Serious Eats Vefsetrið er helgað mat og matargerð.
Serious Eats Vefsetrið er helgað mat og matargerð.
Eftir Árna Matthíasson arnim@mbl.is Flestir sem dálæti hafa á matseld skemmta sér ekki síður við að lesa um matreiðslu, stundum í leit að innblæstri og nýjum hugmyndum, nú eða bara til að skoða uppskriftir og myndir – eins konar matarklám.

Eftir Árna Matthíasson

arnim@mbl.is Flestir sem dálæti hafa á matseld skemmta sér ekki síður við að lesa um matreiðslu, stundum í leit að innblæstri og nýjum hugmyndum, nú eða bara til að skoða uppskriftir og myndir – eins konar matarklám.

Gríðarleg gróska er á vefnum þegar matur er annars vegar, þar er legíó af vefsíðum sem helgaðar eru mat og matargerð; síður tímarita sem helguð eru matargerð, sjónvarpsþátta og útvarpsstöðva, en líka eru óteljandi síður einstaklinga sem ýmist eru listakokkar eða vildu gjarnan vera það og svo vefsetur sértrúarsafnaða (tófúvinafélög og viðlíka). Það er því nánast óðs manns æði að nefna til sögunnar eitt vefsetur eða eina vefsíðu, en við gerum það samt.

Vefsetrið Serious Eats http://www.seriouseats.com/ er helgað mat og matreiðslu eins og nafnið gefur til kynna. Það er eins konar móðurvefur nokkurra annarra vefja; Serious Eats: New York, sem segir frá matsölustöðum í New York með fréttum og gagnrýni, Slice, sem er helgað flatbökum og birtast ýmsar uppskriftir að slíku fæði og umsagnir um pítsustaði, A Hamburger Today, sem fjallar um þjóðarrétt Bandaríkjamanna, og Photograzing, sem er vefsetur fyrir myndir af mat, þar á meðal myndir sem notendur setja sjálfir inn.

Á Serious Eats er talsvert af uppskriftum, nema hvað, og hægt að dunda sér við að fletta í þeim og spá í hvað maður myndi elda ef tími væri til, en vefsetrið er einnig fín leið til að finna óvenjulegar uppskriftir í gegnum myndasíðuna, Photograzing, því þær myndir sem þar eru vísa yfirleitt á viðkomandi uppskrift, sem er þá kannski á bloggsíðu úti í bæ. Mín tillaga: Velja einn rétt á dag í viku og ferðast þannig um heiminn.

Annað sem gaman er að skoða á Serious Eats er spjallið, en þar veltir fólk fyrir sér hvernig baka eigi mexíkóskar brownies (setja smá chili og kanil út í deigið), bestu súkkulaðibitakökurnar, hvaða forréttir séu í tísku í Þýskalandi, hvaða leið sé best að fara að hjarta karlmanna (svar: í gegnum magann) og svo má lengi telja.