Sterkir Atli Viðar Björnsson skoraði fyrir FH í gærkvöld og sækir hér að marki ÍBV en Eiður Aron Sigurbjörnsson og Albert Sævarsson eru til varnar.
Sterkir Atli Viðar Björnsson skoraði fyrir FH í gærkvöld og sækir hér að marki ÍBV en Eiður Aron Sigurbjörnsson og Albert Sævarsson eru til varnar. — Ljósmynd/SigfúsGunnar
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eftir Júlíus G. Ingason sport@mbl.is ÍBV reyndist lítil hindrun fyrir Íslandsmeistara FH sem unnu sinn níunda sigur í efstu deild þegar þeir lögðu Eyjamenn á Hásteinsvelli í gær. Lokatölur urðu 3:0 og var sigur Hafnfirðinga mjög sannfærandi.

Eftir Júlíus G. Ingason

sport@mbl.is

ÍBV reyndist lítil hindrun fyrir Íslandsmeistara FH sem unnu sinn níunda sigur í efstu deild þegar þeir lögðu Eyjamenn á Hásteinsvelli í gær. Lokatölur urðu 3:0 og var sigur Hafnfirðinga mjög sannfærandi.

Eyjamenn ætluðu greinilega að selja sig dýrt gegn FH-ingum, sem virðast illviðráðanlegir þessar vikurnar. Heimamenn pressuðu gestina hátt á vellinum en náðu ekki að fylgja leikaðferðinni nægilega vel eftir. Fyrir vikið náðu leikmenn FH að sprengja upp vörn Eyjamanna hvað eftir annað á upphafsmínútunum og í raun voru Íslandsmeistararnir klaufar að skora ekki nema tvö mörk fyrstu tuttugu mínútur leiksins. Fyrirliði ÍBV, Andri Ólafsson, fékk reyndar sannkallað dauðafæri í stöðunni 0:1 þegar hann skallaði beint á Daða Lárusson, markvörð gestanna, en Andri hefði átt að gera betur.

Eftir þessa kröftugu byrjun FH-inga færðu Eyjamenn sig aftar á völlinn, og skiptu yfir í aðra leikaðferð, sem virtist virka mun betur. Upp úr sauð hins vegar undir lok fyrri hálfleiks þegar fyrirliði FH-inga, Davíð Þór Viðarsson, lá í grasinu eftir viðskipti sín við Gauta Þorvarðarson, framherja ÍBV. Þegar leikurinn stöðvaðist fékk Gauti sitt annað gula spjald fyrir brotið á Davíð Þór og þar með rautt. Vissulega var það harður dómur, enda brotið saklaust og í þokkabót aðeins annað brot Gauta í leiknum. Ekki varð betur séð en að Davíð Þór hefði þarna nýtt sér leikreynslu sína til að fiska Gauta út af, sem er honum til vansa og Þóroddi Hjaltalín dómara sömuleiðis. Vissulega spiluðu Eyjamenn fast gegn FH-ingum, og voru á köflum grófir en alls ekki í þessu tilviki.

Síðari hálfleikur var svo mun rólegri en sá fyrri. FH-ingar bættu við þriðja markinu strax á 52. mínútu og gerðu um leið út um leikinn. Þrátt fyrir ágæt marktækifæri náðu heimamenn ekki að skora, frekar en í sjö af níu leikjum sínum í sumar.

mbl.is | Pepsideildin

Bein textalýsing frá leiknum

ÍBV – FH 0:3

Hásteinsvöllur, Pepsi-deild karla, 9. umferð, sunnudag 28. júní 2009.

Skilyrði : Hægur vindur, blautt, völlurinn blautur en góður.

Skot : ÍBV 12 (5) – FH 21 (10).

Horn : ÍBV 4 – FH 10.

Lið ÍBV : (4-4-2) Mark : Albert Sævarsson. Vörn : Pétur Runólfsson, Andri Ólafsson, Eiður Aron Sigurbjörnsson, Matt Garner. Miðja : Tonny Mawejje, Yngvi Borgþórsson (Þórarinn Ingi Borgþórsson 62.), Chris Clements, Ingi Rafn Ingibergsson (Augustine Nsumba 62.). Sókn : Gauti Þorvarðarson, Ajay Leitch-Smith (Viðar Örn Kjartansson 62.)

Lið FH : (4-3-3) Mark : Daði Lárusson. Vörn : Guðmundur Sævarsson (Björn D. Sverrisson 84.), Pétur Viðarsson, Tommy Nielsen (Viktor Örn Guðmundsson 74.), Hjörtur Logi Valgarðsson (Freyr Bjarnason 41.) Miðja : Ásgeir G. Ásgeirsson, Matthías Vilhjálmsson, Davíð Þór Viðarsson. Sókn : Atli Guðnason, Atli Viðar Björnsson, Tryggvi Guðmundsson.

Dómari : Þóroddur Hjaltalín jr. – 3.

Áhorfendur : 619.

Þetta gerðist á Hásteinsvelli

0:1 11. Atli Guðnason sendi lága fyrirgjöf fyrir markið og Atli Viðar Björnsson skoraði af markteig. Vel útfærð sókn FH-inga.

0:2 19. Atli Guðnason lék upp völlinn í skyndisókn og sendi á Matthías Vilhjálmsson sem skoraði með góðu skoti rétt utan vítateigs.

0:3 52. Atli Guðnason átti góða fyrirgjöf, Matthías Vilhjálmsson fleytti boltanum áfram á Ásgeir Gunnar Ásgeirsson sem skoraði af stuttu færi.

Gul spjöld:

Gauti (ÍBV) 31. (brot), Andri (ÍBV) 38. (brot), Mawejje (ÍBV) 44. (brot), Ásgeir Gunnar (FH) 45. (brot), Pétur (FH) 70. (brot), Tryggvi (FH) 81. (brot), Freyr (FH) 84. (brot).

Rauð spjöld:

Gauti (ÍBV) 43. (brot, annað gult spjald).

MMM

Enginn.

MM

Atli Guðnason (FH)

M

Andri Ólafsson (ÍBV)

Ajay Leicht-Smith (ÍBV)

Daði Lárusson (FH)

Tryggvi Guðmundsson (FH)

Tommy Nielsen (FH)

Matthías Vilhjálmsson (FH)

Atli Viðar Björnsson (FH)

* Atli Viðar Björnsson skoraði sitt 40. mark í efstu deild þegar hann kom FH yfir. Hann er þriðji FH-ingurinn sem nær 40 mörkum í deildinni, Hörður Magnússon er með 84 mörk og Tryggvi Guðmundsson 47.

* Viktor Örn Guðmundsson kom inn á hjá FH og spilaði sinn fyrsta leik í efstu deild.

* Sigursveinn Þórðarson, formaður knattspyrnudeildar ÍBV, var rekinn af bekknum undir lok fyrri hálfleiks vegna mótmæla, eftir að Gauti Þorvarðarson , framherji Eyjamanna, fékk að líta rauða spjaldið.

* Hjörtur Logi Valgarðsson hjá FH fór meiddur af velli undir lok fyrri hálfleiks, meiddur á hné, og Heimir Guðjónsson þjálfari Hafnarfjarðarliðsins sagði við Morgunblaðið að hann reiknaði með tveggja vikna fjarveru. Alexander Söderlund fór líka af velli vegna meiðsla, hann var slæmur í baki, en Heimir sagði að Norðmaðurinn ætti að vera klár í næsta leik.

* Heimir Hallgrímsson , þjálfari ÍBV, gerði fjórar breytingar á sínu liði frá því í tapleiknum gegn Val. Þórarinn Ingi Valdimarsson, Andrew Mwesigwa, Bjarni Rúnar Einarsson og Arnór Eyvar Ólafsson fóru útúr byrjunarlðinu en þeir Pétur Runólfsson, Tonny Mawejje, Gauti Þorvarðarson og Ingi Rafn Ingibergsson komu í þeirra stað.

*Úrslitin í gærkvöld urðu nákvæmlega eins og í síðasta leik ÍBV og FH en hann var í bikarkeppninni á Hásteinsvelli sumarið 2007. FH vann 3:0 og Matthías Vilhjálmsson skoraði, rétt eins og í leiknum í gærkvöld.

„Við áttum bara ekki möguleika“

„ÞETTA leit ekkert vel út. Við áttum bara ekki möguleika í þessum leik,“ sagði Andri Ólafsson, fyrirliði ÍBV, eftir leikinn gegn FH. „Það hafa allir séð hversu öflugir FH-ingar eru um þessar mundir og við fengum að finna fyrir því í kvöld. Fyrsta markið þeirra var glæsilegt og vel útfært. Við byrjuðum svo aðeins að taka á þeim og vorum kannski á köflum grófir. En um leið komumst við aðeins inn í leikinn og fengum nokkur færi. Við ætluðum að pressa á þá framarlega og varnarlínan hjá okkur átti að vera framarlega. En aðstoðardómarinn okkar megin náði sjaldnast að halda línunni í fyrri hálfleik, sem er auðvitað ekki boðlegt í efstu deild. Svo í stöðunni 0:1 fæ ég algjört dauðafæri, skallaði beint á Daða í markinu en hefði átt að skora. Á móti má segja að þeir hafi fram að því fengið tíu dauðafæri en aðeins nýtt eitt þannig að sigur þeirra var bara sanngjarn. Þetta er langbesta liðið sem við höfum spilað við í sumar.“

Þetta er sjöundi tapleikur ÍBV af níu leikjum og Andri segir það vissulega áhyggjuefni hversu illa Eyjamönnum gengur að skora. „Það koma svona kaflar í okkar leik þar sem við spilum mjög vel. Við þurfum að byrja að nýta þau dauðafæri sem við fáum ef við ætlum okkur ekki að falla. Við fengum tvö til þrjú í kvöld sem ekki nýttust og á meðan svo er, vinnum við ekki leiki.“

Verðum að halda okkur á jörðinni

SÓKNARLEIKUR FH-inga í leiknum gegn ÍBV var á köflum magnaður. Hafnfirðingar nota 4-3-3-leikkerfið og geta leyft sér þann munað að sækja á allt að átta mönnum. Atli Guðnason fór fremstur meðal jafningja í sóknarleik FH-inga, lagði upp tvö af þremur mörkum liðsins og átti stóran þátt í því þriðja. Atli sagði í samtali við Morgunblaðið eftir leik að það hentaði FH-ingum að skora snemma eins og á móti ÍBV.

„Það virðist vera þannig að ef við náum að skora mark snemma líði okkur best. Við náðum því hérna gegn Eyjamönnum, skoruðum tvö mörk á fyrstu tuttugu mínútunum og náðum um leið taki á leiknum. Eyjamenn náðu í raun aldrei að koma sér inn í leikinn eftir það. Við erum með það reynt lið að við getum haldið svona forystu og svo bættum við þriðja markinu við strax í byrjun seinni hálfleiks og kláruðum leikinn.“

FH-ingar slökuðu heldur á klónni eftir fyrstu tvö mörkin en Atli segir það ekki hafa verið meðvitaða ákvörðun. „Alls ekki, við hefðum viljað klára leikinn strax í fyrri hálfleik. Það kemur kannski smá værð yfir okkar leik eftir fyrstu tvö mörkin en mér fannst þetta aldrei vera í hættu.“

Er eitthvað sem fær stöðvað FH um þessar mundir? „Við erum allavega að vinna okkar leiki eins og er. Við megum samt ekkert gleyma okkur, það er nóg eftir af mótinu og við verðum að halda okkur á jörðinni. Við ætlum okkur auðvitað að halda áfram á sömu braut.“