ha en til ESB er sótt um 200 fm til 1 ha – hvað er framleiðsla, hvað er tilraun og vegna hvers þetta misræmi? Hér er fátt um svör.

Örfá tilraunaleyfi veitt í Evrópu

Í fyrsta lagi fullyrðir Björn L. Örvar frá Orf um „104 leyfi veitt fyrir svipaða ræktun í Evrópu“. Hið sanna í málinu er að eina tegund eb-plantna sem leyft er að rækta í Evrópu fyrir markað er maísyrkið Mon810 frá Monsanto, – allt hitt varðar tilraunir. Hjá ESB eru í gangi nákvæmlega 3 umsóknir um leyfi til tilraunaræktunar á eb-plöntum með lyfjaprótín, þar af umsókn Orfs, ein umsókn sem varðar tóbaksplöntu með plöntugeni og ein með lyfjaprótín frá Ungverjalandi sem er óafgreidd. Það er allt og sumt! Engin leyfi hafa verið veitt til framleiðslu fyrir eb-plöntum með lyfjaprótín í Evrópu þar sem áhrifin þykja ekki nógu vel rannsökuð.

Gagnrýni óvelkomin

Í öðru lagi er gert mikið úr töfum sem hafi orðið á afgreiðslu leyfisins og ástæðan sögð sú að öll gögnin hefðu ekki borist í tíma til Umhverfisstofnunar. Hvers vegna höfðu öll gögnin ekki borist í tíma? Vegna þess að Orf líftækni ehf. kærði í gegnum lögfræðinga sína setu Gunnars Á. Gunnarssonar (fulltrúa ráðherra í nefndinni en ekki fulltrúa hagsmunasamtakanna eins og Orf kýs að láta það líta út fyrir að vera – sbr. tilkynning frá starfsgreinahóp, “Líftæknifyrirtæki“, hjá SI,www.si.is) í ráðgjafanefndinni. Eftir að því máli lauk var sett pressa á UST til að afgreiða málið eins fljótt og hægt var og átti að fórna upplýsingaskyldu til almennings í ferlinu. Í þriðja lagi hefur verið ráðist á mannorð dr. Kristínar Völu Ragnarsdóttur, forseta verkfræði- og náttúrusviðs Háskóla Íslands, fyrir að benda á að áhættumat hefur ekki verið gert, sem hún gerði með gildum rökum. Ekki má gleyma að Orf líftækni hefur gert samning við Háskóla Íslands um samstarf á sviði rannsókna og tækniþróunar á lífvirkum prótínum (11.2.09 – sbr. www.orf.is). Því hljótum við að spyrja hvort Háskóli Íslands sé þar með orðinn vanhæfur og hvort starfsmönnum hans sé þar með óheimilt að gagnrýna umsóknir Orfs... eða mæla með þeim? Vonandi hefur háskólarektor ekki verið beittur þrýstingi úr þeirri átt, enda hafa gagnrýnisraddir komið úr mjög mörgum áttum.

Úreld löggjöf og samfélagsleg ábyrgð

Umsókn Orf átti að afgreiða í hljóði og í skugga úreltar löggjafar. Evróputilskipun, sem afgreiða ber umsóknir eftir, er frá árinu 2001. Sú tilskipun var ekki samþykkt hjá EES fyrr en 2007 vegna þess að Norðmenn kusu að ganga lengra en hún kveður á um. Íslendingar hafa tekið hinn pólinn, sem sagt að horfa framhjá þessari tilskipun og styðjast í flýti við tilskipun frá 1990 rétt áður en „nýja“ tilskipunin átti að komast á dagskrá á Alþingi. Við erum ekki lengur á árinu 2007 eins og menn segja gjarnan í dag um slíka afgreiðslu mála, í dag er 2009 og þetta mál varðar okkur öll, umræðan verður að fara fram og almenningur hefur fullan rétt að tjá sig og hafa sína skoðun á þessu. Þar ríkir sú almenna skoðun að ekki skuli sleppa erfðabreyttum lífverum út í náttúruna og er sú skoðun ekki frábrugðin því sem þekkist í Evrópu og víðar. Starfsemi Orfs getur aldrei orðið Íslandi til sóma nema því aðeins að ræktun þess á erfðabreyttum plöntum verði haldið tryggilega innandyra undir ströngu opinberu eftirliti þannig að engin efni úr þessari framleiðslu geti borist út í umhverfið fyrir slysni eða með frárennsli, sorpi eða öðru (Orf er reyndar ekki tryggt fyrir tjóni af þessu tagi). Það kann að vera eitthvað dýrara fyrir Orf – kostnaður er raunveruleg ástæða umsóknarinnar eins og skýrt kom fram á fundi í Gunnarsholti. Ísland á það hinsvegar ekki skilið að umhverfi þess og öryggi sé stefnt í hættu með sleppingu erfðabreyttra lífvera.

Höfundur er formaður Slow Food Reykjavík.