MENNTASKÓLINN á Egilsstöðum brautskráði 34 stúdenta laugardaginn 23. maí sl., 23 stúdentar brautskráðust af félagsfræðibraut en 10 af náttúrufræðibraut og einn brautskráðist af báðum brautunum.

MENNTASKÓLINN á Egilsstöðum brautskráði 34 stúdenta laugardaginn 23. maí sl., 23 stúdentar brautskráðust af félagsfræðibraut en 10 af náttúrufræðibraut og einn brautskráðist af báðum brautunum. Fjórir nýstúdentar luku listnámsbraut sem hluta af stúdentsprófi og tveir luku íþróttabraut á sama hátt.

Kristinn Kristinsson frá Hallormsstað skilaði besta námsárangri og hlaut að auki viðurkenningu fyrir góðan námsárangur í raungreinum, stærðfræði og spænsku. Kristinn mun í sumar taka þátt í Ólympíumóti í eðlisfræði fyrir Íslands hönd, en hann hafnaði í öðru sæti í landskeppninni í eðlisfræði í vor.

Urður María Sigurðardóttir hlaut viðurkenningu fyrir framúrskarandi námsárangur í íslensku, samfélagsgreinum og listgreinum.

Leif Kristján Gjerde og Sigurður Páll Guttormsson hlutu viðurkenningu fyrir góðan námsárangur í þýsku.

Saulius Genutis, litháskur nemandi, fékk viðurkenningu fyrir góðan námsárangur í íslensku fyrir erlenda nemendur og fyrir spænsku.

Ásta Hlín Magnúsdóttir hlaut einnig viðurkenningu fyrir góðan námsárangur í spænsku.

Þá var þeim Ástu Hlín, Báru Dögg Þórhallsdóttur, Birki Snæ Mánasyni, Kristófer Nökkva Sigurðssyni og Heiðdísi Fjólu Tryggvadóttur einnig veitt viðurkenning vegna starfa í þágu félagslífs í skólanum.