Nágrannar Stefán Örn Arnarson úr Keflavík í baráttu við Boga Rafn Einarsson í liði Grindvíkinga en liðin gerðu jafntefli í gær.
Nágrannar Stefán Örn Arnarson úr Keflavík í baráttu við Boga Rafn Einarsson í liði Grindvíkinga en liðin gerðu jafntefli í gær. — Ljósmynd/Víkurfréttir
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eftir Stefán Stefánsson ste@mbl.is ÞAÐ vantaði svo sem ekki baráttuna þegar Keflavíkingar komu í heimsókn til Grindavíkur í gærkvöldi. Það vantaði frekar að menn hefðu sjálfstraust til að ljúka sóknum, sem voru margar ágætar, með skoti á markið.

Eftir Stefán Stefánsson

ste@mbl.is

ÞAÐ vantaði svo sem ekki baráttuna þegar Keflavíkingar komu í heimsókn til Grindavíkur í gærkvöldi. Það vantaði frekar að menn hefðu sjálfstraust til að ljúka sóknum, sem voru margar ágætar, með skoti á markið.

Grindvíkingar voru ákveðnir til að byrja með, eltu gestina og gáfu lítinn frið til að spila en voru líka tilbúnir að sækja hratt fram á fjórum mönnum. Keflvíkingar sluppu með skrekkinn á tíundu mínútu þegar þeir vörðu á línu frá Orra Frey Hjaltalín. Það vakti gestina aðeins og sóknir þeirra voru betur skipulagðar eftir það svo að meiri hætta var upp við mark heimamanna. Það breytti þó ekki því að þeir áttu skemmtilegar sóknir.

Mark strax eftir hlé hleypti auknu lífi í Keflvíkinga og þeir sóttu af krafti svo að heimamönnum gafst lítill tími til að byggja upp sínar sóknir. Þeir voru samt ekki búnir að gefast upp en það þurfti framlag bakvarðar þeirra til að skora – eitthvað sem aðrir hefðu mátt gera betur.

Þar sem framherjar Grindavíkur áttu í mesta basli með að láta vaða og reyndar oft eina sendingu í viðbót komnir í ágæt færi varð Jósef Kristinn Jósefsson að taka af skarið.

Fengu kjaftshögg

„Ég skora ekki mikið en nú skoraði tvisvar í efstu deild – eitt í fyrra og eitt núna en ég setti bæði með hægri og er örvfættur. Ég er alls ekki hættur að skora í sumar. Það er að vísu ekki mitt hlutverk en alltaf þegar ég kem upp völlinn geri ég mitt besta, jafnvel skora,“ sagði Jósef Kristinn eftir leikinn og var frekar með hugann við gengi sinna manna. „Ég er ekki nógu sáttur við úrslitin í dag því við erum á heimavelli og eigum að taka öll þrjú stigin. Við ætluðum að spila boltanum, sækja á þá og skora mörk en það gekk ekki nógu vel í fyrri hálfleik þegar við vorum bara ekki nógu góðir og spiluðum ekki boltanum nógu mikið en vorum síðan mun betri eftir hlé. Við fengum kjaftshögg við að fá á okkur víti, sem mér sýndist ekki rétt, en svo tókst okkur að skora. Það vantaði bara herslumuninn, að við værum aðeins hungraðri og langaði nógu mikið í sigur. Við áttum að bæta við marki því áttum ágæt færi eftir að við skoruðum. Það hefði verið ferlegt að missa öllum stigunum.“

Samvinna Scotts Ramsay og Gilles Ondo var mjög góð, oftast gaf Scott fínar sendingar fram á Ondo en hann launaði nokkrum sinnum tilbaka. Báðir sterkir strákar svo að Keflvíkingar gátu ekki ýtt mikið við þeim. Báðir gerðu gott og settu upp flottar sóknir en hefðu mátt vanda sig betur síðasta spölinn. Best var þó vörn Grindvíkinga með varnarjaxlinn Zoran Stamenic traustan en ungu strákarnir Jósef Kristinn og Bogi Rafn Einarsson áttu mjög góðan leik.

Verðum bara að vera sáttir

Svipað má segja um Keflvíkinga þar sem Bjarni Hólm Aðalsteinsson og Alen Sutej voru fastir fyrir og Nicolai Jörgensen og Guðjón Árni Antoníusson stóðu vel fyrir sínu.

„Við komum með eitt stig og förum með eitt stig, við verðum bara að vera sáttir við það því við áttum ekki meira skilið,“ sagði Magnús Sverrir Þorsteinsson, sem skoraði mark Keflavíkur úr vítaspyrnu. „Ég hafði trú á að ef við skoruðum ynnum við leikinn því mér fannst við ofan á allan leikinn og við ætluðum að landa þremur stigum. Eftir að Grindvíkingar skoruðu fannst mér leikurinn sigla í jafntefli því það vantaði þessa aukaorku í lokin, smá kraft í lokin til að gera út um leikinn.“

mbl.is | Pepsideildin

Bein textalýsing frá leiknum

Grindavík – Keflavík 1:1

Grindavíkurvöllur, Pepsi-deild karla, 9. umferð, sunnudag 28. júní 2009.

Skilyrði : Austan andvari, 14 stiga hiti, skýjað og hann rétt hékk þurr. Völlur því rakur en góður.

Skot : Grindavík 12 (9) – Keflavík 9 (2).

Horn : Grindavík 13 – Keflavík 4.

Lið Grindavíkur (4-4-2): Mark : Óskar Pétursson. Vörn : Ray Anthony Jónsson, Zoran Stamenic, Bogi Rafn Einarsson, Jósef Kristinn Jósefsson. Miðja : Gilles Mbang Ondo, Orri Freyr Hjaltalín, Jóhann Helgason, Sylvian Soumare (Eysteinn Hauksson 77.). Sókn : Þórarinn B. Kristjánsson (Óli Baldur Bjarnason 64.), Scott Ramsay.

Lið Keflavíkur (4-4-2): Mark : Lasse Jörgensen. Vörn : Guðjón Árni Antoníusson, Bjarni Hólm Aðalsteinsson, Alen Sutej, Nicolai Jörgensen. Miðja : Magnús Sverrir Þorsteinsson, Einar Orri Einarsson, Jón Gunnar Eysteinsson, Símun Samuelsen (Haukur Ingi Guðnason 77.). Sókn : Stefán Örn Arnarson (Magnús Þ. Matthíasson 62.) Hörður Sveinsson.

Dómari : Garðar Örn Hinriksson – 5.

Áhorfendur : 1.510.

Þetta gerðist í Grindavík

0:1 50. Dæmd var vítaspyrna á Sylvain Soumare eftir brot á Símuni Samuelsen. Magnús S. Þorsteinsson skoraði af öryggi úr vítaspyrnunni.

1:1 74. Jósef K. Jósefsson og Soumare léku laglega í gegnum vörn Keflavíkur, Jósef sneri á varnarmann vinstra megin í vítateignum og skaut hnitmiðuðu skoti í hægra markhornið.

Gul spjöld:

Jósef (Grindavík) 21. (brot), Einar Orri (Keflavík) 36. (brot), Símun (Keflavík) 38. (brot), Bjarni Hólm (Keflavík) 77. (brot).

Rauð spjöld:

Enginn.

M

Scott Ramsay (Grindavík)

Zoran Stamenic (Grindavík)

Bogi Rafn Einarsson (Grindavík)

Gilles Mbang Ondo (Grindavík)

Jósef K. Jósefsson (Grindavík)

Alen Sutej (Keflavík)

Símun Samuelsen (Keflavík)

Einar Orri Einarsson (Keflavík)

Bjarni Hólm Aðalsteinss. (Keflavík)

Hörður Sveinsson (Keflavík)

*Keflvíkingurinn Nicoloi Jörgensen , sem sat hjá síðast vegna veikinda, var aftur í byrjunarliðinu.

*Keflvíkingurinn Símun Samuelsen fékk mikið högg á lærið í síðasta leik en það var ekki nóg til að halda honum frá liðinu.

*Hólmar Örn Rúnarsson fylgdist með sínum mönnum í Keflavík leika gegn Grindavík . Hann fótbrotnaði í vor og er að byrja að skokka og jafnvel æfa eftir 2-3 vikur. Hann segir að þá komi í ljós hvort og hvenær hann verður leikfær.

*Fyrir leikinn fengu Ray Anthony Jónsson, Scott Ramsay og Eysteinn Hauksson úr að gjöf frá knattspyrnudeild Grindavíkur fyrir að leika hundrað leiki fyrir félagið í efstu deild.