Þröstur Ólafsson
Þröstur Ólafsson
Eftir Þröst Ólafsson: "Rekstrarfé til skóla skerðist ekkert vegna byggingar tónlistarhússins og myndi ekkert aukast þótt byggingunni yrði frestað."
ÝMSIR hafa stungið niður penna og fundið að því að tekin hafi verið ákvörðun um að halda áfram byggingu tónlistarhúss í miðju fjármálahruninu. Það eru eðlileg viðbrögð. Ekkert af því sem gert er nú um hríð er sjálfgefið og flest orkar tvímælis. Ríkisstjórnin er að forgangsraða og stilla upp kostum mismunandi slæmra leiða. Flestar þeirra eru þvingaðar. Stórskuldug þjóð er hvorki fullvalda né sjálfstæð.

Hún verður eins og við einstaklingar að hlíta þeim skilmálum sem lánadrottnar setja, ella þola þær þvinganir sem beitt verður til fullnustu krafna. Þær eru margar hverjar ævintýralega háar. Í því samhengi er tónlistarhúsið hvorki stórt í sniðum né umtalsvert, en mikilvægt þó. Engu að síður kostar það háa upphæð, þó ekki óyfirstíganlega.

Skásta slæma leiðin

Þegar fjármálahrunið skall á og samningur sem ríki og borg höfðu gert við Portus fór í uppnám vegna gjaldþrots eigenda Portusar, áttu ríki og borg eingöngu um slæma kosti að velja. Við mat á skástu leiðinni þurfti að taka tillit til margra stærða, bæði fjárhagslegra og samfélagslegra. Hér var um að ræða stærstu og metnaðarfyllstu stórframkvæmd þjóðarinnar á sviði menningar, en að auki er þar ráðstefnuhús sem vöntun hefur verið á svo halda megi stórar alþjóðlegar ráðstefnur.

Einn kosturinn sem ráðherra og borgarstjóri stóðu frammi fyrir var að fresta verkefninu. Það lá beinast við í ljósi kreppunnar.

Við nánari skoðun reyndist þessi leið hafa meiri ókosti en kosti. Þetta hefðu verið skilaboð um uppgjöf, dapurlegur boðskapur fyrir sálartötur þjóðarinnar. En það sem verra er, þetta hefði verið afleit ráðstöfun fjármuna.

Frestun er óábyrg

Tónlistar- og ráðstefnuhúsið mun kosta fullgert með vöxtum um 24,5 mrð. kr. Þegar hrunið skall yfir okkur hafði verið byggt fyrir 10 mrð. Síðan hefur bæst við þá upphæð.

Reiknað hefur verið út, að frestun myndi kosta um 10 mrð. kr. í kröfum m.a. erlendra framleiðenda sem höfðu samninga í höndunum.

Af þessum tíu mrð. færu þrír strax í súginn en 7 mrð. hefðu lent á bönkum, verktakafyrirtækjum og öðrum birgjum. Það hefði leitt til gjaldþrotahrinu og enn meira atvinnuleysis í þeirri grein sem harðast hefur orðið úti. Það hefði verið fullkomlega óábyrgt af ríkisstjórn og borgarstjórn að leggja árar í bát, þegar hér var komið. Það hefði dýpkað kreppuna og gert endurreisnarstarfið enn erfiðara. Frestun hefði sólundað megninu af þeim peningum sem búið var að setja í húsið. Þess í stað eru þeir nýttir og við fáum fullgert hús í stað stórrar rústar. Ef eingöngu er horft á peningahliðina þá var þetta að mínu mati eina skynsamlega leiðin. Allt annað hefði leitt af sér mikla fjárhagslega sóun. Á henni höfum við ekki efni lengur. Forgangsröðin var því hárrétt.

Frestaðar byggingar

Það hefði verið óþolandi fyrir landsmenn að hafa þetta ferlíki gapandi í hjarta höfuðborgarinnar um óákveðinn tíma. Þar að auki hefði byggingin fljótlega veðrast og skemmst. Ef slá hefði átt byggingunni á frest, hefði fyrst þurft að gera hana fokhelda. Það hefði kostað nokkra milljarða. Reynsla okkar og annarra af því að skilja eftir hálfkláraðar byggingar á berangri vatni og vindi að bráð er afleit. Framkvæmdum við Þjóðleikhúsið var frestað í mörg ár. Húsið hefur aldrei borið þess bætur. Þrátt fyrir ýmsar viðgerðir er húsið í afar slæmu ásigkomulagi. Byggingu Hallgrímskirkju var frestað. Það kostar nú milljarða að endurgera hana. Þetta eru ekki uppörvandi fyrirmyndir. Byggingu Péturskirkjunnar í Róm, sem Kári Stefánsson tók sem leiftrandi fordæmi, var líka frestað. Til að klára hana eftir langa frestun þurfti að fjármagna hana með aflátsbréfum, sem leiddi til klofnings kirkjunnar og 30 ára stríðsins. Hún er afleitt dæmi um ágæti frestunar.

Misvísandi samanburður

Í grein sinni í Morgunblaðinu leggur Kári til, að í stað þess að klára að byggja tónlistarhúsið þá verði þeim peningum sem nota á í húsið frekar varið til að efla skólastarf. Það sýnist göfug hugsun, sem nær skjótt eyrum lesenda.

Hér er þó um villandi framsetningu að ræða sem leiðir til misvísandi niðurstöðu. Það gengur ekki að stilla annars vegar upp sparnaði í rekstrarliðum skóla og fjárfestingu í byggingu hins vegar.

Án þess að vilja fara út í þras um mismuninn á rekstrarútgjöldum og fjárfestingum, þá er hér er um tvær aðskildar stærðir að ræða. Þegar þar að kemur að greiða þarf lánið vegna tónlistarhússins niður, eftir áratugi, verður fjárhagur þjóðarinnar vonandi orðinn burðugri og ekki þörf á að knepra fé til skólastarfs. Rekstrarfé til skóla skerðist ekkert vegna byggingar tónlistarhússins og myndi ekkert aukast þótt byggingunni yrði frestað. Það bar ekki vott um ólæknanlegan rembing eða „söng í skítnum“ þegar ákveðið var að klára húsið, heldur yfirvegaða og vandlega útreiknaða leið út úr skítnum.

Höfundur er hagfræðingur.