Einbeittir Ásgeir Börkur Ásgeirsson úr Fylki og Þróttarinn Ingvi Sveinsson berjast hér um boltann en baráttan var einmitt mikil á Valbjarnarvelli í gær. Ásgeir Börkur og félagar höfðu þó betur að lokum og tóku þrjú stig heim.
Einbeittir Ásgeir Börkur Ásgeirsson úr Fylki og Þróttarinn Ingvi Sveinsson berjast hér um boltann en baráttan var einmitt mikil á Valbjarnarvelli í gær. Ásgeir Börkur og félagar höfðu þó betur að lokum og tóku þrjú stig heim. — Morgunblaðið/Ómar
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eftir Sindra Sverrisson sindris@mbl.is LEIKUR Þróttar og Fylkis minnti á tíðum frekar á stríð en fótboltaleik þegar liðin mættust á Valbjarnarvelli í gær í níundu umferð Pepsi-deildar karla í knattspyrnu.

Eftir Sindra Sverrisson

sindris@mbl.is

LEIKUR Þróttar og Fylkis minnti á tíðum frekar á stríð en fótboltaleik þegar liðin mættust á Valbjarnarvelli í gær í níundu umferð Pepsi-deildar karla í knattspyrnu. Liðin eru bæði þekkt fyrir mikla baráttu, enda stýrt af þekktum baráttujöxlum, og þau stóðu vel undir nafni í gær í leik sem lyktaði með sigri Fylkis, 2:1.

Þeir áhorfendur sem gerðu sér ferð í Laugardalinn í gær fengu lítið fyrir peninginn í fyrri hálfleik. Mikið var um tæklingar og baráttu en því miður enn meira um misheppnaðar sendingar og skot. Hálfleikurinn var hreint út sagt leiðinlegur og sér í lagi sóknartilburðir Þróttara sem voru nánast engir. Fylkismönnum gekk ágætlega að komast upp kantana og senda boltann fyrir markið en vantaði að reka smiðshöggið á sóknirnar. Þróttarar fengu þrjú gul spjöld í fyrri hálfleik og Fylkismenn eitt í seinni hálfleik, en oft mátti litlu muna að rauða spjaldið færi á loft.

Ekki veit ég hvort Valbjarnarvöllurinn hallar eitthvað sérstaklega en það varð allt annað uppi á teningnum hjá Þrótturum í seinni hálfleik. Þeir sóttu á fleiri mönnum og áttu nokkrar álitlegar marktilraunir á meðan að Fylkismenn voru í basli. Það var því ansi óvænt þegar þeir appelsínugulu komust yfir í leiknum tæpum tuttugu mínútum fyrir leikslok. Það var að miklu leyti leikni og hraða Ingimundar Níels Óskarssonar að þakka, en hann kom sér í gott færi en nýtti það reyndar ekki. Halldór Hilmisson félagi hans fylgdi hins vegar vel á eftir.

Einkennandi fyrir liðin í sumar

Vörn Þróttara, sem og leikurinn allur, var opnari í seinni hálfleiknum og ekki síður eftir að Fylkir skoraði. Jóhann Þórhallsson nýtti sér það skömmu síðar en Haukur Páll Sigurðsson, sem var góður í vörn Þróttar, minnkaði muninn fyrir heimamenn áður en yfir lauk.

Sigurinn hefði vissulega getað dottið hvorum megin sem var í gær og kannski er það einkennandi fyrir gengi liðanna í sumar að Fylkir skyldi taka öll stigin. Árbæingar hafa komið mörgum á óvart í sumar og eru til alls líklegir. Þeir eru nú í fimmta sæti en aðeins tveimur stigum á eftir Stjörnunni sem er í öðru sæti. Liðið spilar af miklum krafti og hefur einnig í sínum röðum flinka leikmenn á borð við Ingimund og Albert Ingason sem fór meiddur af velli snemma í seinni hálfleik.

Þróttarar hafa hins vegar tapað síðustu þremur leikjum sínum, aðeins unnið einn leik í sumar á heimavelli gegn ÍBV og verða eflaust í bullandi botnbaráttu í sumar. Fimm stig eftir tíu leiki eru rýr uppskera en hafa verður í huga að Þróttarar hafa sótt heim flest efstu lið deildarinnar. Þeir hafa einnig glímt mikið við meiðsli í sumar og enn bættist á listann í gær þegar Sindri Snær markvörður og Dennis Danry urðu að fara af velli í hálfleik.

mbl.is | Pepsideildin

Bein textalýsing frá leiknum

Þróttur R. – Fylkir 1:2

Valbjarnarvöllur, Pepsi-deild karla, 9. umferð, sunnudag 28. júní 2009.

Skilyrði : Smá rigningarúði en logn. Völlurinn ágætur.

Skot : Þróttur 14 (7) – Fylkir 12 (5).

Horn : Þróttur 4 – Fylkir 3.

Lið Þróttar : (4-3-3) Mark : Sindri Snær Jensson (Henryk Boedker 46.). Vörn : Jón Ragnar Jónsson, Kristján Ómar Björnsson, Haukur Páll Sigurðsson, Ingi Sveinsson. Miðja : Hallur Hallsson, Dennis Danry (Andrés Vilhjálmsson 46.), Rafn Andri Haraldsson. Sókn : Davíð Þór Rúnarsson, Morten Smidt (Hjörtur Hjartarson 63.), Magnús Már Lúðvíksson.

Lið Fylkis : (4-3-3) Mark : Fjalar Þorgeirsson. Vörn : Andrés Már Jóhannesson, Kristján Valdimarsson, Ólafur Ingi Stígsson, Tómas Þorsteinsson. Miðja : Ásgeir Börkur Ásgeirsson, Valur Fannar Gíslason, Halldór Arnar Hilmisson. Sókn : Ingimundur Níels Óskarsson (Felix Hjálmarsson 89.), Albert Brynjar Ingason (Kjartan Andri Baldvinsson 53.), Theódór Óskarsson (Jóhann Þórhallsson 46.).

Dómari : Örvar Sær Gíslason – 2.

Áhorfendur : Um 700.

Þetta gerðist á Valbjarnarvelli

0:1 71. Ingimundur Níels Óskarsson lék á tvo varnarmenn Þróttar áður en hann skaut góðu skoti sem Henryk Boedker varði meistaralega. Halldór Arnar Hilmisson fylgdi á eftir og skoraði með viðstöðulausu skoti yfir Boedker sem var enn liggjandi.

0:2 80. Andrés Már Jóhannesson sendi stungusendingu á Jóhann Þórhallsson sem lék framhjá Boedker markverði og skoraði af öryggi.

1:2 83. Magnús Már Lúðvíksson tók hornspyrnu frá vinstri og þar stökk Haukur Páll Sigurðsson hæst og skallaði í fjærhornið.

Gul spjöld:

Haukur Páll Sigurðsson (Þrótti) 20. (brot), Dennis Danry (Þrótti) 22. (brot), Hallur Hallsson (Þrótti) 45. (kjaftbrúk), Valur Fannar Gíslason (Fylki) 62. (brot).

Rauð spjöld:

Enginn.

MMM

Enginn.

MM

Enginn.

M

Haukur Páll Sigurðsson (Þrótti)

Kristján Ómar Björnsson (Þrótti)

Jón Ragnar Jónsson (Þrótti)

Magnús Már Lúðvíksson (Þrótti)

Fjalar Þorgeirsson (Fylki)

Andrés Már Jóhannesson (Fylki)

Valur Fannar Gíslason (Fylki)

Ingimundur Óskarsson (Fylki)

* Sindri Snær Jensson markvörður Þróttar fékk höfuðhögg í fyrri hálfleik og var fluttur upp á sjúkrahús í leikhléi. Henryk Boedker tók stöðu hans í markinu en ekki er talið að meiðsli Sindra Snæs séu alvarleg.

* Dennis Danry varð líka að hætta leik í hálfleik vegna meiðsla en hann fékk högg á bringspalirnar. Hann gæti verið orðinn klár í næsta leik sem er ekki fyrr en þrettánda júlí.

*Þjálfarar liðanna létu vel í sér heyra á hliðarlínunni og fékk Gunnar Oddsson aðvörun frá dómaranum fyrir kjaftbrúk.

„Gaman að spila með liðinu núna“

„ÞAÐ var mjög gaman að geta komið inná og lagt sitt af mörkum. Það gekk upp í dag,“ sagði framherjinn Jóhann Þórhallsson sem gerði annað mark Fylkismanna gegn Þrótti í gær í sínum öðrum leik í sumar en hann kom inná sem varamaður í hálfleik.

„Ég hef náttúrlega ekki séð marga leiki í sumar, það er stutt síðan ég kom inn í þetta en það virðist oft vera stutt á milli í þessum leikjum. Þetta féll okkar megin núna. Þetta var mikill baráttuleikur og það skipti miklu máli hvort liðið skoraði fyrsta markið. Við náðum svo að skora annað en það kom smá taugaveiklun í þetta hjá okkur eftir það. Það er bara ánægjulegt að hafa klárað þetta,“ sagði Jóhann sem hefur verið í mastersnámi í Bretlandi og því ekki kominn í sitt besta leikform.

„Formið er svona í lagi en mætti alveg vera betra. Þetta kemur en maður er ekkert alveg á tánum ennþá. Ég var búinn að koma inná í einum leik til viðbótar og vonandi kemst maður smám saman betur í gang. Það er gaman að spila með liðinu núna, mikið sjálfstraust í mönnum og við ætlum okkur að halda áfram að berjast um að vera á toppnum.“ sindris@mbl.is

„Miklir bardagamenn í þessu liði“

„MENN börðust alveg fram á síðustu stundu og ef við höfum einhvern tímann átt skilið að fá stig þá var það í kvöld,“ sagði Gunnar Oddsson, þjálfari Þróttar, sem tapaði naumlega fyrir Fylki í gærkvöldi, 2:1. Þetta var enn eitt tap Þróttara í sumar en þeir hafa aðeins landað einum sigri.

„Því miður hafa hlutirnir bara ekki verið að detta með okkur en það eru miklir bardagamenn í þessu liði og við börðumst eins og hetjur á móti þeim. Það var hart tekist á og alveg djöfullegt að fá ekkert út úr þessu.

Fyrri hálfleikurinn var hálfgert basl hjá okkur en við börðumst vel og náðum að verjast þeirra sóknum. Mér fannst svo mark liggja í loftinu hjá okkur í seinni hálfleiknum þegar þeir skoruðu. Við gáfum þeim alveg það mark,“ sagði Gunnar, sem er farið að lengja eftir stigum.

„Okkur vantar sárlega stig, það er ekkert flókið. Það er ekkert gaman að sjá stöðuna í töflunni en þetta lið sem við vorum að spila við í kvöld er eitt af spútnikliðum sumarsins og Fylkismenn geta bara prísað sig sæla með þrjú stig úr þessum leik. Það verður að segjast alveg eins og er.“

„Mjög mikill baráttuleikur“

Kristján Valdimarsson, varnarmaður Fylkis, var hæstánægður með sigurinn sem hann viðurkenndi að hefði getað fallið hvorum megin sem var.

„Þetta var mjög mikill baráttuleikur á erfiðum útivelli og gott að vinna sigur. Við vorum ívið sterkari í fyrri hálfleiknum en þeir að sama skapi í þeim seinni. Við náðum svo að skora, kannski nokkuð gegn gangi leiksins, og klára dæmið. Þessi leikur var bara þannig að liðið sem nýtti færin sín vann og sem betur fer gerðum við það.“

sindris@mbl.is