Birkir Rúnar Sigurhjartarson fæddist á Akureyri 2. nóvember 1974. Hann lést á heimili sínu á Akureyri 13. júní 2009 og fór útför hans fram frá Glerárkirkju 24. júní.

Elsku Birkir, þegar Sigrún systir þín hringdi í mig til að segja mér að þú værir dáinn, gat ég ekki trúað því, þú sem varst svo ungur. Það fyrsta sem mér kom í hug var að þetta væri einhver misskilningur. Nú sit ég hérna í eldhúsinu hennar Sigrúnar systur þinnar á Hjalteyri og hugsa um hvað lífið getur verið ósanngjarnt. Þú þessi yndislegi og hressi maður ert tekinn frá okkur í blóma lífsins.

Þegar ég hugsa um þig rifjast alltaf upp minningar úr bernskunni, þar sem þið fjölskyldan bjugguð á ská á móti okkur í Höfðahlíðinni. Ég man svo eftir því þegar þú byrjaðir í skóla, ég fór grátandi heim eftir að mamma þín sagði að þú værir í skólanum, ég skildi ekki af hverju ég fengi ekki að fara í skólann eins og þú, við gerðum allt saman. Ég skildi það ekki að ég væri tveimur árum yngri og að það væru tvö ár þar til ég fengi að fara í skólann, þetta var svo sárt. Einnig man ég eftir því þegar ég klemmdi á þér puttann, við vorum ein heima hjá mér, þú fórst heim til þín, en neitaðir að fara upp á sjúkrahús fyrr en Sigrún systir þín var farin yfir til mín, þú hafðir svo miklar áhyggjur af mér vegna þess að ég var grátandi og leið svo illa. Svona varstu alltaf, hafðir áhyggjur af mér, huggaðir mig, varðir mig og gættir mín. Við vorum óaðskiljanleg alveg frá því að við fluttum í Höfðahlíðina, þá var ég á öðru ári og þú á fjórða ári. Við smullum saman strax og urðum bestu vinir. Þegar við vorum sex og átta ára vorum við búin að ákveða það að við ætluðum að gifta okkur þegar við yrðum stór. En þegar við komumst á unglingsárin skildi leiðir okkar og við uxum hvort frá öðru. En þú varst alltaf Bibbi minn og ég var alltaf Þórunn þín.

Þú varst ekki alltaf ánægður með val mitt á kærustum, eitt sinn sagðir þú við mig að það yrði aldrei neinn nógu góður fyrir mig í þínum augum. Þú varst í raun mín fyrsta ást þó sú ást hafi þróast í ást milli systkina. Ég hef alltaf elskað þig eins og minn eigin bróður og þá ást mun ég alltaf geyma í hjarta mínu. Þú munt alltaf eiga þinn stað þar. Enda þótt við hittumst ekki oft síðustu áratugi þá var alltaf eins og við hefðum hist í gær. Við gátum alltaf talað saman um allt. Það eina sem ég sé eftir í dag er að hafa ekki haft meira samband á meðan ég gat, en þá hélt ég alltaf að við hefðum svo langan tíma til að endurnýja vinskapinn, en þetta kennir mér að lífið er alltof stutt og ég verð að passa mig á því að vera ekki alltaf að fresta þeim hlutum sem mig langar til að gera. Elsku Birkir, ég á eftir að sakna þín rosalega mikið og það er svo sárt að vera búin að missa þig. En ég mun ætíð minnast þín með ást og virðingu, og mun varðveita allar þær stundir sem við áttum saman. Guð gefi að þú öðlist frið og hamingju.

Þín Þórunn.

Elsku Kristrún, Hjörtur, Beggi, Sigrún, Bjarni, Heiðar, Habbý og fjölskyldur, guð gefi ykkur styrk í sorg ykkar, ég veit að þetta er mikill missir og að hans verður sárt saknað. En ég veit líka að hann Birkir vakir yfir ykkur og mun passa upp á ykkur.

Ykkar

Þórunn.

Það er óraunverulegt fyrir okkur félagana að koma saman og skrifa minningargrein um látinn vin. Hann Birkir okkar, eða Bibbi eins og við kölluðum hann, er fallinn frá langt fyrir aldur fram, aðeins 34 ára. Upp koma ótal minningar í hugann um traustan og tryggan vin sem alltaf var tilbúinn að rétta öðrum hjálparhönd ef þörf var á.

Bibbi, þú varst léttlyndur og skemmtilegur vinur sem einstaklega gaman var að umgangast. Ótal gullmola áttir þú til – klassískar setningar sem lifa um ókomna tíð, og við munum geyma og varðveita. Fótbolti átti hug þinn allan og fengu Þórsarar og Liverpool að njóta stuðnings þíns dyggilega. Árlega tókum við þátt í Pollamóti Þórs þar sem þú stóðst vaktina í markinu og varst hrókur alls fagnaðar. Það kom sér jafnframt vel hve nálægt þú bjóst mótsstað og heimili þitt stóð okkur ávallt opið til að fara yfir leikaðferðir og ástæður ótal tapleikja. Fyrstu minningar okkar félaganna um Bibba eru yfir 30 ára gamlar og því margs að minnast. Þær fyrstu tengjast gjarnan öskudeginum, sem var stór dagur í lífi ungra drengja á Akureyri, og grunnskólaárunum þar sem við fylgdumst að. Á sumrin fórst þú oftar en ekki í sveit austur á land og söknuðum við þín ávallt og hlökkuðum til að hitta þig þegar hausta tók. Ekki fækkar góðum minningum þegar unglingsárin færðust yfir og minnumst við ótal stunda frá rúntinum á Akureyri og uppátækjasömum ferðum í Vaglaskóg og Miðgarð þar sem þú varst gjarnan í aðalhlutverki. Bibbi gekk menntaveginn og átti sagnfræði hug hans allan í upphafi. Úr sagnfræðinni lá leiðin í kennslu þar sem þú varst virkilega á heimavelli. Vinsæll kennari á Skagaströnd og síðustu árin á leikskólanum Hlíðabóli á Akureyri, þar sem yngsta kynslóðin naut sterkra persónueiginleika þinna. Þú fórst gjarnan ótroðnar slóðir. Losaðir þig til dæmis við bílinn og fórst gjarnan ferðir þínar á tveimur jafnfljótum, og ekki tókst þú þátt í lífsgæðakapphlaupinu.

Kæri vinur, það er víst komið að kveðjustund. Þú varst trúaðri en við, en nú trúum við því að almættið hafi kallað þig til æðri verka. Samverustundirnar í vinahópnum munu halda áfram, en við munum halda þínu sæti auðu. Það verður einfaldlega ekki fyllt. Við eigum um þig frábærar minningar sem við munum geyma og aldrei gleyma. Þú átt stað í hjarta okkar allra og munt eiga það þar til við hittumst á ný.

Hold out your hands cos friends will be friends right till the end

eins og uppáhalds hljómsveit þín orðaði það svo réttilega. Við sendum foreldrum þínum, systkinum og ættingjum okkar innilegustu samúðarkveðjur. Megi góður guð styrkja þau í sorg sinni.

Þar sem englarnir syngja sefur þú

sefur í djúpinu væra.

Við hin sem lifum, lifum í trú

að ljósið bjarta skæra

veki þig með sól að morgni

veki þig með sól að morgni.

Farðu í friði vinur minn kær

faðirinn mun þig geyma.

Um aldur og ævi þú verður mér nær

aldrei ég skal þér gleyma.

svefnsins draumar koma fljót.

Svo vöknum við með sól að morgni

svo vöknum við með sól að morgni.

(Bubbi Morthens.)

Þínir vinir,

Bjarni, Elvar, Jónas, Jörundur, Kristinn, Steinmar og fjölskyldur.

Birkir Rúnar, vinur okkar og samstarfsmaður, er farinn og í hjarta okkar „stelpnanna hans“ er söknuður. Við kynntumst honum fyrir tveimur árum þegar hann sótti um vinnu í Hlíðabóli, leikskóla Hvítasunnukirkjunnar á Akureyri, og sáum hvílíkur öðlingur hann var. Birkir var eini karlmaðurinn í starfsmannahópnum og þurfti því að hlusta á margar umræðurnar í kaffistofunni um meðgöngur, fæðingar og annað tengt kvenlegum vandamálum ásamt því að þola það að talað var um hópinn í kvenkyni. Þessu tók hann með stóískri ró og hló að öllu saman enda með eindæmum jákvæður og glaðlyndur. Hann var Þórsari fram í fingurgóma og harður Liverpool-aðdáandi, það fór ekki framhjá neinum. Eftir sigurleik sinna manna (sem var æði oft) mætti hann með Liverpool-hattinn sinn og -trefilinn og hann fussaði yfir því þegar hann sá fólk klætt flíkum merktum öðrum fótboltafélögum. Strax í upphafi tjáði Birkir okkur að hann væri alæta á mat en fljótlega kom þó í ljós að fiskur var ekki á alætu-listanum, hafragrauturinn komst eiginlega ekki fyrir þar heldur og mikið varð hann sár þegar það var slátur á svokölluðum „kjötdögum“ (miðviku- og föstudögum) í Hlíðabóli.

Birkir var ósérhlífinn, hjálpsamur og jafnan fyrstur í starfsmannahópnum að bjóðast til að fara út ef það þurfti að hlaupa í skarðið fyrir einhvern. Núna reynum við að skipa okkur í það stóra skarð sem myndaðist við andlát hans. Það tók hann svolítinn tíma að ná réttu handtökunum í umönnun barnanna og við vitum ekki um neinn annan sem tekist hefur að setja bleiurnar úthverfar á börnin en þetta lærðist eins og allt annað. Börnin elskuðu vininn sinn hann Birki og nutu þess að fara í fótbolta með honum. Hann kenndi þeim eitt og annað eins og t.d. sálminn „Hver er í salnum“, eftir Friðrik Friðriksson, sem þau gripu strax og sungu í tíma og ótíma. Við í Hlíðabóli vitum að frelsarinn er hjá okkur (í salnum) og á sorgartímum sem þessum opnar hann faðminn og hvíslar svo hljótt: „Hér er ég, vinur minn“. Í þessum faðmi er gott að gráta.

Núna er Birkir engill hjá Guði, eins og eitt barnið orðaði það, engill með vængi og STÓRA gullkórónu á höfði. Um leið og við þökkum Guði fyrir að leyfa okkur að kynnast Birki biðjum við hann að styrkja foreldra hans og systkini.

Takk fyrir samveruna, elsku Birkir okkar, við söknum þín óumræðilega mikið.

Fyrir hönd starfsfólks Hlíðabóls,

Jóhanna Benný Hannesdóttir.

Ekki grunaði mig, síðast þegar við hittumst, að ég ætti eftir að sitja, rúmum mánuði seinna, og skrifa um þig minningargrein. Þú komst í heimsókn til að skoða litla drenginn okkar Rögnu, íklæddur rauðri Liverpooltreyju sem þú klæddist gjarnan eftir sigurleiki hjá Liverpool.

Þeir höfðu unnið leik fyrr um daginn og þú spurðir hvort að litli drengurinn yrði ekki örugglega rétt trúaður. Ég svaraði því að hann myndi örugglega halda með Liverpool eins og bræður hans. Þú varst ánægður með það.

Það var stutt í brosið og þú hlóst og gerðir að gamni þínu. Svona var Birkir. Svona mundi ég eftir honum úr grunnskóla. Alltaf í góðu skapi og stutt í gamanið, þó að alvaran væri aldrei langt undan.

Eftir grunnskólann slitnuðu tengslin milli okkar að mestu, en alltaf spjölluðum við saman ef við hittumst á götu. Síðastliðið haust tókum við upp tengslin aftur þegar Ragnheiður kona mín fór að vinna með Birki á leikskólanum Hlíðabóli. Það kom fljótlega í ljós að hann hafði engu gleymt frá grunnskólaárunum enda kominn með BA-próf í sagnfræði og mundi að því er mér fannst óþægilega mikið af prakkarastrikunum og var duglegur að segja Ragnheiði frá því. Sjálfur var Birkir mikill grallari og eru mörg atvikin honum tengd. Hann gat verið einstaklega orðheppinn, þó stundum snerist það reyndar upp í andhverfu sína og hann yrði sjálfur fyrir barðinu á eigin orðum. Kvöldið sem við hittumst um síðustu jól ásamt fleiri skólafélögum okkar var ein af þessum skemmtilegu stundum þar sem prakkarastrikin og ýmislegt fleira var rifjað upp. Hann hafði gaman af því að tala og stundum þótti kennurunum nóg um og höstuðu á hann, en oft átti Bibbi svar við því og gjarnan lágum við í hláturskasti þegar hann hafði lokið sér af. Ég varð því hálf hissa þegar ég frétti að hann hefði gerst kennari í grunnskóla og svo seinna meir starfsmaður á leikskóla. En þarna virtist hann hafa fundið fjölina sína og mér fannst hann bara býsna ánægður og ég veit að börnin voru ánægð með hann enda jafnan stór hópur í kringum hann á leikskólanum. Þarna var hann kóngurinn.

En því miður er ævilengdin oft ekki í takt við það sem manni finnst að hún ætti að vera og á það við í þessu tilviki. Birkir var tekinn alltof snemma frá okkur og við sem eftir stöndum spyrjum okkur hversvegna. Sjálfsagt fáum við aldrei svar við því hvers vegna hann var tekinn í burt frá fjölskyldu og vinum í blóma lífsins. Þeir sem eftir standa verða að ylja sér við minningarnar um góðan dreng.

Aðstandendum og vinum Birkis vottum við innilega samúð og biðjum æðri máttarvöld að styrkja þau í sorginni.

Björn Hjálmarsson,

Ragnheiður Guðbrandsdóttir.

„Bibbi dó í nótt“ voru einu orðin sem kærasta Jónasar bróður míns gat sagt 13. júní sl. Ég í minni einfeldni hélt að um óviðeigandi spaug væri að ræða. En svo var ekki.

Bibba hef ég þekkt allt mitt líf. Bibbi og Jónas hafa verið vinir síðan ég man eftir mér og því hefur hann verið tengdur mér og minni fjölskyldu í um þrjátíu ár. Allir í fjölskyldunni áttu í einhvers konar samskiptum við Bibba. Við feðgar aðallega í gegnum enska boltann og Hilma litla systir í gegnum Þórsleikina. Lísa systir sagði mér einu sinni að hún hefði getað talað við Bibba um hvað sem var og mamma aðstoðaði Bibba við dönskukennsluna þegar hann kenndi á Skagaströnd. Því er hægt að segja að allir í fjölskyldunni hafi tengst Bibba miklum tryggðaböndum.

Í upphafi kynntist ég Bibba sem litli bróðir Jónasar. Þegar ég var lítill og vinir hans Jónasar komu í heimsókn leit ég alltaf á Bibba sem skemmtilega vininn. Hann gaf sér alltaf tíma til að tala við mig af áhuga og tók mark á því sem ég sagði. Eftir að ég varð eldri og þroskaðri varð Bibbi meira en bara vinur Jónasar bróður heldur líka vinur minn.

Ófáar sögur koma upp í huga mér um Bibba. Hann var náttúrlega alveg ótrúlega ónettur og „átti það til“ að missa fjarstýringuna eða símann í gólfið og oftar en ekki bæði í einu. Einu sinni varð hann svo óheppinn að missa símann á leið sinni út í bíl og bakkaði svo óvart yfir hann. Önnur skemmtileg saga er þegar við fórum í keilu nokkrir saman og þá vildi ekki betur til en svo að Bibbi henti kúlunni sinni aftur fyrir sig og seinna inn á vitlausa braut.

Jónas og Bibbi voru svo sem ekki alltaf sammála og héldu t.d. hvor með sínu liðinu í enska boltanum sem eru miklir andstæðingar. En Bibbi var alltaf fyrstur til þess að óska okkur bræðrum til hamingju með góð úrslit og jafnframt alltaf síðasti maðurinn til að nudda einhverju framan í mann þegar illa gekk enda var um hávandaðan einstakling að ræða. Sönn vináttubönd eru eitthvað sem ekki er hægt að rjúfa og því voru þeir Jónas bestu vinir.

Eftir að við Tinna fluttum aftur til Akureyrar umgekkst ég hann meira en mína æskuvini sem nú eru fluttir úr bænum. Og því gat ég stoltur kallað hann vin minn.

Ég hef haldið því fram að ekki geti nokkur maður haft of stórt hjarta en svo virðist því miður vera. Um kaldhæðni örlaganna er að ræða því Bibbi var einn hjartahlýjasti maður sem ég hef kynnst á ævinni. Aldrei heyrði ég Bibba tala illa um nokkurn mann og aldrei hef ég heyrt nokkurn mann tala illa um Bibba.

Bibbi átti mjög marga vini og hann var maðurinn sem batt hópinn saman. Má því segja að liðið hafi misst fyrirliða sinn útaf alltof snemma.

Það er alltaf svo rangt þegar foreldrar þurfa að kveðja börnin sín og get ég ekki ímyndað mér hvað fjölskyldan hans Birkis er að ganga í gegnum. Ég votta þeim mína dýpstu samúð.

Símon Hjálmar Z.

Valdimarsson.

Elsku Bibbi.

Við skiljum ekki alveg hvar þú ert núna eða af hverju þú munt ekki koma til í heimsókn til okkar. Við erum að reyna að skilja að þú ert engill hjá guði og getur alveg kíkt til okkar, án þess að við sjáum þig. Það var gaman þegar þú komst heim til okkar því þú leyfðir okkur að sitja í fanginu þínu og spjallaðir alltaf við okkur. Við ætlum að vera duglegar að kveikja á kerti handa þér, englakertinu okkar í stofunni og biðja guð um að passa þig vel.

Kveðja, þínir smávinir,

Sunna Karen og María Björg Steinmarsdætur.

Fyrstu viðbrögðin við þeim fréttum hinn 13. júní að Birkir vinur okkar væri dáinn voru að finnast það óréttlátt.

Birkir, eða Bibbi eins og hann var ávallt kallaður, var vinur fjölskyldunnar frá unga aldri. Hann var vinur Jónasar og fylgdumst við með félögum þroskast og velta framtíðinni fyrir sér saman í um 30 ár. Vinskapur þeirra styrktist með hverju ári sem leið og hin síðustu ár hittust þeir eða heyrðust nánast daglega.

Fótboltaáhugi er eitt af því sem Bibbi deildi með okkur og eru þau ófá skiptin sem Bibbi var mættur í sófann heima í Einholti til að horfa á knattspyrnuleik eða aðrar íþróttir með okkur. Auk þess að horfa á fótbolta í sjónvarpinu hafa þeir félagarnir Jónas og Bibbi, ásamt Hilmu, lagt leið sína á nær alla heimaleiki Þórs í mörg ár. Alltaf sátu þau á sama stað í brekkunni og í lok hvers tímabils var farið á Greifann til fagna árangri liðsins eftir sumarið.

Í gegnum árin tók Bibbi þátt í að fagna ýmsum tímamótum með okkur, barnaafmælum, fermingarveislum og stúdenta- og útskriftarveislum. Eftirminnileg er ferð til Reykjavíkur fyrir fáum árum þegar átti að halda upp á afmæli fjölskylduföðurins og kom Bibbi með okkur í bíl og tók þátt í „surprise“ afmælisveislunni, sem tókst vel í alla staði.

Að Bibbi skyldi ganga menntaveginn og velja sagnfræði kom okkur ekki á óvart. Hann hafði gaman af að ræða mál samtímans í sögulegu samhengi og oft báru stjórnmál á góma. Bibbi dvaldi þó ekki við sagnfræðina heldur tók kennsluréttindanám við Háskólann á Akureyri og fór í framhaldi af því að vinna á leikskólanum Hlíðarbóli. Þar fann sig vel, enda vinsæll meðal bæði barna og starfsfólks þar.

Bibbi hafði ríka réttlætiskennd og var með stórt hjarta, hann var jákvæður að eðlisfari og gæddur þeim hæfileika að sýna öðru fólki áhuga. Ekki leið ein heimsókn hans hjá án þess að hann spurði fjölskyldumeðlimi um hagi með miklum áhuga og eftirtekt.

Við komum til með að sakna Bibba sem góðs vinar og félaga, Þórsleikir á vellinum verða ekki þeir sömu án hans, né heldur verður eins gaman að grilla pylsur eða baka snúbrauð í garðinum.

Minningin um góðan vin mun lifa í hugum okkar um ókomin ár.

Fjölskyldu Birkis sendum við samúðarkveðjur frá hjartanu.

Fjölskyldan Einholti 11,

Valdimar, Alice, Jónas, Lísa, Símon, Tinna og Hilma.