1
1
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eftir Birtu Björnsdóttur birta@mbl.is AÐ TILHEYRA einhverjum hópi er hverjum manni mikilvægt.

Eftir Birtu Björnsdóttur

birta@mbl.is

AÐ TILHEYRA einhverjum hópi er hverjum manni mikilvægt. Þótt flestir séu ánægðir með sinn vina- og kunningjahóp eiga sér trúlega margir dulda ósk um að tilheyra öðrum og enn svalari hópum, og þá sérstaklega úr kvikmyndasögunni. Hér eru nefnd dæmi um nokkra af þeim hópum sem fæstir myndu trúlega slá hendinni á móti aðild að.

Veldu nú þann sem þér þykir bestur...

1. Reservoir Dogs

Úr samnefndri mynd Quentins Tarantinos frá 1992

Sá sem segist ekki finnast þeir herramenn Hvítur, Bleikur, Appelsínugulur, Blár, Brúnn og Blonde eitursvalir lýgur meira en spýtustrákurinn Gosi á góðum degi.

Upphafsatriði myndarinnar eitt nægir til þess að maður fer ósjálfrátt að leita að sólgleraugunum sínum, en þar þramma þeir hundar eftirminnilega við undirspil George Baker Selection, „Little Green Bag“. Dressman-auglýsingarnar fölna í samanburði.

2. Pink Ladies og T-Birds

Úr Grease frá 1978.

Leikstjóri: Randal Kleiser

Ef eitthvað er að marka amerískar kvikmyndir má skipta nemendum framhaldsskólum þar í landi í mjög afmarkaða flokka. Hóparnir T-Birds og Pink Ladies samanstóðu tvímælalaust af smartari nemendum Rydell High, enda í sérhönnuðum jökkum til að undirstrika það. Svo kunnu þau svo mikið af skemmtilegum dönsum og lögum.

3. Lína langsokkur, Anna og Tommi

Úr myndunum um Línu langsokk eftir sögum Astrid Lindgren frá 1969 og 1979

Lína langsokkur hlýtur að teljast einhver skemmtilegasti félagsskapur sem völ er á, enda allt mögulegt sé maður í slagtogi með henni. Þó að Tommi og Anna séu oft og tíðum frekar ferköntuð og lítið til í tuskið tekst Línu að fá þau með sér í svakalegar svaðilfarir.

4. Riddarar hringborðsins

Úr Monty Python and the Holy Grail

frá 1975. Leikstjórar: Terry Gilliam

og Terry Jones

Þetta hlýtur að teljast fyndnasti félagsskapurinn af þeim öllum, enda fáir hópar sem bjóða upp á að ferðast á hestbaki við kókoshnetuundirleik, bardaga við útlimalausan riddara og samskipti við riddarana sem segja „NÍ!“. Hópurinn samanstóð af þeim Sir Lancelot (John Cleese), Arthúr konungi (Graham Chapman), Sir Ekkert-svo-hugrakka-Robin (Eric Idle), hinum skírlífa Sir Galahad (Michael Palin) og Sir Bedevere (Terry Jones).

5. Ocean's 11

Úr samnefndri mynd frá 2001.

Leikstjóri: Steven Soderbergh

Ef Reservoir Dogs kæra sig ekki um vinskap manns mætti leita á náðir annarar ekki síður töffaralegrar klíku, drengjanna hans Danny Ocean. Sjaldan hafa rán og aðrir glæpir verið jafnflottir og í þeirra meðförum. Svo er fallegt hvað hópurinn minnir á Benetton-auglýsingu, þar sem allir kynþættir og kynslóðir eru jafnréttháar. Það vantar bara stelpurnar!

6. Goonies

Úr samnefndri mynd frá árinu 1985. Leikstjóri: Richard Donner

Réttið upp hönd ef ykkur langaði í fjarsjóðsleit eftir að hafa séð The Goonies! Einhver skemmtilegasta ævintýramynd allra tíma sagði frá hópnum góða sem hélt á vit ævintýranna í leit að sjóræningjaskipi.

7. The Regulators

Úr Young Guns frá árinu 1988.

Leikstjóri: Christopher Cain

Þeir voru flottir á flótta undan réttvísinni, Billy the Kid og félagar hans í Young Guns . Það hefði sko ekki verið dónalegt að fá að ríða berbakt með þeim Emilio Estevez, Kiefer Sutherland og Dermot Mulroney um sléttur Nýja-Mexíkó undir lok þarsíðustu aldar.

8. Drapes

Úr Cry Baby frá 1990 eftir John Waters

Líkt og í Grease tilheyrði Drapes-hópurinn flottari skólafélögunum, og þau voru sko svöl!

Töffarinn með tárið, hann Johnny Depp, spjallþáttadrottningin Ricky Lake og klámmyndaleikkonan Tracy Lords fóru fyrir flokknum misfríða sem hélt til heima hjá Iggy Pop.

9. Samúræjarnir sjö

Úr Shichinin no samurai frá árinu 1954. Leikstjóri: Akira Kurosawa

Ekki bara flottir heldur líka með hjartað á réttum stað. Samúræjarnir sjö kenna þorpsbúum ýmis fantabrögð til að verjast yfirvofandi árásum ræningjahópa sem herja á þorpið. Hver vill ekki kunna vel valin bardagabrögð ef á þarf að halda?

10. X-Men

Úr X-Men myndunum.

Leikstjóri: Bryan Singer

Stökkbreyttar ofurhetjur gætu verið fyrirtaksfélagsskapur, allavega fjölbreyttur. Sérstaklega væri gaman að fá að velja sér sína eigin ofurkrafta. Til þess þarf maður þó að vera búinn undir algera útskúfun úr samfélaginu. En hverjum er ekki sama þegar Wolverine (Hugh Jackman) og Storm (Halle Berry) eru vinir manns?