Framleiðsla Pökkunarvélin skammtar í poka. Síðan er varan soðin niður.
Framleiðsla Pökkunarvélin skammtar í poka. Síðan er varan soðin niður. — Morgunblaðið/Helgi Bjarnason
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eftir Helga Bjarnason helgi@mbl.is NÝ verksmiðja er farin að mala í Súðavík. Framleiðslan er kattamatur sem ber viðeigandi heiti, Murr, eftir mali neytendanna.

Eftir Helga Bjarnason

helgi@mbl.is

NÝ verksmiðja er farin að mala í Súðavík. Framleiðslan er kattamatur sem ber viðeigandi heiti, Murr, eftir mali neytendanna. Við framleiðsluna er allt gert sem hægt er til að koma til móts við þarfir og langanir kattanna sjálfra.

„Ég er alinn upp á dýralæknaheimili og hef alltaf tengst dýrum,“ segir Þorleifur Ágústsson dýralífeðlisfræðingur sem gengið hefur með hugmyndina að framleiðslu kattamatar í nokkur ár og hefur nú látið hana verða að veruleika í samvinnu við Braga Líndal Ólafsson fóðurfræðing og fleira fólk.

Þorleifur segist hafa velt þessum möguleika fyrir sér í sex ár, frá því hann flutti til Ísafjarðar. Hann hefur unnið að þróun vörunnar í rúm tvö ár með Braga.

Sérhæfðar kjötætur

Þorleifur hefur unnið á breiðu sviði í rannsóknum, fyrst við hormónafræði laxa í Svíþjóð, þá við erfðarannsóknir manna hjá Íslenskri erfðagreiningu og síðan byggði hann upp rannsóknarmiðstöð í þorskeldi fyrir Matís á Ísafirði. Í fyrra söðlaði hann um og fór að kenna við Menntaskólann á Ísafirði til að geta sinnt kattamatarverkefninu betur.

Afurðin var tilbúin í vor og fyrstu pokarnir fóru í verslanir í byrjun júní. Viðtökurnar hafa verið góðar, að sögn Þorleifs.

Við framleiðsluna er notað kjöt og aðrar sláturafurðir frá sláturhúsum Norðlenska á Akureyri og SAH á Blönduósi, mest af sauðfé, nautgripum og svínum, hráefni sem ekki hefur nýst nema að hluta.

„Allt þetta ferli gengur út á það að búa til mat sem köttum er eðlilegt að éta. Kettir eru sérhæfðar kjötætur og fá öll sín næringarefni úr kjöti. Fiskur getur verið þeim óhollur og þeim er ekki eiginlegt að éta grænmeti eins og þó má finna í sumum tegundum kattamatar,“ segir Þorleifur.

Kattamaturinn frá Murr er svokallaður blautmatur. Hráefnið er unnið, pakkað í litla poka og soðið niður. Kattamatur hefur að mestu leyti verið fluttur til landsins. Hér á landi er þó verksmiðja sem framleiðir þurrfóður úr fiskimjöli.

Ef kettirnir sjálfir fengju að ráða ...

Murr framleiðir einnig hundasælgæti. Þorleifur og félagar hans eru að þróa fleiri tegundir kattamatar og hafa einnig hug á að hefja framleiðslu á blautfóðri fyrir hunda.

Fæðing fyrirtækis er erfið, ekki síst á þessum síðustu og verstu tímum. Þorleifur segir að erfitt sé að hefja framleiðslu þegar enga aðstoð er að fá frá bönkum. Hann segir að stjórnvöld þyrftu að vera mun djarfari við að styðja fyrirtæki af stað og leggja meiri peninga í nýsköpun. „Við vorum búnir að leggja það mikið í sölurnar að ekki var aftur snúið. Svo höfum við fengið frábæran stuðning hjá sveitarfélaginu,“ segir Þorleifur.

Fimm starfsmenn eru við framleiðsluna og munar um minna í 200 manna þorpi.

Þorleifur er sannfærður um að hann sé með bestu vöruna á markaðnum.

„Það eru allar forsendur fyrir því að þetta geti gengið. En árangurinn fer eftir viðtökum markaðarins. Eigendur kattanna ráða því hvaða matur er keyptur og þeir vilja það besta fyrir dýrin sín. Ef kettirnir sjálfir fengju að ráða þyrftum við ekki að hafa áhyggjur,“ segir Þorleifur.

Lifrarpaté fyrir ketti

„ÉG er ekki viss um að allir framleiðendur gæludýrafóðurs treysti sér til að gera þetta,“ segir Þorleifur Ágústsson, opnar poka af kattamat og stingur upp í sig bita. „Þetta lyktar eins og lifrarpaté, er aðeins grófara og ókryddað,“ bætir hann við.

Farið er eftir reglum Evrópusambandsins um val hráefna í kattamatinn. Eingöngu eru notuð efni sem einnig má nota til manneldis og hafa verið borðuð hér, þótt ekki sé markaður fyrir þau eins og er.

Þorleifur tekur fram að eðlilega sé ekki mælt með því að fólk borði kattamatinn eins og dæmi eru um að fátækt fólk geri erlendis, þótt hann sé vel hæfur til þess. Maturinn sé framleiddur með þarfir katta í huga, ekki fólks. helgi@mbl.is