Baldur Jónsson prófessor og málfræðingur lést í gær í Reykjavík eftir fremur skammvinn veikindi. Baldur fæddist 20.

Baldur Jónsson prófessor og málfræðingur lést í gær í Reykjavík eftir fremur skammvinn veikindi. Baldur fæddist 20. janúar 1930 á Efri-Dálksstöðum á Svalbarðsströnd, S-Þingeyjarsýslu, sonur Elínbjargar Baldvinsdóttur húsfreyju og Jóns Þorlákssonar bókbindara. Baldur lauk stúdentsprófi frá MA 1949 og meistaraprófi í íslenskum fræðum frá HÍ 1958 með málfræði sem kjörsviðsgrein. Þá hélt hann utan og lagði stund á nám í germönskum málvísindum við University of Michigan.

Að loknu námi starfaði Baldur lengstum sem kennari og prófessor í íslenskri málfræði við Háskóla Íslands. Hann stjórnaði fyrstu máltölvunarrannsóknum hér á landi á árunum 1973 til 1980 og stóð fyrir tölvuvinnslu orðstöðulykla að nokkrum íslenskum ritum; þar á meðal eddukvæðum Konungsbókar 1984 og íslensku Biblíuútgáfunni frá 1981. Baldur beitti sér fyrir stofnun Íslenskrar málstöðvar 1985 og Málræktarsjóðs 1991 og veitti hvoru tveggja forstöðu. Auk fræðistarfa var honum umhugað um íslenskt málfar og málrækt almennt og mörgum eru minnisstæðir útvarpsþættir hans um daglegt mál. Baldur er höfundur fjölmargra nýyrða, m.a. í flugmáli, málfræði og tölvutækni, og beitti sér fyrir stofnun og starfsemi orðanefnda í ýmsum starfsgreinum. Hann gegndi fjöldamörgum félags- og trúnaðarstörfum og eftir hann liggja fjölmargar ritgerðir, greinar, bækur og þýðingar á alþýðlegum fræðiritum.

Baldur var íþróttamaður á yngri árum og stundaði einkum frjálsar íþróttir með Þór á Akureyri og fimleika við Háskóla Íslands. Hann gekk við fjórða mann á skíðum norður Kjöl páskana 1951 en á þeim árum voru slíkar ferðir fátíðar.

Hann hlaut ýmsar viðurkenningar og var sæmdur riddarakrossi Hinnar íslensku fálkaorðu fyrir málrækt 17. júní 1991.

Eftirlifandi maki Baldurs er Guðrún Stefánsdóttir fjölmiðlafræðingur. Þau eignuðust þrjá syni, Jón, lækni, Stefán, látinn og Ólaf, lækni.