Jarðfræðingar gera hættukort af eldstöðvum: Unnt að segja fyrir um líklegt hraunrennsli Tungnaársvæði þegar kortlagt ÍSLENSKIR jarðfræðingar hafa nú hafið gerð "hættukorta" fyrir nokkur sprungusvæði og eldstöðvar.

Jarðfræðingar gera hættukort af eldstöðvum: Unnt að segja fyrir um líklegt hraunrennsli Tungnaársvæði þegar kortlagt

ÍSLENSKIR jarðfræðingar hafa nú hafið gerð "hættukorta" fyrir nokkur sprungusvæði og eldstöðvar. Rannsóknir á gossögu svæðanna og ýmsum eldfjalla fræðilegum fyrirbærum þeirra gera vísindamönnum kleift að áætla rúmmál mögulegs hrauns, seigju hraunkvikunnar, út streymishraða hennar og fleira slíkt. Með hliðsjón af þessum þáttum og landslagi svæðanna má svo kortleggja stærð og stefnu hraunstrauma. Þetta kom fram í erindi Páls Imslands hjá Norrænu eldfjallastöðinni á ráðstefnu Jarðfræðafélagsins um eldvirkni á Íslandi í gær.

Páll sagði að erlendis hefðu svipuð hættukort verið gerð fyrir nokkur eldfjöll, til dæmis hefði gosið í Sankti Helenu eftir að gert hefði verið kort af svæðinu og verið lagt mat á hættuástandið, sem auðveldað hefði viðbrögð við hættunni. Páll sagði að nokkrum íslenskum eldstöðvum, sem allar eru utan landrekssvæða, svipaði til þeirra sem kortlagðar hefðu verið erlendis. Þar á meðal eru Öræfajökull, Snæfellsjökull og Eyjafjallajökull, eldkeilur þar sem gosið fer fram í vel afmörkuðum toppgíg.

Hins vegar verða um 70% eldgosa á Íslandi á sprungusveimum á landreksbeltum. Slíkt er nánast óþekkt erlendis, og íslenskir jarðfræðingar hafa því þurft að byrja rannsóknir sínar frá grunni. Sprungur geta opnast nánast hvarsem er á þessum sprungusveimum, og við gerð hættukorta þarf því að gera ráð fyrir mismunandi staðsetningu þeirra.

Hættukort hafa nú þegar verið teiknuð af hraunrennsli fyrir Tungnaársprungusveiminn, svæðið milli Þóristinds og Tungnaár í austri og frá Tungnaá í norðri til Ljósufjalla. Á þessu svæði eða nálægt því eru virkjanirnar við Sigöldu og Hrauneyjarfoss. Svæðið er nú vaktað af nokkrum jarðskjálftamælum, sem vara við hreyfingum í jarðskorpunni. Kortin, sem gerð hafa verið af svæðinu eru að sögn Páls Imslands ekki ætluð til þessað segja fyrir um það hvenær muni gjósa á svæðinu heldur einungis umfang hraunrennslisins.