Hilmar Kristinsson
Hilmar Kristinsson
Skipaviðgerðir færast heim er fyrirsögn á frétt á bls. 2 í Morgunblaðinu í gær. Þar er rætt við Hilmar Kristinsson, verkstjóra hjá Stálsmiðjunni.
Skipaviðgerðir færast heim er fyrirsögn á frétt á bls. 2 í Morgunblaðinu í gær. Þar er rætt við Hilmar Kristinsson, verkstjóra hjá Stálsmiðjunni.

Hilmar segir að mikill uppgangur hafi verið í skipaviðgerðum að undanförnu en verkefnin voru áður send úr landi. Verkfræðingar, vélfræðingar og hönnuðir komi að smíðunum.

Hilmar hefur lög að mæla. Þróun sem þessi er ljós í því efnahagslega myrkri sem nú grúfir yfir Íslandi. „Við tókum ekki þátt í fjaðrafokinu undanfarin ár og því er kreppan ekki að þjaka okkur,“ segir Hilmar.

Það er ánægjulegt að Stálsmiðjan skuli að undanförnu hafa auglýst eftir starfsfólki og ráðið nánast alla umsækjendur. Hér er vaxtarbroddur sem okkur ber að örva.

Skipasmíðar er ein þeirra atvinnugreina sem okkur ber að hlú að. Fjöldi hæfileikaríkra manna hefur starfað við greinina og Íslendingar hafa verið í fremstu röð við hönnun og smíði fiskiskipa. Tækifærin eru fyrir hendi í skipasmíðum og viðgerðum og nauðsynlegt er að tryggja atvinnugreininni fjármagn.

Hilmar lagði áherslu á að styðja verði við bakið á iðnaðar- og framleiðslufyrirtækjum sem séu hreinlega í sárum eftir „pappírsgóðærið“. Það séu þau sem skapi gjaldeyri.

Orðrétt sagði Hilmar: „Við megum ekki gleyma því að uppruni okkar er í sjávarútvegi og landbúnaði og við búum yfir gríðarlegri þekkingu á þessum sviðum.“