<strong>Ólga</strong> Stuðningsmenn Zelaya hafa 
mótmælt valdaráni hersins.
Ólga Stuðningsmenn Zelaya hafa mótmælt valdaráni hersins. — Reuters
Eftir Jóhönnu Maríu Vilhelmsdóttur jmv@mbl.is ÞINGIÐ í Hondúras útnefndi í gær Roberto Micheletti, forseta þingsins, nýjan forseta landsins eftir að Hæstiréttur hafði fyrirskipað að forsetinn, Manuel Zelaya, yrði sendur í útlegð.

Eftir Jóhönnu Maríu Vilhelmsdóttur

jmv@mbl.is

ÞINGIÐ í Hondúras útnefndi í gær Roberto Micheletti, forseta þingsins, nýjan forseta landsins eftir að Hæstiréttur hafði fyrirskipað að forsetinn, Manuel Zelaya, yrði sendur í útlegð.

Valdarán hersins fór fram skömmu áður en þjóðaratkvæðagreiðsla átti að hefjast sem hefði getað gefið Zelaya heimild til að endurskoða stjórnarskrána, en andstæðingar hans sögðu að það myndi tryggja honum setu sem forseti.

Höfuðborgin lömuð

„Þeir eru að skapa skrímsli sem þeir munu ekki geta hamið,“ sagði Zelaya við fjölmiðla þegar flogið hafði verið með hann til Kostaríka.

Stór hluti höfuðborgarinnar var án rafmagns í gær, skriðdrekar óku um stræti og herflugvélar sveimuðu í lofti. Hermenn gættu helstu stjórnarbygginga og dreifðu sér á mikilvæg gatnamót borgarinnar. Mótmælendur fóru út á götur, hentu grjóti að hermönnum og kölluðu „svikarar!“ Óttast er að átökin geti farið vaxandi á næstu dögum.

Aukin spenna hefur verið í landinu síðustu vikur vegna atkvæðagreiðslunnar en í síðustu viku úrskurðuðu Hæstiréttur og þingið að hún stríddi gegn stjórnarskránni.

Eftir að yfirmaður hersins, Romeo Vazquez, hafði sagt að herinn tæki ekki þátt í framkvæmd kosninganna var hann rekinn af forsetanum, en Hæstiréttur úrskurðaði brottvikninguna ógilda.

Zelaya er bandamaður Hugos Chávez, forseta Venesúela, og eftir þriggja ára setu hans á forsetastóli hefur andstaða millistéttarinnar og ríkra viðskiptamanna við hann aukist. Þeir óttast að Zelaya hafi í hyggju að taka upp sömu sósíalísku stjórnarhætti og Chávez í Venesúela.

S&S

Um hvað átti að kjósa?

Zelaya var kosinn til fjögurra ára árið 2005 en hafði fyrir nokkrum vikum beðið þjóðina að samþykkja frumvarp sem heimilaði honum að vera aftur í framboði í forsetakosningum í nóvember.

Af hverju er Zelaya í útlegð?

Þingið og Hæstiréttur úrskurðuðu atkvæðagreiðsluna ólöglega en forsetinn hafði þegar dreift kjörkössum og ætlaði að halda kosningunum til streitu. Hann var sakaður um að vinna gegn lýðræðinu.

Voru fleiri handteknir?

Talið er að í það minnsta átta úr ríkisstjórninni séu í haldi, þ. á m. utanríkisráðherrann Patricia Rodas.