Stoltur Heimir Björgúlfsson sýndi síðast í Texas.
Stoltur Heimir Björgúlfsson sýndi síðast í Texas.
Eftir Arnar Eggert Thoroddsen arnart@mbl.is HEIMIR Björgúlfsson, myndlistarmaður með meiru og fyrrverandi meðlimur Stilluppsteypu, er nú búsettur í Los Angeles þar sem hann stundar sína list.

Eftir Arnar Eggert Thoroddsen

arnart@mbl.is

HEIMIR Björgúlfsson, myndlistarmaður með meiru og fyrrverandi meðlimur Stilluppsteypu, er nú búsettur í Los Angeles þar sem hann stundar sína list. Hann heldur sýningar um allan heim en hingað kom hann síðasta haust og sýndi þá norður á Akureyri í Gallerí BOX. Nýjasta verk Heimis er bók, eða bæklingur, sem tengist óbeint sýningu sem hann hélt í Houston í vor. Kallast það STORIES OF EVENTS or Arctic Tropic Trash Soundtracks og samanstendur af litprentuðum myndum af verkum Heimis, ítarlegu viðtali sem tekið var af Morgunblaðspennanum Ólafi Guðsteini Kristjánssyni og svo plötu sem inniheldur áður óútkomnar tónleikaupptökur frá 2004. Þar er að finna tónlist sem Heimir vann með gestum á borð við Hildi Guðnadóttur og Andrew McKenzie. Upptökurnar höfðu svo legið í salti þar til Heimir rakst á þær aftur fyrir hálfgerða tilviljun. Hann fór að garfa í þeim og þær hrundu af stað myndlistarsýningunni.

Tilviljun réð

„Þessi sýning er fyrst og fremst klippimyndir unnar úr teikningum og ljósmyndum og skúlptúrar sem segja ákveðnar persónulegar sögur. Ég fer meira inn á það svið en áður,“ segir Heimir. „Saga og söguþráður látin skína meira í gegn. Og eftir að ég vann ljósmynda-klippimyndaverkið „arctic tropic trash soundtracks“, en það heitir eftir tónleikaupptökunum, fannst mér einfaldlega að hljóðverkið yrði að fylgja sýningunni. Þess vegna er katalógurinn gefinn út með diskinum sem brúin á milli verkanna. Myndverkið hefði ekki orðið til í því formi sem það er ef ég hefði ekki fundið þessar upptökur af hljóðverkinu aftur.“

Ljós, hljóð og innsetningar

Heimir lætur annars vel af sér vestur í Kaliforníu og vill hvergi annars staðar vera. En hvað er framundan?

„Þessa stundina er ég að byrja að vinna nýja myndbandsinnsetningu byggða á nýju hljóðverki sem er sambland af bandarískum þjóðlagatónstefjum og rafmagnshljóðum, einskonar banjó-rafsuðuverk þótt myndefnið sé allt annað,“ útskýrir hann. „Ég er líka að opna samsýningu í Columbus, Ohio seinna í þessum mánuði og svo er ég að vinna verk fyrir einkasýningar hér í Los Angeles og Zürich. Fyrir utan aðrar sýningar sem eru í bígerð verð ég líka þátttakandi í Alþjóðlega ljóslistatvíæringnum í Þýskalandi á næsta ári (Biennial for international light art).“

www.bjorgulfsson.com Bæklingurinn góði er fáanlegur í 12 Tónum.