Hlýnun jarðar Ógnir og tækifæri fylgja hlýnun jarðar. Rostungur hefur hreiðrað um sig á ísjaka, en gæfan virðist þó ætla að verða fallvölt. Ísbrjótur Grænfriðunga, Arctic Sunrise, er í baksýn.
Hlýnun jarðar Ógnir og tækifæri fylgja hlýnun jarðar. Rostungur hefur hreiðrað um sig á ísjaka, en gæfan virðist þó ætla að verða fallvölt. Ísbrjótur Grænfriðunga, Arctic Sunrise, er í baksýn. — Reuters
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Frakkar hafa komið sér upp „sendiherra“ fyrir heimsskautin, þrátt fyrir að nyrsti hluti Frakklands sé 1.500 kílómetrum frá heimskautsbaugnum.

Frakkar hafa komið sér upp „sendiherra“ fyrir heimsskautin, þrátt fyrir að nyrsti hluti Frakklands sé 1.500 kílómetrum frá heimskautsbaugnum. Pétur Blöndal hitti að máli Michel Rocard, fyrrverandi forsætisráðherra Frakka, og kafaði ofan í togstreituna sem framundan er um hlutdeild í hafsvæðum sem opnast vegna hlýnunar jarðar.

Þegar „háttsettir embættismenn“ hitta fjölmiðla á vegum franska utanríkisráðuneytisins eru fundirnir haldnir í íburðarmiklum sölum móttökuhallarinnar, sem í daglegu tali er nefnd Quai d'Orsay eftir götunni sem hún stendur við.

Þennan dag er það Michel Rocard, fyrrverandi forsætisráðherra og formaður franska Sósíalistaflokksins, sem hittir íslenska fjölmiðlamenn í salnum sem kenndur er við Napóleón þriðja.

Rocard var nýlega skipaður sendiherra Frakka gagnvart heimsskautunum, en framundan eru krefjandi viðræður um framtíð norðurskautsins. „Það er mikið í húfi,“ segir hann. „Ný hafsvæði eru að opnast vegna hlýnunar jarðar og þar getur skapast veruleg togstreita milli þjóða, meðal annars út frá skiptingu hafsvæðisins, fiskveiðum og öryggismálum.“

Það er mikilvægt að líta á hætturnar sem skapast við þessa þróun út frá hinu stóra samhengi, að sögn Rocards. „Framtíð norðurskautsins varðar allt mannkyn, enda er talið að 25-30% af gas- og olíuauðlindum heimsins liggi undir ísnum. Ef þær orkulindir yrðu nýttar, þá gæti það magnað verulega gróðurhúsaáhrifin, og það er eitt af því sem margir vísindamenn óttast.“

Rocard segir að ekki þurfi að orðlengja, hversu mikilvægt það er fyrir fiskveiðiþjóðirnar, að sett verði aflahámark til þess að koma í veg fyrir ofveiði og eins að öryggis verði gætt til hins ýtrasta.

Drottningin og forsetinn

Ástæðan fyrir því að Rocard var fenginn til verksins er að hann hafði sem forsætisráðherra frumkvæði að því, ásamt Robert Hawke, forsætisráðherra Ástralíu, að nýir samningar náðust um umhverfisvernd Suðurskautslandsins, sem undirritaðir voru árið 1991, og kváðu á um að það yrði helgað friði og vísindum í hálfa öld. Með því var tryggt að auðlindir þar mætti eingöngu nýta í vísindalegum tilgangi og að skylt væri að fara með allar mannanna gjörðir í umhverfismat, þar með talið á sviði ferðaþjónustu.

Svo mikill áfangi var þessi samningur, að talað hefur verið um að nota þá umgjörð ef til þess komi að skipta upp tunglinu, að sögn Rocards.

„Það var mikill áfangi að Suðurskautslandinu skyldi ekki vera skipt með landamærum eða girðingum. Það hjálpaði til í þeirri baráttu að sjávarlíffræðingurinn Jacques-Yves Cousteau lagði málstaðnum lið. Það auðveldaði mér að afla fylgismanna í senatinu og styrkti stöðu mína gagnvart [Mitterand], forseta Frakklands.“

Hann stenst ekki mátið að skjóta á gamlan keppinaut sinn:

„Bretlandsdrottning hefur engin völd, en það hefur franski forsetinn.“

En verkefnin eru ærin sem blasa við á norðurskautinu, þar sem ísinn hopar vegna hlýnunar jarðar og til stendur að skipta hafsvæðunum sem opnast. Það verður að líkindum í síðasta skipti sem slík skipting fer fram á stórum alþjóðlegum hafsvæðum. Og samningaviðræðurnar eru mun flóknari en varðandi Suðurskautslandið. „Þar voru bara mörgæsir og engir kjósendur,“ segir Rocard brosandi. „Við stöndum hinsvegar frammi fyrir því að það búa um fjórar milljónir norðan heimskautsbaugs.“

„Með hlýnun sjávar má gera ráð fyrir að ný fiskimið verði til og að fiskiskiptaflotinn fylgi í kjölfarið,“ segir Rocard. „En þarna eru engir vitar, engir björgunarbátar, engin sjúkraþjónusta, engin landamæri og ekkert aflahámark. Áður var siglingaleiðin lokuð frá Evrópu til Japans um nyrsta haf, en nú er sú leið fær nokkrar vikur á ári. Það mun áreiðanlega kalla á aukna umferð. Það þarf að styrkja bátana og setja alþjóðlegar reglur um öryggiskröfur. Svo skapast hætta af ferðum kafbáta, eins og kom á daginn þegar franskur og breskur kafbátur rákust saman fyrr á árinu. Ekkert tjón varð, en þetta sýnir að kafbátar búa yfir frábærri tækni til að greina hreyfingu 30 til 40 km frá sér, en sjá ekkert í nánasta umhverfi! Og spurning vaknar hvernig eigi að tryggja öryggi þeirra og yfirborðsskipa – hvað gerist ef það verður slys?“

Hver á að ráða?

Norðurskautsráðið var stofnað árið 1996 með sameiginlegri yfirlýsingu aðildarríkjanna átta, sem eru Norðurlöndin fimm, Bandaríkin, Rússland og Kanada. Þrjú af stofnríkjunum eiga ekki landamæri að norðurskautinu, en það eru Ísland, Finnland og Svíþjóð.

Auk aðildarríkjanna eiga samtök frumbyggja fastafulltrúa og ýmis önnur ríki áheyrnarfulltrúa, þar á meðal Frakkland, sem á fyrst og fremst hagsmuna að gæta vegna öflugs vísindastarfs, svo sem hjá frönsku heimskautastofnuninni.

„Þegar ég var skipaður var spurt í frönsku blöðunum af hverju væri verið að skipa sendiherra mörgæsanna,“ segir hann. „Ég hef engar áhyggjur af þeim, en annað gildir um ísbirnina – þeirra tilveru er ógnað vegna hlýnunar jarðar. Svo tel ég mikilvægt að eitt af samráðsríkjunum eigi ekki beinna hagsmuna að gæta, því standa þarf vörð um hag heimsbyggðarinnar.“

Rocard segir að Norðurskautsráðið geti greitt götu samráðs um málefni norðurskautsins, enda sé þar kominn vísir að samráðsferli, sem hægt sé að styðjast við. Hingað til hefur það einkum beitt sér á sviði umhverfismála, einkum vegna loftslagsbreytinga. „Ég er ánægður með að það sé til,“ segir hann. „Vandinn er sá að það er einungis ráðgefandi, en til þess að unnt sé að vernda fiskimiðin og hafa eftirlit með hafsvæðum þarf það að hafa formlegt vald, sem ríkin verða að hlíta.“

Hann yppir öxlum.

„En hvernig er það hægt? Að einhverju leyti má horfa til Alþjóðasiglingamálastofnunarinnar eða Matvælastofnunar SÞ, en það er ljóst að margt er óleyst – hverjir ráða og eftir hvaða leiðum? Það verður mitt verkefni að taka þátt í að leiða það til lykta.“

Svo ratar þetta eins og önnur alþjóðamál inn á borð Evrópusambandsins. „Meirihluti íbúa Evrópusambandsins vill ekki að það vasist í utanríkismálum vegna þess að það er kostnaðarsamt og það hentar Bandaríkjunum ágætlega, segir Rocard. „En ég er þeirrar skoðunar að Evrópusambandið eigi að verða annað og meira en Stóra-Sviss, sem skiptir sér ekki af heimsmálunum.“

Átökin um hafsvæðin

Að sögn Rocards er þegar hafin glíma meðal þeirra ríkja sem eiga lögsögu að norðurskautinu um forræði yfir hafsvæðum. Það sést meðal annars á því að Rússar hafa komið fyrir rússneskum fána undir ísnum á norðurskautinu.

Samkvæmt hafréttarsamningi Sameinuðu þjóðanna eiga strandríki sjálfkrafa landgrunn að 200 sjómílum, sem eru jafnframt ytri mörk efnahagslögsögunnar. En ef ríki eiga víðáttumeiri landgrunn geta þeir farið fram á að lögsagan verði útvíkkuð sem því nemur gagnvart alþjóðlega hafsbotnssvæðinu sem liggur þar fyrir utan.

„Það er talað um aðra Sádí-Arabíu á norðurskautinu og Rússar og Norðmenn ætla sér stóra hluti þar,“ segir Rocard. „ Það er ákveðin smuga milli Rússlands og Noregs sem þjóðirnar deila um. Norðmenn hafa fengið kröfur sínar samþykktar að hluta, en óskað hefur verið eftir ýtarlegri gögnum frá Rússum. Kanada, Grænland og Bandaríkin hafa einnig farið fram á stærra landgrunn og ef það gengur eftir hjá öllum þessum ríkjum, þá verður aðeins afmarkað svæði frjálst, en öll hin óháð reglum um alþjóðleg hafsvæði.“

Rocard gerir lítið úr því að Norðmenn hafi áhyggjur af samningunum við Rússa eins og sumir vilji vera láta. „Besta dæmið um góða samvinnu ríkjanna er Norðurskautsráðið, þar sem vísindamenn þjóðanna hafa unnið náið saman. Nýverið hittust forsætisráðherrar og utanríkisráðherrar ríkjanna á löngum fundi. Ég held að þeir myndu ekki skrifa undir slíka skoðun.“

En hann játar þó að deilan sem virðist í uppsiglingu um Svalbarða sé að minnsta kosti forvitnileg. „Það var gengið frá samningi um forræði Noregs yfir Svalbarða árið 1921, en nú segja Rússar að sá samningur eigi aðeins við um landið sjálft, en ekki hafið í kring. Það væri þá einsdæmi í heiminum.“

Michel Rocard

Það vakti mikla athygli er Michel Rocard, fyrrverandi forsætisráðherra Frakklands, gagnrýndi François Mitterand harðlega í árslok 1998, tæpum þremur árum eftir fráfall Mitterands, en það hefur varla komið mörgum á óvart. „Það sem ég átti erfiðast með að sætta mig við varðandi Mitterrand var að hann var ekki heiðarlegur maður,“ sagði hann meðal annars.

Lengi var hörð barátta milli François Mitterand Frakklandsforseta og Michels Rocard um völdin í franska sósíalistaflokknum. Rocard bauð sig tvisvar fram til forseta, 1981 og 1988, en í bæði skiptin hafði Mitterand sigur. Átökin þeirra á milli áttu þó lengri aðdraganda, en þeir tókust fyrst á innan herbúða sósíalista á sjöunda áratugnum.

Michel Rocard fæddist 23. ágúst árið 1930. Hann er yfirvegaður og rökfastur og hefur yfirleitt notið vinsælda meðal almennings, þótt hann félli ekki í kramið hjá flokksforystunni. Svo fór að hann varð ekki sniðgenginn sem forsætisráðherra árið 1988. En hann sagði af sér árið 1991 þegar hann lenti í miklum mótbyr og rifjaði upp síðar að Mitterand hefði lagt hart að sér að hætta. Sagði Rocard að líklega væru engin dæmi um stirðara samband milli forseta og forsætisráðherra í franskri stjórnmálasögu.

En Rocard var ekki dauður úr öllum æðum og varð leiðtogi franska Sósíalistaflokksins eftir hallarbyltingu árið 1993. Honum var ýtt til hliðar ári síðar eftir að flokkurinn hafði beðið afhroð í kosningum til Evrópuþingsins og enn voru það stuðningsmenn Mitterands sem áttu stærstan þátt í að bola honum í burtu.

Rocard náði hinsvegar kjöri til Evrópuþingsins, hefur setið þar síðan og átt stóran þátt í að fá löggjöf samþykkta um styttingu vinnutímans. Hann heldur því fram að sú aðgerð hafi fjölgað störfum og dregið úr atvinnuleysi.