Michael Jackson
Michael Jackson
LÖGREGLAN í Los Angeles yfirheyrði einkalækni Michaels Jackson í fyrradag en hann var vitni að dauða poppkóngsins. Lögreglan segir hann þó ekki vera grunaðan um neinn glæp heldur hafi vantað upplýsingar við frekari rannsókn málsins.

LÖGREGLAN í Los Angeles yfirheyrði einkalækni Michaels Jackson í fyrradag en hann var vitni að dauða poppkóngsins. Lögreglan segir hann þó ekki vera grunaðan um neinn glæp heldur hafi vantað upplýsingar við frekari rannsókn málsins. Læknirinn, sem ekki náðist í dagana eftir andlát popparans, var yfirheyrður í þrjár klukkustundir. Læknirinn fylgdi þó Jackson á spítalann á fimmtudaginn og var við hlið hans á sjálfri dánarstundinni. Hann hefur gefið lögreglunni loforð um að vera til taks þar til rannsókn málsins lýkur.

Fjölskylda Jackson tekur dauða hans afar illa og hefur farið fram á aðra krufningu í von um að hún gefi frekari vísbendingar um skyndilegan dauða hans. Lögregluyfirvöld segja þó að engin ummerki hafi fundist sem bendi til að um glæp hafi verið að ræða.

Óstaðfestar fréttir herma að Jackson hafi tekið verkjalyfið Demerol daglega. Barnfóstra hans fullyrðir einnig að Jackson hafi tekið inn aragrúa af lyfjum á hverjum degi öll þau 17 ár sem hún var á heimili hans. Hún segir einnig að hún hafi oft þurft að hjálpa honum við að kasta upp eftir að hann hafi tekið of stóra lyfjaskammta.