Inga Ásta Hafstein Hefur opnað tónlistarsetur fyrir ungt fólk í klassíska geiranum.
Inga Ásta Hafstein Hefur opnað tónlistarsetur fyrir ungt fólk í klassíska geiranum. — Morgunblaðið/Jakob Fannar
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eftir Kolbrúnu Bergþórsdóttur kolbrun@mbl.is Tónlistarsetur hefur verið sett á stofn á Stokkalæk að frumkvæði hjónanna Ingu Ástu og Péturs Hafstein.

Eftir Kolbrúnu Bergþórsdóttur

kolbrun@mbl.is

Tónlistarsetur hefur verið sett á stofn á Stokkalæk að frumkvæði hjónanna Ingu Ástu og Péturs Hafstein. „Með setrinu viljum við styrkja unga tónlistarmenn í klassískri tónlist, gera þeim fært að efla færni sína og menntun og veita bæði þeim og öðru tónlistarfólki færi á að iðka tónlist sína, koma saman og æfa og halda tónleika,“ segir Inga Ásta.

Þörf fyrir stuðning

Inga Ásta, sem er píanókennari, er formaður minningarsjóðs um föður sinn, Birgi Einarsson apótekara, en sjóðurinn veitir ungu og efnilegu tónlistarfólki styrki til námsdvalar erlendis. „Í starfi mínu með sjóðnum hef ég séð hversu mikil þörf er fyrir að styrkja og styðja við ungt tónlistarfólk. Við hjónin höfum búið á Stokkalæk í fimm ár og þar sem við höfum gott húsnæði til umráða viljum við leggja okkar að mörkum til að styðja unga listamenn,“ segir Ásta.

Glæsileg aðstaða

Tónlistarsetrið er til húsa í fyrrum fjósi við gamla bæinn í landi Stokkalækjar á Rangárvöllum. Þar var áður hótelrekstur og ferðaþjónusta. Í húsinu eru átta tveggja manna herbergi með baði og Kawai-píanó er í hverju herbergi. Í salnum, sem tekur um fimmtíu manns í sæti, er nýr Steinway-flygill, valinn af Víkingi Heiðari Ólafssyni.

„Á hverju ári munum við úthluta nokkrum styrkjum til endurgjaldslausrar dvalar í setrinu til þeirra tónlistarnema eða tónlistarkennara sem hafa áhuga á að skipuleggja og standa fyrir meistaranámskeiðum,“ segir Inga Ásta. „Einnig munum við úthluta dvalarstyrkjum til tónlistarnema og tónlistarmanna, sem eru að hefja feril sinn sem atvinnumenn í klassískri tónlist, til æfinga og tónleikahalds. Svo munum við einnig leigja öðru tónlistarfólki staðinn til æfinga, tónleikahalds eða upptöku gegn vægu gjaldi. – Eða bara öðrum hópum til samkomuhalds eftir því sem verða vill.“

Víkingur Heiðar á tónleikum

Tvennir tónleikar verða haldnir í tónlistarsetrinu á Stokkalæk, sem kallast Selið, 4. júlí, og hefjast þeir kl. 14 og 17. Þar mun Víkingur Heiðar Ólafsson flytja eigin útsetningar á íslenskum sönglögum auk verka eftir Chopin og Debussy. Þá munu hann og Halla Oddný Magnúsdóttir spila fjórhenta útsetningu Sveinbjörns Sveinbjörnssonar á íslenska þjóðsöngnum, Ó, Guð vors lands. Ekki er vitað til að þessi útsetning hafi áður verið flutt opinberlega hér á landi. Loks munu Víkingur og Hulda Jónsdóttir fiðluleikari flytja verk eftir Manuel de Falla og Mozart. Ókeypis er á tónleikana en vegna takmarkaðs sætafjölda þarf að panta miða í síma 487-55-12 miðvikudaginn 1. júlí milli 13 og 18.