11. mars 1994 | Innlendar fréttir | 406 orð

Hæstiréttur dæmir mann sem tvívegis hefur orðið mannsbani Ævilöngu fangelsi

Hæstiréttur dæmir mann sem tvívegis hefur orðið mannsbani Ævilöngu fangelsi breytt í 20 ár HÆSTIRÉTTUR hefur mildað dóm Héraðsdóms Reykjavíkur sem dæmt hafði Þórð Jóhann Eyþórsson, 36 ára, til ævilangrar fangelsisvistar, en hann varð mannsbani öðru sinni...

Hæstiréttur dæmir mann sem tvívegis hefur orðið mannsbani Ævilöngu fangelsi breytt í 20 ár

HÆSTIRÉTTUR hefur mildað dóm Héraðsdóms Reykjavíkur sem dæmt hafði Þórð Jóhann Eyþórsson, 36 ára, til ævilangrar fangelsisvistar, en hann varð mannsbani öðru sinni í ágúst sl., þá á reynslulausnartíma eftir að hafa afplánað helming 14 ára fangelsisdóms, sem hann hlaut fyrir að verða manni að bana á nýársdag 1983. Í Hæstarétti í gær var ævilangri fangelsisvist breytt í 20 ára fangelsi.

Manndrápið var framið aðfaranótt 22. ágúst sl. í húsi við Snorrabraut í Reykjavík þar sem Þórður braut sér leið inn í íbúð, þar sem fyrrverandi sambýliskona hans var stödd ásamt fleirum, og rak vasahníf í hjartastað á húsráðanda sem lést á sjúkrahúsi skömmu síðar. Þetta gerðist skömmu áður en fjögurra ára reynslutími Þórðar á óafplánuðum helmingi fyrrgreinds 14 ára fangelsisdóms rann út. Í Héraðsdómi var talið við hæfi að dæma hann í ævilangt fangelsi.

Í dómi fjögurra af fimm hæstaréttardómurum frá í gær segir að ekki verði talið sannað að með Þórði Jóhanni hafi fyrirfram búið ásetningur um að svipta manninn lífi þegar hann fór niður kjallaratröppur hússins og æddi inn í eldhúsið með brugðinn hníf og lagði til mannsins. Þó hafi honum hlotið að vera ljóst að slík atlaga mundi sennilega leiða til dauða. Því sé fallist á með Héraðsdómi að um ásetningsmanndráp hafi verið að ræða.

Þá segir að Þórður Jóhann hafi verið haldinn afbrýðisemi gagnvart manninum sem hann deyddi vegna fyrra sambands hans við fyrrverandi sambýliskonu Þórðar og hafi auk þess óttast að maðurinn héldi að henni fíkniefnum. "Þótt þessar tilfinningar afsaki ekki gerðir ákærða, varpa þær þó ljósi á hugarástand hans og verður að gera ráð fyrir því, að hann hafi unnið verkið í geðshræringu og óyfirvegað," segir í dómi Hæstaréttar. Þar segir einnig að við ákvörðun refsingar verði dæmt í einu lagi fyrir brot það sem nú sé dæmt með hliðsjón af sjö ára refsivistinni sem ólokið sé og þyki þá rétt að ákveða refsingu mannsins 20 ára fangelsi en gæsluvarðhald frá 22. ágúst komi til frádráttar.

20 ára fangavist er lengsta tímabundna fangelsi sem hægt er að dæma mann til að íslenskum lögum. Hæstiréttur hefur aldrei fellt þyngri refsidóm og mildar nú öðru sinni, áður í Geirfinnsmáli, dóma undirréttar sem dæmt hafa ævilangt fangelsi en í ævilöngu fangelsi felst ótímabundin fangavist til æviloka viðkomandi.

Einn hæstaréttardómari, Ingibjörg Benediktsdóttir, skilaði sératkvæði og vildi staðfesta niðurstöðu Héraðsdóms um ævilangt fangelsi.

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.