Nýjungar í húsagerð BYGGINGARIÐNAÐURINN er einhver íhaldsamasta atvinnugrein sem þekkist. Jafnvel þótt bornar séu saman byggingaraðferðir með aldarfjórðungs millibili eru sjáanlegar breytingar sáralitlar. Á meðan t.d. bílaframleiðsla hefur gjörbreyst og...

Nýjungar í húsagerð

BYGGINGARIÐNAÐURINN er einhver íhaldsamasta atvinnugrein sem þekkist. Jafnvel þótt bornar séu saman byggingaraðferðir með aldarfjórðungs millibili eru sjáanlegar breytingar sáralitlar. Á meðan t.d. bílaframleiðsla hefur gjörbreyst og læknisfræðinni hefur fleygt fram höldum við áfram með meira og minna hefðbundnum aðferðum við byggingu húsa.

Bygging íslenskra íbúðarhúsa hefur síðustu tuttugu árin a.m.k. tekið sáralitlum breytingum. Þó má finna ef vel er leitað ýmsar tilraunir til að brjótast undan oki vanans og brydda upp á breytingum.

estu sviptingar á íslenskum íbúðarhúsamarkaði hafa þó verið þvingaðar fram af náttúruöflunum, en ekki framsýni, dugnaði og útsjónarsemi íslenskra byggingamanna. Það þurfti hvorki meira né minna en eldgos (í Vestmannaeyjum '73) til að byrjað væri að byggja timburhús aftur hérlendis. Fyrst innflutt neyðarhjálp og þá loks spruttu upp timbureiningahúsaverksmiðjur sem urðu allt að tuttugu þegar best lét. Nú eru einungis um 5 starfandi sem eitthvað kveður að.

sama hátt hefur reynst erfitt að fá menn til að flytja einangrunina út fyrir burðarvirkið í steyptum húsum þrátt fyrir ótvíræða kosti. Segja má þó að misheppnuð steypugerð (alkalívandamálið) hafi þó gefið mönnum duglegt spark í afturendann hvað þetta varðar en jafnvel það hefur ekki dugað til. Enn eru flest íbúðarhús einangruð að innan með afgömlum, rótgrónum og afdönkuðum aðferðum. Það er með ólíkindum að flestar nýjungar í íbúðarbyggingum sem litið hafa dagsins ljós eru ættaðar frá mönnum utan byggingargeirans eða frá útlöndum.

Ekki var nú endilega meiningin að halda áfram í þessum neikvæða tón og því best að reyna að tína til þær nýjungar sem undirritaður man eftir í svipinn.

Nokkurn veginn í tímaröð eru þetta:

1. Kúluhús og píramídahús

2. Magnhús

3. Meistarahús

4. Hjálmhús (tvöföld hús)

5. Plastkubbahús (argisol)

6. Permaform kerfið

Auk þessara tilrauna með nýjungar hefur á síðustu árum verið flutt hingað nokkurt magn erlendra einingahúsa frá ýmsum löndum. Nefna má Norðurlöndin öll og Kanada sem helstu framleiðslulönd þessa innflutnings. Meðal þeirra hafa verið flutt hingað nokkur finnsk bjálkahús sem eru frekar framandi þótt falleg séu.

Kúluhús og píramídahús

Þótt auðvelt sé með útreikningum að sýna fram á hagkvæmni kúluformsins orkulega séð (lítið yfirborð á rúmmálseiningu) hafa þessi hús þó augljóslega einnig vissa vankanta sem íbúðarhús. Í fyrsta lagi er erfitt að innrétta þau svo vel fari sérstaklega fyrir mannmargar fjölskyldur. Sú hætta er fyrir hendi að herbergjaskipun minni nokkuð á fjárrétt þegar allir hafa fengið sitt herbergi. Einnig verða allar innréttingar og annar frágangur dýrari og margt þarf að sérhanna og sérsmíða. Þó talsmenn kúluhúsa minni okkur títt á það að fyrstu heimkynnin hafi haft þessa lögun erum við flest búin að gleyma þeirri reynslu. Haft er eftir erlendum frumkvöðli þessara húsa að þeir sem ekki eru tilbúnir til að búa í opnum rýmum ættu að velja sér aðra húslögun.

Talsmaður og frumkvöðull í gerð kúluhúsa hérlendis er Einar Þorsteinn Ásgeirsson arkitekt sem hefur verið óþreytandi í að mæla fyrir og leiðbeina fólki um gerð þessara húsa. Hann hefur einkum myndað kúlulögunina í húsum sínum úr samsettum þríhyrningum.

Myndarlegt kúluhús reistu tveir tæknifræðingar í Arnarnesinu og notuðu við gerð þess polyurethaneinangrun og sprautusteypu.

Annars má finna kúluhús á stangli um landið t.d. í Vestmannaeyjum, á Ísafirði og á höfuðborgarsvæðinu en þau hafa þó ekki náð mikilli útbreiðslu.

Píramídahús hafa einnig sést hér í nokkrum mæli en ekki heldur orðið mjög mörg. Frumkvöðull á sviði píramídahúsa hérlendis er vafalaust Vífill Magnússon arkitekt, sem rekur teiknistofu í Kópavogi í einu slíku húsi.

Magnhús Magnúsar Thorvaldssonar

Magnús Thorvaldsson hugvitsmaður og blikksmiður úr Borgarnesi á hugmynd að "naglalausu húsi" sem byggt er úr einingum og límtrérömmum. Vegg- og þakeiningar eru felldar saman milli burðarramma úr límtré sem settir eru saman með stífum hornum. Stálteinar eru þræddir í gegnum endilangt húsið og þvinga það saman. Einingarnar falla inn í raufar á límtrésrömmunum og koma fulleinangraðar á byggingarstað með rakaþolnum spónaplötum í innra byrði grunnmáluðum með olíugrunni til að verja þær fyrir raka á byggingartímanum.

Í sumarbyrjun 1987 var reist eitt hús þessarar gerðar við Mávaklett 14 í Borgarnesi. Húsið stendur á lagnakjallara og hefur reynst bæði þétt og hlýtt. Mælingar Rb á loftþéttleikum þess sýndu að við 50 Pa mismunaþrýsting reyndust loftskipti aðeins vera 2,0 lsk./klst. Til viðmiðunar má nefna að kröfur byggingarreglugerðar leyfa mest 3,0 lsk./klst. og uppfyllir húsið því kröfurnar vel. Af ýmsum sökum hefur þó ekki orðið frekari þróun á þessari húsagerð Magnúsar þótt áhugaverð sé. Með frekari þróun mætti þó eflaust gera þessa aðferð valkost við byggingu einfaldra einnar hæðar húsa, sem hefðu stuttan byggingartíma og væru ódýr. Jafnvel gæti þessi húsgerð nýst vel fyrir verktaka því auðvelt er að taka húsin niður og flytja þau á nýjar undirstöður.

Meistarahús

Hafsteinn Ólafsson byggingarmeistari hefur verið óþreytandi í hugmyndasmíði. Hann átti á sínum tíma mikinn þátt í gerð einingahúsa sem framleidd voru hjá Húseiningum á Siglufirði þar sem hann var framleiðslustjóri á tímabili.

Árið 1987 kom hann svo fram með nýjung í húsagerð sem kölluð var Meistarahús. Hugmyndin byggðist á óvenjulega mikilli notkun ódýrra kanadískra spónaplatna (waferboard).

Að þróun hugmyndarinnar komu síðan tæknimenn hjá verkfræðistofunni Hönnun hf. og síðan Kjartan Rafnsson tæknifræðingur. Hús af þessari gerð var reist 1987 í Löngumýri 21 í Garðabæ. Húsið er hreinræktað timburhús, reist á lagnakjallara með klæðningu úr málmi.

E.t.v. voru síðar byggð fleiri hús af þessari gerð þótt undirrituðum sé ókunnugt um það. Ýmiss frágangur í þessu húsi var óhefðbundinn. Meðal annars var þakið óvenjulegt, klætt wafrerboard plötum án pappa en með málmplötuhlíf. Timburgólf var í húsinu og allar lagnir í lagnakjallara, sem er næsta fátítt í íslenskum einbýlishúsum en þó alls ekki óþekkt aðferð og hefur marga kosti sérstaklega m.t.t. viðhalds og eftirlits lagnakerfisins.

Hjálmhús

Hafsteinn Ólafsson hefur síðustu árin unnið að nýrri hugmynd um svokölluð Hjálmhús eða tvöföld hús. Þessi húsgerð Hafsteins er með glerhjálmi yfir innri kjarna, sem þá þarf ekki að byggja með sömu kröfum og venjulegt er að gera t.d. til útveggja.

Hann byggði fyrst sumarhús af þessari gerð sem nú stendur nálægt Kerinu í Grímsnesi. Síðan hefur Hafsteinn unnið að þróum þessarar hugmyndar fyrir íbúðarhús almennt og hugsað sér nýstárlegt efnisval við framleiðsluna og sleppir notkun steinsteypu og timburs að mestu. Ennþá hefur þó ekkert hús af þessari gerð verið byggt, enda vart á færi einstaklings að hrinda í framkvæmd jafn stórhuga breytingum og þessar hugmyndir Hafsteins eru.

Plastkubbahús (argisol)

Fyrir nokkrum árum byrjuðu að koma hingað steypumót úr polystyren frauðplasti. Fyrst komu þessi mót frá Noregi og var fyrsta húsið reist við Seiðakvísl í Reykjavík.

Þessi mót voru úr þöndu polystyren frauðplasti (E 25 kg/m3) bæði tengingar og ytra og innra byrði. Steypt er í mótin með flotsteypu og auðvelt er að benda veggina að vild með tiltölulega hefðbundnum hætti.

Þótt mótin hafi fyrst borist hingað frá Noregi er þessi mótatækni þekkt og notuð víðar t.d. í Sviss, Lúxemborg, Þýskalandi og Kanada. Í Sviss er leyfilegt að byggja allt að 22 hæða hús með þessu lagi en Brunamálastofnun hefur takmarkað leyfi hérlendis við tvær hæðir. Eftir að steypt hefur verið í veggmótin er útveggurinn fulleinangraður og tilbúinn undir annan frágang. Algengast er að múrhúða veggina að utan og innan en einnig þekkist að líma gipsplötur innan á veggina. Auðvelt er að fela lagnir í einangruninni eða koma þeim fyrir í steypumassanum og þessi aðferð virðist því falla vel að íslenskum aðferðum og hefur töluvert verið byggt af þessum húsum. Sennilegt er að fjöldi þeirra í dag sé komin um eða yfir 50.

Hellu- og steinsteypan í Reykjavík hefur komið sér upp tækjum til að þenja polystyren plast fyrir plastkubbamót. Hingað til hefur tengi milli byrða verið úr blikki en breyting mun sennilega verða bráðlega og þau gerð úr plasti. Þetta mun væntanlega lækka verðlagið á mótunum. Jóhannes Vilhjálmsson hjá Hellu- og steinsteypunni fullyrðir að töluverður sparnaður verði með þessari aðferð og hún stytti byggingartímann. Ekki hafa þó svo kunnugt sé farið fram neinar skráðar rannsóknir á hversu mikið þessi mótatækni lækkar byggingarkostnað, en auk þess að spara hreinsun og rif hefðbundins mótauppsláttar er steypumassinn aðeins 14 sm þykkur.

Permaform

Í ársbyrjun 1993 kviknaði áhugi stórverktakanna Ármannsfells hf. og Álftáróss hf. á nýrri norskri byggingaraðferð sem kallast Permaformaðferðin.

Aðferðin er þróuð hjá litlu verktakafyrirtæki í Sandnes rétt hjá Stafangri á vesturströnd Noregs.

Upphafsmaðurinn er viðskiptafræðingur sem heitir Nils Nessa og samstarfsmenn hans.

Lausleg lýsing á Permaform kerfinu er að á hefðbundum sökkli eru reist veggjamót úr áttstrendum PVC-plasthólkum sem tengjast með sérstökum hætti. Steypt er í þessi mót eftir að bending hefur verið gerð (skv. járnateikningu) að meira eða minna leyti um leið og veggmótin eru reist. (Láréttu járnin eru þrædd gegnum göt á súlunum en lóðréttu járnunum er stungið niður í mótið eftir að steypan er komin niður. Þessi PVC plastmót verða síðan hlíf fyrir steypuna og endanlegt yfirborð veggjarins að utanverðu. Ofan á þennan vegg kemur síðan gagnvarin áseta úr timbri sem holplötur eru lagðar ofan á. Milligólfin eru úr holplötum sem fyrst voru innfluttar frá Noregi en síðar steyptar hérlendis (hjá Hrauni hf.). Efri hæðin er síðan gerð á sama hátt en yfir henni er kraftsperruþak. Kraftsperrurnar eru þéttar c/c 60 og um 230 sm háar og gerðar úr óvenjulega grönnu timburverki. Útveggir eru síðan einangraðir að innan í timburgrind og innveggir reistir. Frágangur lagna er með hefðbundnum hætti.

Nýstárleg aðferð

Ýmislegt er nýstárlegt við þessa aðferð sem hefur verið þróuð til að byggja ódýr hús á stuttum tíma.

Nefna má nokkur atriði:

Neðsta plata er steypt fljótandi og höfð aðeins 70 mm þykk en járnbent.

Steypa í útveggjum er, auk þess að vera samsett úr áttstrendum súlum, hjúpuð í PVC-plastkápu.

Af þessum sökum eru settar sérstakar dren-/eða öndunarrásir frá veggkverk að neðan við plötu og út (sjá mynd 3).

Gerðar hafa verið frost-þíðuprófanir hjá Rb fyrir steypu sem er lokuð í plast eins og í permaformkerfinu. Niðurstöður sýndu að steypan þoldi frost-þíðuskipti ekkert síður þótt hún væri innilokuð og fengi ekki að þorna út.

PVC-plasthúðin skapar veggnum yfirborð sem ætti að þurfa lítið viðhald. Vegna PVC-kápunnar getur steypan ekki dregið til sín vatn og það eykur því mikilvægi þess að frágangur einangrunar og rakavarnarlaga sé mjög vandaður, þegar gengið er frá útveggjunum inni.

Gluggar og hurðir eru settar í útveggina eftir uppsteypu.

Frágangur á hæðaskilum er nokkuð sérstakur og er síðan hulinn með límtrésáfellu, sem stundum er kölluð "magabelti" í daglegu tali.

Hver íbúð hefur sérinngang

Hús af þessari gerð eru tveggja hæða og hefur hver íbúð sérinngang. Þær rannsóknir sem Rb hefur framkvæmt varðandi ýmis tækniatriði hafa reynst jákvæðar. Nefna má t.d.:

Hljóðeinangrun mældist góð í þessum íbúðum og er jafnvel betri en gengur og gerist í venjulegum fjölbýlishúsum.

Lofþéttleikamælingar hafa sýnt góðan þéttleika, sem sýnir vandaðan frágang á byggingarstað.

Mælingar á burðarþoli kraftsperra leiddu í ljós að styrkur þeirra uppfyllti allar kröfur, þótt timburvirkið sé grannt.

Mælingar á burðarþoli holplatna bæði frá Noregi og Hrauni hf. sýndu að styrkur og stífleiki var fullnægjandi. Plöturnar eru 22 sm á hæð og spanna yfir 7,7 m haf.

Þol steypu gegn frost-þíðu var ekki lakara en fyrir óhjúpaða steypu.

Reynslan verður auðvitað að skera úr um hvort þessi hús reynast skv. vonum manna og hvort viðhald þeirra verður þyngra en annarra þegar stundir líða. Reynslan í Noregi er ekki lengri en þriggja ára en vaxandi notkun bendir til góðrar reynslu. Ljóst er að þessi nýjung er þó sú kraftmesta á seinni árum. Byrjað var að byggja fyrstu húsin í júlí 1993 og hafa nokkur þeirra þegar verið tekin í notkun og enn fleiri eru í byggingu og á undirbúningsstigi. Byggingartíminn er stuttur, aðeins um hálft ár.

Fleiri nýjungar

Hér að framan hefur verið minnst á nokkrar nýjungar í íbúðarhúsagerð sem hlotið hafa misgóðar móttökur. Víst er að margar fleiri tilraunir hafa verið gerðar, nefna má t.d. Máthúsin sem Edgar Guðmundssonar verkfræðingur og Óli Ásmundsson arkitekt sköpuðu. Nefna má ennfremur Ólaf Gunnarsson byggingarmeistara (Núnatak hf.) sem er að hanna nýtt samlokueiningarkerfi með polystyren kjarna og byggja síðan hús úr veggstórum einingum o.fl.

Allt bendir því til að framtíðin verði tími meiri breytinga en nánasta fortíð hefur verið.

(Höfundur er yfirverkfræðingur hjá Rannsóknastofnun byggingariðnaðarins.)

Kerfismynd af Magnhúsi

Permaform hús í Mosfellsbæ.

Jón

Sigurjónsson