Heilbrigðisráðherra getur verið maður röggsamur. Honum er hins vegar líka lagið að tefja mál og reyna að drepa þeim á dreif, hugnist honum ekki hvert þau stefna.

Heilbrigðisráðherra getur verið maður röggsamur. Honum er hins vegar líka lagið að tefja mál og reyna að drepa þeim á dreif, hugnist honum ekki hvert þau stefna.

Hugsanleg meðhöndlun erlendra sjúklinga í Heilbrigðisstofnun Suðurnesja er eitt þeirra mála þar sem erfitt virðist að fá Ögmund Jónasson til að taka af skarið. Einkarekna heilbrigðisfyrirtækið Nordhus Medical hefur hug á að nýta vannýttar nýjar skurðstofur á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja. Þar myndu t.d. sjúklingar frá Noregi og Svíþjóð fara í aðgerðir, niðurgreiddar af heimaríkjum sínum. Þar að auki hefur Nordhus Medica hug á að skoða nýtingu sjúkrahússins á gamla varnarliðssvæðinu.

Nordhus Medica hefur töluverða reynslu af rekstri heilbrigðisstofnana víða um heim. Í viðtali við Morgunblaðið sl. föstudag furðaði stofnandi fyrirtækisins, Otto Nordhus, sig á viðbrögðum íslenska heilbrigðisráðherrans, sem virðist gefa lítið fyrir hugmyndirnar og ekki telja ástæðu til að fjalla málefnalega um þær næstu 6-7 vikurnar. Svara er fyrst að vænta 15. ágúst.

Á undanförnum árum hefur hver fréttin rekið aðra um bága fjárhagsstöðu Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja. Þjónustan hefur verið skert og sjúklingar neyðst til að leita annað. Tvær glænýjar skurðstofur hafa staðið lítt ónotaðar og því stefnt í að sú mikla fjárfesting færi að hluta forgörðum.

Nordhus Medica fer ekki fram á annað en að leigja þessa aðstöðu fyrir aðgerðir á borð við mjaðmaliðaskipti, magaminnkun og hjarta- og æðasjúkdómaaðgerðir. Þannig myndu sértekjur sjúkrahússins aukast verulega og fjöldi starfa skapast.

Ráðherra svaraði engu um málið á þingfundi á föstudag, en var umhugað um að koma á framfæri að hér væri um „bisness“ að ræða.

Ráðherrann má ekki láta óbeit sína á viðskiptum villa sér sýn. Í þessu tilviki virðist „bisness“ geta styrkt Heilbrigðisstofnun Suðurnesja. Í almannaþágu.