Tryggvi Ársælsson
Tryggvi Ársælsson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eftir Orra Pál Ormarsson orri@mbl.

Eftir Orra Pál Ormarsson

orri@mbl.is

„ÞAÐ eru vonbrigði að ríkisstjórn sem gefur sig út fyrir að standa fyrir velferð og réttlæti sé í raun og veru að taka frá útgerðarmönnum, sem fengið hafa úthlutað byggðakvóta, og rétta upp í hendurnar á mönnum sem voru búnir að selja veiðiheimildirnar frá sér og þar af leiðandi farnir út úr greininni. Hvaða réttlæti er fólgið í þessu?“ spyr Tryggvi Ársælsson, útgerðarmaður á Tálknafirði, en frjálsar strandveiðar, sem nú eru að hefjast, hafa verið harðlega gagnrýndar af útgerðarmönnum innan kvótakerfisins.

Tryggvi gerir út einn bát og festi síðast kaup á kvóta snemma árs 2007, 14 þorskígildistonnum, og gaf fyrir hann 28 milljónir króna. Hann áætlar að þetta sé svipað magn og báturinn sem hann keypti kvótann af getur veitt fram til ágústloka, án þess að greiða krónu fyrir. Ef að líkum lætur róa þessir bátar hlið við hlið á miðin það sem eftir lifir sumars. „Er það réttlæti?“ spyr hann aftur.

Fljótlega eftir að Tryggvi keypti kvótann lenti hann í 33%-skerðingunni, auk þess sem bankahrunið síðastliðið haust sá ekki ástæðu til að sneiða hjá honum, frekar en öðrum. „Svo eru menn að tala um gjafakvóta!“ segir hann.

Á sama tíma og skuldir Tryggva hafa vaxið vegna ytri aðstæðna þykir honum súrt í broti að menn sem áður höfðu selt sig út úr kerfinu fyrir tugi, jafnvel hundruð milljóna, eins og hann veit dæmi um, geti nú hafið veiðar eins og ekkert hafi í skorist.

Árásir stjórnvalda

Tálknafjarðarhreppur fékk úthlutað 150 tonna byggðakvóta á yfirstandandi fiskveiðitímabili. Tryggvi segir þá hefð hafa skapast þar um slóðir að byggðakvótinn sé hlutfall af lönduðum afla, t.d. sá sem hefur landað 10% af öllum afla til vinnslu á Tálknafirði, á rétt á 10% af úthlutuðum byggðakvóta. Þetta þykir Tryggva sanngjarnt.

Byggðakvótinn lækkar um helming með tilkomu strandveiðanna og hefur Tryggvi miklar efasemdir um að trillurnar á Tálknafirði komi til með að hafa burði til að landa 75 tonnum af afla. Sjálfur var hann með 28 tonna byggðakvóta en er nú með 14 tonn.

Í strandveiðikerfinu má veiða 800 kg af kvótabundnum tegundum á 14 klst. fimm daga vikunnar. Slíkt kerfi býður að mati Tryggva hættunni heim hvað varðar brottkast á verðminni og smærri fiski.

Handfæratrillurnar koma til með að fiska á grunnslóð og Tryggvi fullyrðir að fiskurinn þar sé mun lakari en þegar utar er komið. „Til að bíta höfuðið af skömminni verður fiskvinnslan síðan lokuð yfir hásumarið þannig að þessi fiskur mun fara meira og minna á markað. Þessar strandveiðar eru ekki atvinnuskapandi fyrir fimm aura. Það er óþolandi að korteri fyrir kosningar skuli greinin verða fyrir árásum stjórnvalda með fáránlegum loforðum um eitthvert annað kerfi án þess að útlista hvernig það á að vera.“

Honum þykja þetta kaldar kveðjur til útgerðarmanna sem þraukað hafa mörg mögur ár í kerfinu. „Það hefur sjaldan verið auðveldara að veiða fisk. Togararnir gætu hæglega veitt 200 tonn af þorski á sólarhring, mokveiði er á handfæri, mokveiði er í dragnót og allir á flótta undan þorski. Það er hvorki fólkið í greininni né kvótakerfið sem er í ólagi, heldur ráðgjafarnir, það er ekkert hlustað á skipstjóra og sjómenn allt í kringum landið sem sjá hvernig ástandið er á miðunum. Ráðgjöfin er kolröng. Það er einfaldlega miklu meiri þorskur í sjónum en fræðingarnir segja. Það væri nær að setja lög á þá.“

Í hnotskurn
» Fiskistofa er nú í óðaönn að gefa út leyfi til frjálsra strandveiða eftir að Alþingi samþykkti ný lög þar um á dögunum.
» Auk þeirra aflaheimilda sem úthlutað er á yfirstandandi fiskveiðiári er til loka ágúst heimilt að veiða á handfæri allt að 3.955 lestir samtals af óslægðum þorski, sem ekki reiknast til aflamarks eða krókaaflamarks þeirra fiskiskipa sem stunda handfæraveiðar samkvæmt þessu ákvæði.