Vandséð er hvernig bæjarfulltrúarnir í Kópavogi, þeir Flosi Eiríksson, bæjarfulltrúi Samfylkingarinnar og Ómar Stefánsson, bæjarfulltrúi Framsóknarflokksins, ætla að snúa sig út úr fullri þátttöku sinni í ákvörðunum um lánveitingar frá Lífeyrissjóði...

Vandséð er hvernig bæjarfulltrúarnir í Kópavogi, þeir Flosi Eiríksson, bæjarfulltrúi Samfylkingarinnar og Ómar Stefánsson, bæjarfulltrúi Framsóknarflokksins, ætla að snúa sig út úr fullri þátttöku sinni í ákvörðunum um lánveitingar frá Lífeyrissjóði Kópavogs til Kópavogsbæjar.

Á forsíðu Morgunblaðsins á laugardag var frétt þar sem fram kom að stjórnarmönnum í Lífeyrissjóði Kópavogs var kunnugt um hverjar lánveitingar sjóðsins voru til Kópavogsbæjar. Jafnframt að stjórnarmönnum hafi verið kunnugt um að farið hefði verið út fyrir lagaheimildir í lánveitingum til Kópavogsbæjar. Vitnað var í tölvupóstsamskipti framkvæmdastjóra lífeyrissjóðsins við alla stjórnarmenn sjóðsins, þar á meðal þá Flosa Eiríksson og Ómar Stefánsson.

Því var það illskiljanlegt þegar Flosi Eiríksson sagði í frétt á bls. 2 í Morgunblaðinu í gær, sunnudag: „Ég stend við það sem ég hef sagt í minni fyrri yfirlýsingu og það hafa ekki komið fram neinar nýjar upplýsingar í málinu.“

Eru það ekki nýjar upplýsingar að Flosi tók þátt í að semja þá greinargerð sem framkvæmdastjóri sjóðsins sendi til Fjármálaeftirlitsins hinn 15. janúar sl.?

Flosi hafði áður haldið því fram að gögn hefðu verið „matreidd“ sérstaklega fyrir stjórn sjóðsins en aðrar upplýsingar síðan verið kynntar í greinargerð til FME. Undir þennan málflutning hafði Ómar Stefánsson tekið. Það var augljós ásetningur bæjarfulltrúanna að láta Gunnar I. Birgisson, fráfarandi bæjarstjóra og Sigrúnu Bragadóttur, framkvæmdastjóra Lífeyrissjóðs Kópavogs, axla alla ábyrgð af því að lánveitingar til Kópavogs höfðu farið fram úr leyfilegu hámarki.

Ábyrgð þeirra Flosa og Ómars er ekki minni en hinna. Þeir eru kjörnir bæjarfulltrúar og þeir sitja í stjórn Lífeyrissjóðs Kópavogs. Þeir þurfa að gera hreint fyrir sínum dyrum. Þeir þurfa að axla ábyrgð.