Orsök flugslyssins ókunn: Getum að því leitt að vængur hafi rekist í sjó LEIT var haldið áfram í gær að flaki flugvélarinnar TF ORN sem fórst á Ísafjarðardjúpi á miðvikudagskvöldið, en enginn árangur varð af þeirri leit.

Orsök flugslyssins ókunn: Getum að því leitt að vængur hafi rekist í sjó

LEIT var haldið áfram í gær að flaki flugvélarinnar TF ORN sem fórst á Ísafjarðardjúpi á miðvikudagskvöldið, en enginn árangur varð af þeirri leit. Rannsóknarmenn frá Flugmálstjórn og flugslysanefnd fóru til Akureyrar í gær en þaðan var vélin að koma úr skoðun og viðhaldi. Orsakir slyssins eru ókunnar en hugsanlegt er að annar vængur vélarinnar hafi rekist í hafflötinn, en hálfur vængur er það eina sem fundist hefur af vélinni. Flugmaður vélarinnar var einn í henni. Hann hét Stefán Páll Stefánsson, fæddur 1948, til heimilis að Brautarholti 14, Ísafirði. Hann lætur eftir sig eiginkonu og þrjú börn, á aldrinum 6 til 19 ára.

Pétur Einarsson flugmálstjóri sagði í samtali við Morgunblaðið að ekki væri hægt að draga ályktanir um orsakir slyssins fyrr en búið væri að draga saman öll hugsanleg rannsóknargögn. Flugslys gætu verið óhemju flókin í rannsókn og hverjar nýjar upplýsingar gætu gerbreytt myndinni. Þó hefði mönnum fyrst komið í hug að vængur vélarinnar hefði rekist í sjóinn en engar öruggar sannanir væru fyrir því og þó svo væri, sé ekki hægt að geta til um ástæðuna.

Karl Eiríksson starfsmaður flugslysanefndar og fleiri rannsóknarmenn fóru til Akureyrar í gær en þar hafði flugvélin verið til viðgerðar og viðhalds hjá Flugfélagi Norðurlands undanfarna daga. Umboðsmenn Flugmálastjórnar á Ísafirði leituðu í gær að braki úr flakinu, og að flakinu sjálfu, með hjálp Landhelgisgæslu, björgunarsveita og lögreglu.

Hörður Guðmundsson, flugmaður og aðaleigandi flugfélagsins Ernir, sagði samtali við Morgunblaðið í gær að slysið væri mikið áfall fyrir félagið. "Það versta er auðvitað að missa góðan félaga og frábæran starfskraft með þessum hætti. Hvað varðar áhrifin á rekstur félagsins er ljóst að félagið þolir ekki svona áföll hvað eftir annað. Þetta er önnur vélin sem við missum á einu ári og ekkert félag þolir slíka blóðtöku til lengdar," sagði Hörður. Aðspurður um hvort hann teldi ástæðu til að herða öryggisreglur varðandi flug á Vestfjörðum í ljósi þessara atburða sagði Hörður að strangar öryggisreglur giltu umflug á Vestfjörðum sem og annarsstaðar á landinu. Hann sagði ennfremur að ekkert benti til að rekja mætti orsök þessa slyss til ófullnægjandi öryggisreglna.

Morgunblaðið/Gísli Úlfarsson.

Varðskipið Óðinn flutti brak úr flugvélinni til hafnar á Ísafirði í fyrrinótt.

Stefán Páll Stefánsson.