Guðmundur Halldór Atlason fæddist í Reykjavík 2. janúar 1958. Hann lést á hjúkrunarheimilinu Skógarbæ 18. júní síðastliðinn. Foreldrar hans voru Sif Áslaug Johnsen húsmóðir, f. 25. ágúst 1926, d. 12. maí 2006 og Atli Helgason skipstjóri, f. 7. júlí 1926, d. 18. september 2001. Systkini Guðmundar eru: 1) Lárus Johnsen Atlason, f. 22. september 1951, maki Nanna Guðrún Zoëga, f. 1951. Börn þeirra Una Marsibil, Atli Sveinn, Kristinn Ingi, Lárus Helgi, Sigurjón Örn og Guðjón Hrafn. 2) Atli Helgi Atlason, f. 25. maí 1965, sambýliskona Ingibjörg Gréta Gísladóttir, f. 1966. Börn hennar: Mario Ingi og Jóhanna Alba og 3) Dóra Elín Atladóttir Johnsen, f. 10.janúar 1968, maki Birgir Bárðarson, f. 1965. Börn þeirra: Guðmundur Halldór, Silvía Sif og Ísabel Dóra.

Guðmundur ólst upp í Holtagerði í Kópavogi og gekk ætíð undir nafninu Muggur meðal vina og fjölskyldu. Hann gekk í Kársnesskóla, Þingholtsskóla og Verzlunarskóla Íslands. Hann lagði einnig tímabundið stund á lögfræði við Háskóla Íslands. Árið 1991 fór hann í Sheffield School of Aeronautics í Ft. Lauderdale í Flórída og lauk þar námi í flugumsjón.

Guðmundur fór ungur á sjó, vann fyrst sem vikadrengur og síðar háseti á millilandaskipum Eimskips hjá föður sínum. Eftir að námi lauk starfaði hann hjá Hafskip bæði á Íslandi og í Englandi. Fyrst sem forstöðumaður tjónadeildar Hafskips í Reykjavík en siðan sem aðstoðarmaður framkvæmdastjóra í Ipswich. Eftir heimkomu frá Bretlandi réð hann sig til Sölumiðstöðvar hraðfrystihúsanna þar sem hann sinnti sölu og útflutningi. Guðmundi bauðst síðan að taka að sér starf bæjarritara hjá Dalvíkurbæ og sinnti hann því uns hann hóf störf hjá flugfélaginu Atlanta. Guðmundur starfaði nær óslitið hjá flugfélaginu Atlanta frá árinu 1990-2005 með einu hléi, þegar hann tók sér í leyfi í rúmt ár til að sinna stöðu flugrekstrarstjóra hjá MD Airlines í Kópavogi.

Guðmundur sinnti ýmsum störfum innan veggja flugfélagsins Atlanta, meðal annars í flugrekstrardeild, sem starfsmannastjóri, stöðvarstjóri og loks sem flugumsjónarmaður. Hann ferðaðist mikið á vegum vinnu sinnar og dvaldi oft langdvölum á framandi slóðum, meðal annars í Indónesíu og Túnis. Guðmundur var við störf á skrifstofu Atlanta er hann veiktist og fékk heilablóðfall í janúar 2005. Hann dvaldi fyrst á Reykjalundi en fluttist þaðan á hjúkrunarheimilið Skógarbæ þar sem hann lést þann 18. júní síðastliðinn.

Guðmundur var unnandi íslenskrar náttúru og mikill útivistarmaður. Hann naut þess að vera í kyrrð og ró og renna fyrir fisk þegar færi gafst. Guðmundur ferðaðist mikið innanlands sem utan og hafði gaman af að fræðast um þá staði sem hann heimsótti. Hann var fjölfróður um landið og óþrjótandi uppspretta fróðleiks um alla hluti er vöktu áhuga hans.

Útför Guðmundar Halldórs fer fram frá Háteigskirkju í dag, 29. júní, kl. 15.

Hann var ekki gamall, hann bróðir minn, þegar hann kom mér og mömmu í dulítið uppnám. Hann Muggur bróðir var nefnilega ótrúlega duglegur „dundari“ og þeir hæfileikar hans komu fljótt í ljós. Í raun í fyrsta skiptið sem hann virtist týndur, hreinlega týndist. Hann hafði verið inni í stofu að leika sér á gólfinu vestur á Hjarðarhaga, trúlega ársgamall, en þegar næst var litið á drenginn var hann horfinn. Það var eins og hann hefði gufað upp! Leitað var í öllum herbergjum, hlaupið fram á gang en stráksa var bara hvergi að finna. Það var ekki fyrr en eftir mikla leit að sá stutti fannst á bak við stofustólinn og var bara að „dunda sér“ eins og hann átti eftir að gera svo margoft.

Mugga líkaði nefnilega fátt betra en að vera aleinn og í friði og ró frá skarkala heimsins, að gera eitthvað það sem hann hafði mætur á, svo sem að veiða silung eða bara skoða náttúruna í allri sinni dýrð. Á seinni árum eignaðist Muggi forláta Súkku jeppling sem hann fór á ótrúlegustu leiðir, já og það yfirleitt einbíla. Bíllinn og Muggur voru nánast eitt þegar hann fór í fjallaferðir og margar lýsingar þar um voru lyginni líkastar, því fáum hefði dottið í hug að fara á ekki stærri bíl en Súkkunni slíkar svaðilfarir nema Mugga mínum, sem var þess fullviss að „þeir tveir“ gætu komist nánast allt það sem hugurinn girntist, svo fremi að farið væri hægt og af fyllstu varúð og yfirvegun. Sem betur fer bilaði bíllinn aldrei og allt gekk upp. Þið ykkar sem þekktuð Mugga bróður vitið að hann drakk ekki, aldrei, kaffi. Það hélt ég líka, en komst að því einu sinni þegar við hittumst austur á Vopnafirði að svo var ekki. Hann einn á ferð rétt eins og vanalega og ég á ferð ásamt eiginkonu og vinum. Okkur var boðið á bæ þar í sveit vegna vinskapar samferðahjóna okkar. Hjónin sem buðu okkur til bæjar og þar bjuggu voru hvort öðru fróðara um ættfræði, og fljótlega kom í ljós þegar við gerðum grein fyrir ætterni okkar bræðra (ættaðir frá Leiðarhöfn) að ekki var komið að tómum kofunum hvað sögur um forfeður okkar varðaði. Það fór því svo að þegar húsfrúin bauð upp á kaffi, sá ég Mugga bróður sporðrenna tveim bollum af bikasvörtu kaffi um leið og hann hámaði í sig lýsingar húsráðanda af ættmennum okkur þar um slóðir. Svo mjög hafði Muggur gaman af þessum lýsingum að hann hreinlega svelgdi í sig kaffið um leið og hann drakk í sig söguna!

Ég hef hvorki fyrr né síðan séð hann bróður minn drekka kaffi nema ef vera kynni eðalkaffi ættað frá Írlandi. Það þurfti sterk bein til að komast í gegnum það sem á hann var lagt síðustu árin, og á engra færi nema sannrar hetju sem hann sannarlega var. Og jafnvel sannar hetjur eiga sínar óskir og nú hefur hann fengið ósk sína uppfyllta. Megi Guðs friður fylgja honum hér eftir sem hingað til. Þinn bróðir

Lárus (Lassi).

Nú er hann Muggur bróðir minn allur og ennþá er sú þunga staðreynd að síast inn. Fréttin af láti hans síðdegis fimmtudaginn 18. júní kom eins og þruma úr heiðskíru lofti. Ég hafði heimsótt Mugga í Skógarbæ deginum áður, 17. júní, og stoppaði stutt við enda á leiðinni í Laugardalshöll á minn fyrsta landsleik í handbolta. Honum þótti það athyglisvert enda hef ég ekki verið þekktur fyrir áhuga á boltaíþróttum. Ekki óraði mig fyrir að þetta væri í síðasta skipti sem ég sæi bróður minn á lífi. En svona getur tilveran verið óútreiknanleg.

Muggi var einstaklega góður bróðir. Hann var ávallt til staðar og ósjaldan leitaði maður til hans þegar maður þurfti hjálpar við og var tvístígandi í hinu eða þessu. Hann var ekki bara bróðir minn heldur minn besti félagi og sá sem þekkti mig hvað best.

Á æskuárunum í Holtagerðinu hafði Muggi alltaf auga með okkur yngri systkinunum. Meira að segja þegar hann fékk bílpróf, þá fannst honum til að mynda ekkert tiltökumál að taka litla bróður með á rúntinn með félögunum sem var auðvitað spennandi lífsreynsla fyrir tíu ára peyjann. Svona var hann Muggi minn, leyfði manni alltaf að vera með. Sama var upp á teningnum þegar ég varð þeirrar gæfu aðnjótandi að vinna með honum á Ms. Skeiðsfossi, sumarið 1980. Þrátt fyrir aldursmuninn var ég enn og aftur tekinn með í hópinn og lærði ýmislegt um lífsins gagn og nauðsynjar. Samverustundum okkar fækkaði þegar ég fór í nám í Bandaríkjunum. Fyrstu árin hittumst við þegar ég kom heim í sumar- og jólafríum en eftir að námi lauk og ég fluttist til Miami á Flórída þá fækkaði ferðum mínum heim. Muggur var þó alltaf duglegur að heimsækja mig enda hafði hann ekkert á móti því að ferðast. Það var til að mynda orðinn fastur liður að keyra niður Florida Keys alla leið til Key West. Þar fannst honum gott að vera. Hann heimsótti mig í vinnuna í Karíbahafið og til Írlands sem hann hafði sterkar taugar til. Haustið 2004 ferðuðumst við bræður vítt og breitt um Suður-England, skoðuðum borgir og bæi enda hafði Muggur afskaplega gaman af að fræðast um þá staði sem hann heimsótti. Þetta reyndist bæði hans og okkar síðasta ferðalag saman því Muggur varð fyrir því áfalli að fá heilablóðfall snemma árs 2005. Þá breyttist tilveran eins og við þekktum hana. Muggur, maraþonhlauparinn, sem naut þess að ferðast um óbyggðir Íslands, sem naut þess að ferðast í útlöndum var nú verulega líkamlega fatlaður og bundinn við hjólastól. Hann þurfti að læra allt upp á nýtt. Læra að anda, hreyfa hendurnar og tala, hann þurfti að læra að takast á við nýja veröld. Þrátt fyrir mótbyrinn hélt hann ætíð húmornum sem einkenndi hann og gat ávallt komið auga hið kómíska í tilverunni. Það er með aðdáun sem ég lít til baka á bróður minn, þessa hetju, sem þurfti að takast á við hlutskipti sem engum skyldi maður ætla, en það gerði hann með æðruleysi og einstöku raunsæi. Nú er þessari þrautagöngu lokið og eftir stendur minning og söknuður um góðan dreng, vin og bróður.

Hvíl í friði, elsku Muggur minn.

Atli Helgi.

Í dag kveð ég Mugga bróður minn sem var minn besti vinur, besti bróðir, leiðbeinandi og náinn fjölskyldumeðlimur.

Frá því ég var ung að aldri var Muggur alltaf stór hluti af minni tilveru, hann hikaði ekki við að taka mig með sér í bíltúr út um allt, hvort sem farið var á rúntinn niður á Reykjavíkurhöfn og nágrenni eða út fyrir bæinn að skoða sveitina og þá var jafnvel rennt fyrir fisk en alltaf endaði ferðin á stoppi við Bæjarins beztu áður en heim var haldið. Þegar ég varð eldri fór Muggur með mér upp í Bláfjöll eftir skóla og þá jafnvel nokkrum sinnum í viku og áttum við góðar stundir í fjallinu enda mikið fyrir útiveruna. Muggur hefur alla tíð verið mér innan handar og var það því ekki spurning að skíra son minn í höfuðið á honum þegar hann kom í heiminn og alveg ómeðvitað var hann einnig kallaður Muggur. Þegar ég byrjaði að búa breyttist samband okkar Mugga í enn nánari vináttu og var hann mjög tíður gestur á heimili mínu og var frekar tilkynnt um að hann væri ekki í mat en að hann ætlaði að koma í heimsókn. Við hjónin fórum í ófáar utanlandsferðir með honum til Írlands þar sem keyrt var um landið og hinir ýmsu staðir kannaðir. Mér er sérstaklega minnisstæð ein af þessum ferðum þar sem við ákváðum að bóka ekki hótel fyrirfram heldur byrja á því að keyra upp í sveit og finna gistingu, fluginu seinkaði mikið og enga gistingu að fá svo við ákváðum að koma okkur fyrir í bílnum úti í sveit. Við sváfum eins og steinar og um morguninn þegar birti af degi sáum við að við höfðum lagt bílnum við fallegan sveitakirkjugarð og gátum við ekki annað en hlegið mikið að þessu og var þessi atburður oft rifjaður upp á góðum stundum. Muggur var mikill náttúruunnandi og fór oft með okkur fjölskyldunni í útilegu og var þá kanóinn tekinn með og hann settur á flot á hinum ýmsum vötnum og ám og þau könnuð til hins ýtrasta. Muggur var ekki bara til staðar fyrir mig heldur var hann alltaf til staðar fyrir börnin mín og voru þau mjög hænd að honum enda alin upp með hann sér við hlið og gátu þau alltaf leitað til hans hvort sem það var vegna lærdóms eða bara til að spjalla. Eftir áfallið breyttist tilveran hjá okkur öllum og við tók erfið barátta hjá Mugga. Eftir langa dvöl á Landspítalanum fluttist hann á Reykjalund þar sem endurhæfing tók við. Þegar Muggur hafði náð nokkrum bata fórum við í ökuferðir um sveitina og hafði hann mikla ánægju af þessu litla frelsi sem hann hafði öðlast aftur og ekki fannst litlu frænku hans leiðinlegt að hlusta á allan þann fróðleik sem hann sagði henni um hvern hól sem við keyrðum framhjá. Þegar Muggur flutti á Skógarbæ voru heimsókninar tíðar hjá okkur öllum enda alltaf gott að hitta og tala við Mugga og eftir hverja heimsókn fór maður enn fróðari heim en maður var þegar maður kom. Það er með sorg í hjarta og tár í augum sem ég kveð þig, elsku Muggur minn, en ég veit jafnframt að þér líður betur núna og að þú fylgist vel með okkur. Takk fyrir allar dásamlegu samverustundirnar sem við áttum saman.

Þín systir

Dóra Elín.

Það er gott að kynnast góðu fólki en enn betra að tengjast því. Í þeim eðalflokki var Muggur. Þegar við Atli Helgi bróðir hans rugluðum saman reytum okkar var ég mjög fljótlega kynnt fyrir Mugga, hann var fjölskylduprófsteinninn og var svo elskulegur að hleypa mér í gegn. Ég þurfti að læra að hlusta upp á nýtt sem var hið minnsta mál miðað við hvað hann hafði þurft að læra upp á nýtt eftir áfallið. En ég heyrði líka vel upplýstan mann, náttúruunnanda og húmorista. Mér þótti vænt um þær stundir sem við ræddum saman í Skógarbæ, þótti vænt um sögurnar sem hann sagði mér af bróður sínum, þótti vænt um skotin sem hann lét fljúga um menn og málefni og þótti vænt um hnyttnar athugasemdirnar sem oft fylgdu þá í kjölfarið. Mér þótti einfaldlega vænt um að kynnast honum og vera í samskiptum við hann.

Þegar við Atli fórum í frí var hann nálægur þó hann væri fjarri. Oft var ég leidd á staði sem þeir bræður höfðu farið á og mér sagðar sögur af ferðalögum þeirra. Þá var hringt til Mugga, aðstæðum lýst og þeir bræður rifjuðu upp gamla tíma. Það er gott að vera í góðu sambandi við sína nánustu og það var gaman að sjá, heyra og finna hve nánir þeir bræður, Atli og Muggur, voru. Hve þeir sóttu hvor í annan, aðstoðuðu hvor annan og virtu. Hve fallegt og sterkt bræðrasamband þeirra var.

Muggur mun áfram að vera nálægur þó hann verði fjarri. Við hringjum kannski ekki í hann eða sendum honum sms en hann mun fylgja okkur um ókomna tíð, hér, þar og alls staðar.

Kærleikskveðja

Ingibjörg Gréta Gísladóttir.

Það er ekki hægt að kveðja þig, kæri vinur og mágur, án þessa að fella tár en líka að brosa út í annað þegar maður hugsar til alls þess sem við höfum gert saman í gegnum tíðina. Mín fyrstu kynni voru: þú nýkominn heim eftir að hafa unnið fyrir Hafskip í Ipswich, ungur maður með yfirvararskegg. Rólegur og yfirvegaður, tókst alltaf mat á aðstæðum og bentir á lausnir. Muggur, þú varst maðurinn sem kenndir mér að þekkja og viðurkenna að öll mál, góð eða slæm, hafa margar hliðar og margar lausnir. Þrátt fyrir það hve ólíkir við vorum oft á tíðum þá náðum við ótrúlega vel saman, við vógum hvor annan upp þegar við átti og ég held að með góðri samvisku höfum við alltaf staðið vörð hvor um annan, skoðanir okkar á trú voru glettilega líkar og einnig á mörgum öðrum hlutum, við ýttum hvor öðrum til að framkvæma hluti eins og t.d. að ganga á Helgafellið ekki einu sinni heldur tvisvar, fara á upp á topp á Keili eða ganga Reykjanesgönguna. Allt sem tengdist útivist varst þú manna fróðastur . Þminn kæri vinur varðveiti ég ætíð hjá mér.

Þegar nafni þinn átti við sín veikindi í æsku og enginn virtist skilja hvað gekk á, þá varst þú sá sem að öðrum ólöstuðum varst okkar stoð og stytta. Hvort sem það var þín vernd yfir nafna þínum eða okkar fjölskyldu sem gerði þig að okkar heimilismeðlimi nær óslitið frá því við Dóra fórum að búa veit ég ekki, en hitt veit ég að í mínum huga varst þú ekki bara mágur, trúnaðarvinur og bróðir heldur líka eins og elsti sonurinn í fjölskyldunni okkar.

Það er ótrúlegt þegar maður fer yfir svona langa sögu, tæplega 25 ár, hvað margt skemmtilegt stendur uppúr hjá okkur. Ég man t.d. allar ferðirnar sem við fórum til Írlands, keyrðum um sveitir Írlands og kynntumst menningunni á írsku pöbbunum. Að veiða var nokkuð sem við gerðum mikið af og sagan úr Stóru-Laxá í Hreppum var okkur alltaf í fersku minni, búnir að berja ána allan daginn og ekki orðið svo mikið sem varir þegar sáum einn vænan stökkva, veiðihjólið hjá þér stóð á sér og ég henti út og búmm, einn 17 punda kominn á, viðureign sem stóð í rúmlega klukkustund, þetta var einn af þessum atburðum sem standa uppúr kannski vegna þess að ég fékk aldrei að gleyma því af þinni hálfu hver hefði raunverulega átt að fá fiskinn.

En lífið er ekki bara leikur og þar tókust á gleði og sorg, þú einn eða með okkur, ekki deili ég um það hvort sorgin hafi verið meiri þín eða okkar þegar þú veiktist en hitt veit ég að veikindi þín höfðu mikil áhrif á allt okkar líf. Einskis óskaði ég heitar en heyra þig segja að þér liði betur og þú fyndir að þú værir allur að koma til en því miður þá urðu okkar samræður oft frekar í hina áttina.

Muggur, það er alveg klárt að ég á eftir að sakna vinar míns, trúnaðarvinar, mágs og fjölskyldumeðlims meir en margan grunar.

Guð geymi og gæti þín eins nálægt sér eins og þú gættir okkar. Þinn vinur og mágur,

Birgir Bárðarson.

Nú er ég að kveðja Mugga frænda minn sem er dáinn. Hann er farinn upp til Guðs og englanna og er núna hjá ömmu Sif og afa Atla. Muggi frændi var alltaf góður við mig og mundi alltaf eftir afmælinu mínu. Nú er ég búin að læra að hjóla á hjólinu mínu sem Muggi frændi gaf mér og ég veit að hann getur séð hve dugleg ég er að hjóla. Ég heimsótti Mugga oft í Skógarbæ og ég gat alltaf talað við hann. En núna er hann dáinn og ég get ekki oftar talað við hann.

Vertu yfir og allt um kring

með eilífri blessun þinni,

sitji Guðs englar saman í hring

sænginni yfir minni.

(Sigurður Jónsson frá Presthólum)

Bless, elsku Muggi frændi minn, ég veit að englarnir passa þig vel.

Þín frænka,

Ísabel Dóra.

Þegar ég fékk hringinguna um að þú værir fallinn frá, fékk ég hrikalega sárt fyrir hjartað, ég trúði ekki því sem ég var að heyra.

Þú varst alla mína ævi sá fjölskyldumeðlimur sem ég gat alltaf treyst á að myndi hjálpa mér, hvort sem það var varðandi skóla eða stelpur. Ég leit alltaf upp til þín frá því ég man eftir mér enda er ég hrikalega stolltur að hafa verið skírður alnafni í höfuðið á hjálpsamasta og óeigingjarnasta einstaklingi sem ég hef nokkurn tímann kynnst.

Ég mun aldrei gleyma því sem við gerðum saman. Þú varst mér mikil fyrirmynd og hvattir mig alltaf til að gera hluti sem ég hélt ég gæti ekki gert, og t.d. fór ég í fyrsta skipti í sánubað á Laugarvatni þar sem ég hugsaði að ef Muggi frændi gæti farið í þennan hita þá ætti ég að geta það líka.

Þótt þú hafir verið móðurbróðir minn þá leið mér oft eins og þú værir stóri bróðir minn enda var ekkert sem þú gerðir ekki fyrir mig eða alla aðra í kringum þig og baðst aldrei um neitt í staðinn. Ég vona og trúi að þér líði vel þar sem þú ert núna, enda ef einhver á skilið frið þá ert það þú, Muggur minn. En jafnvel þótt þú sért fallinn frá þá muntu alltaf eiga stóran þátt í því hvernig ég er í dag og ég mun alltaf eiga frábærar minningar um alla þá frábæru hluti sem við gerðum saman.

Guðmundur Halldór Atlason (Muggur yngri).

Elsku Muggur.

Ég trúi ekki að uppáhaldsfrændi minn sé farinn.

Ég man svo vel eftir því þegar þú tókst mig með þér í bíltúr í flotta sportbílnum þínum til ömmu Sifjar þegar hún var í endurhæfingu í Hveragerði. Við stoppuðum í sjoppu og fengum okkur kók í dós og litla piknik-dós, eins og þú varst svo oft með þegar þú komst í heimsókn heim.

Ég man líka vel eftir þegar ég var í Vestmanneyjum '97 og þú flaugst til Eyja til að heimsækja mig og varst með mér í heilan dag að skoða allt á eyjunni, svo flaugstu til Reykjavíkur aftur um kvöldið. Það var svo skemmtilegur dagur, ég mun aldrei gleyma honum.

Manstu fyrir ekki svo löngu þegar við vorum að borða saman og Atli frændi kíkti í heimsókn til þín í nýjum frakka sem líktist frekar kvenmannskápu? Við gerðum nú frekar mikið grín að honum og „kápunni“ hehe, honum fannst það sko ekki jafn fyndið og okkur, enda sáum við hann ekki aftur í henni.

Það eru svo margar minningar sem við eigum saman, allar útilegurnar, sumarbústaðaferðirnar, kvöldin sem þú komst heim þegar þú varst búinn að vinna og við sátum knúsandi hvort annað í sófanum og sofnuðum yfir sjónvarpinu.

Ég gæti talið endalaust upp, enda varstu og munt alltaf vera númer 1 hjá mér.

Ég sakna þín strax en ég veit að þú ert hér hjá mér. Ég elska þig, Muggur besti frændi.

Þín frænka,

Silvía Sif Birgisdóttir Johnsen.

Þrátt fyrir veikindi þín er skrýtið að kveðja þig nú, kæri vinur. Þú sem varst alltaf svo hress og heilbrigður. Við urðum strax miklir vinir þegar við kynntumst í Versló. Þú hefur verið einn af mínum traustustu vinum allar götur síðan. Það vakti fljótlega athygli mína hve vel þú hugsaðir um yngri systkini þín, Atla og Dóru. Þú hafðir ekki alltaf tíma til að vera með okkur félögunum því þú varst að fara með þau í sund eða eitthvað álíka. Það vantaði svo sem ekkert upp á að við ættum tíma saman á þessum árum. Þetta voru skemmtilegustu árin og alltaf eitthvað um að vera. Hámarkinu var þó náð í útskriftarferðinni til Spánar 1978. Þar kom ég ekki að tómum kofunum hjá þér hvað reynslu af utanlandsferðum snerti. Þú varst búinn að sigla víða um heim með skipum Eimskipa. Ég var að fara í mína fyrstu utanlandsferð. Á þessum árum tókst með okkur vinátta sem aldrei féll skuggi á. Það var sama hvort þú varst að vinna á Íslandi, í Evrópu eða annarri heimsálfu. Við hittumst í London þegar þú bjóst í Ipswich. Þú varst búinn að kynnast borginni vel og kenndir mér á hana. Það var líka gott að heimsækja þig til Dalvíkur. Þú varst svo lífsglaður og mikill snillingur í að sjá spaugilegu hliðar tilverunnar. Tækifærum fækkaði til að hittast á vissu árabili eins og gengur. Við töluðum þó alltaf reglulega saman.

Það var mikið og óvænt áfall þegar ég frétti af veikindum þínum. Muggi orðinn bundinn við hjólastól. Einhverra hluta vegna leið nokkur tími þar til ég kom að heimsækja þig reglulega á Skógarbæ. Þegar ég loks kom til þín var mjög gott að hitta þig, þrátt fyrir að þú segðir mér að lífslöngunin hefði nánast horfið þegar þú fékkst úrskurðinn á Reykjalundi að þú fengir ekki frekari bata. Þegar vonin var farin hvarf eldmóðurinn. Þegar ég bauð þér að keyra þig eitthvað eða bara skoða umhverfið á góðviðrisdögum þá vildir þú það ekki. Þrátt fyrir það var alltaf gott að koma við hjá þér í Skógarbæ. Ég kom oft við þegar ég átti leið framhjá. Ég var búinn að koma mjög reglulega til þín sl. tvö ár og það voru góðar stundir. Þú hafðir mjög gaman af að rifja upp árin í Versló. Það vakti oft furðu mína hvað þú mundir eftir ótrúlegustu hlutum. Húsafellsferðirnar með skólafélögunum voru þér hugleiknar o.s.frv. Undanfarna mánuði var fjármálakreppan ofarlega á baugi. Ég furðaði mig á hve vel þú fylgdist með.

Það var svo hinn 18. júní sl. að ég kom að heimsækja þig og kom að þér eins og þú værir sofandi. Við nánari athugun kom í ljós að þú varst dáinn. Þú varst farinn í annan og betri heim. Ég sá á svip þínum að þú hafðir fengið hægt og rólegt andlát. Það var friður yfir þér og þú laus við verkina sem hrjáðu þig svo lengi. Ég fann til léttis fyrir þína hönd en sakna góðs vinar sem ég mun alltaf minnast með hlýhug. Það var líka gott að hitta starfsfólk Skógarbæjar sem sagði mér að þín yrði sárt saknað. Þú værir yndislegur maður. Opinn einstaklingur og mikill húmoristi. Systkinum þínum og öðrum aðstandendum sendi ég samúðarkveðjur.

Garðar Gunnlaugsson.

1. júní 1976 kynntist ég fyrst honum Mugga, nýráðinn fimmtán ára sem vikapiltur og Muggur sem háseti á fraktarann Skeiðsfoss sem lá við bryggju í slippnum á Akureyri og þekkti ekki muninn á lúðu og skötu. Muggi var þá nýútskrifaður úr Versló og ég á leiðinni í Versló. Hann reyndist mér frá fyrsta degi sem eldri bróðir næstu fimm sumrin og í síðasta túrnum okkar saman var Muggur orðinn bátsmaður og ég orðinn háseti. Enginn um borð dró þessa ráðstöfun í efa að Muggur tæki að sér svo ábyrgðarmikið starf sem bátsmaður, þó ungur væri. Síðasti túrinn okkar saman var einnig sá skemmtilegasti og spannaði heila tvo mánuði. Ferðin sú lá alla leiðina til Grikklands og Túnis með tilheyrandi stoppum við málningarvinnu í slippum um Miðjarðarhafið og öðrum vafasömum stoppum t.d. í Ceuta í Gíbraltarsundi þar sem afdrifaríkur kostur var tekinn um borð, sem átti eftir að draga dilk á eftir sér.

Muggur var alltaf spes – með þeim fyrirvara, þá var hann alltaf flottur og orginal. Muggi burstaði ekki tennurnar með tannkremi. Hann notaði kassettutæki og hlustaði á Elton John í heddfónum, sem engum datt í hug þá, í þessum pínulitlu káetum og gargandi vélardyn. Hann bjó alltaf um rúmið sitt, braut saman fötin sín og las Dale Carnegie. Muggur fór aldrei yfir strikið og var alltaf niðri á jörðinni.

Þó var hann alltaf tilbúinn, í síðustu höfn hvers túrs, að fara á dýrasta veitingastað bæjarins með okkur guttunum til þess eins að panta nautasteik með frönskum og kokteilsósu (sem skipti miklu máli) ásamt tvöföldum vodka í kók og bananasplitt í eftirrétt. Ef erfitt reyndist að fá einhvern þessara rétta var kokkurinn kallaður til og því bara reddað... frábærir tímar sakleysis og gleði.

Leiðir okkar lágu sín í hvora áttina eftir sjósóknina og við hittumst alltof sjaldan í kjölfarið, en þegar við hittumst þá skynjaði ég að Muggur fylgdist með því, sem maður stóð í hverju sinni, hvort sem um nýja fjölskyldumeðlimi var að ræða eða aðrar breytingar á högum manns.

Ég bar alltaf virðingu fyrir Mugga, hann var alltaf réttsýnn og heiðarlegur og setti sig aldrei ofar okkur strákunum þó oft hafi hann haft ástæðu til, og ég kveð Mugga með miklum söknuði. Hefði viljað hafa heimsótt Mugga oftar í veikindum hans og finnst líf hans hafa verið alltof stutt. Þó veit enginn ævi sína fyrr en öll er. Muggi, ég veit að þú stendur þig, því ég veit að þú verður alltaf orginal og stendur alls staðar upp úr – flottur.

Helgi.

Muggur, frændi minn og vinur, er nú fallinn frá langt um aldur fram. Hann er í dag til moldar borinn og kvaddur af vinum og vandamönnum. Fréttin var sár og kom á óvart, en þó ekki að öllu leyti þar sem hann hafði átt við heilsubrest að stríða um tíma. Fyrir rúmum fjórum árum síðan fékk Muggur heilablóðfall og var hætt kominn en náði sér þó furðuvel á strik þrátt fyrir að vera að miklu leyti hreyfihamlaður eftir það. Búseta hans undanfarin þrjú ár var á hjúkrunarheimilinu Skógarbæ í Breiðholti þar sem aðbúnaður var góður og vel hugsað um hann. Honum leið þó sjálfum ekki vel, held ég. Fyrir mann á hans aldri og í blóma lífsins var áfallið mikið og hann var bitur, eðlilega. Þrátt fyrir að andlát hans fylli aðstandendur og samferðarmenn söknuði þá held ég þó að það megi segja með nokkurri vissu að það hafi verið honum líkn.

Eftir að Muggur missti heilsuna, eins og hann orðaði það sjálfur, þá leit ég stundum til hans eitthvert kvöld vikunnar til að spjalla. Ég hafði ekki neina sérstaka reglu á því og oft leið töluverður tími á milli. Yfirleitt var það þó þannig að mér varð hugsað til hans á þann veg að nú væri kominn tími og þá fór ég. Það brást ekki að í hvert sinn sem ég kom þá sagðist hann hafa vitað með fullri vissu að ég kæmi þann daginn eða um kvöldið. Hann hefði fengið hugboð um það. Þó að áfallið hafði leikið líkama frænda míns grátt þá var hugur hans skýr og gaman var að sitja hjá honum og ræða um gamla tíma. Hann hafði skemmtilegan frásagnarmáta og engum gat leiðst í návist hans. Við ræddum mikið um hversu gott fólk við ættum að og oftar en ekki var staldrað við ömmu Dúný og afa Guðmund í Miðtúni 4. Hversu freistandi það væri að fá að hverfa aftur um tíma, upplifa nærveru þeirra á ný og allt yrði aftur eins og það var. Við vorum þó sammála um að það væri ósanngjarnt gagnvart nýju kynslóðunum í stórfjölskyldunni og betra væri bara að ylja sér áfram við góðar minningar. Lífið þyrfti að halda áfram og lúta sínum lögmálum. Mugg var tíðrætt um systkini sín og fjölskyldur þeirra sem sinntu honum vel, einnig um aðra fjölskyldumeðlimi, vini og samstarfsmenn sem á einn eða annan hátt tengdust honum.

Það er góður dagur í dag, ákveðnum lífskafla er lokið og veikindi eru að baki. Örlög frænda míns voru grimm en hann tók þeim með miklu jafnaðargeði og af raunsæi. Hann hefur nú fengið hvíld. Með þessum fátæklegu kveðjuorðum vil ég segja í lokin að það voru forréttindi að hafa Mugg að samferðarmanni og minning hans mun lifa.

Stefán Örn Guðjónsson.

Okkur langar til að minnast Muggs, bekkjarfélaga okkar úr Versló.

Það er skarð komið í hópinn. En minningar okkar um allt sem bekkurinn brallaði saman geymum við. Það voru miklir erfiðleikar sem Muggur þurfti að ganga í gegnum síðustu árin og ekki auðvelt fyrir hann að taka þátt þegar hópurinn hittist. En hann var með okkur í anda og við með hugann hjá honum. Eftir útskriftina úr Versló hittumst við ekki eins oft og áður. Nám, vinna, fjölskylda og annað kallaði á athyglina. En við vitum að tengsl eins og þessi rofna aldrei og hefur bekkurinn alltaf hist reglulega. Síðan þegar við ákváðum haustið 2007 að nú skyldum við fagna 30 ára stúdentsafmælinu vorið 2008 saman og undirbúningur hófst þá urðu heimsóknirnar til Muggs fleiri og við áttum mjög ánægjulegar stundir saman þegar við rifjuðum upp gamlar minningar frá námsárunum, Það var ótrúlegt hvað Muggur mundi allt í smáatriðum.

Rifjaðar voru upp ferðir bekkjarins upp í Húsafell, útskriftarferðin til Costa del Sol, svo eitthvað sé nefnt. Við höfðum gaman af því að rifja þetta upp og hlógum oft mikið. Við skemmtum okkur við að skoða gamlar myndir og við höfðum jafnvel hugsað okkur að nú þyrftum við bara að fara að skrifa þetta niður. En lífið er ekki alltaf eins og við búumst við og nú verða heimsóknirnar til Muggs ekki fleiri en við vitum að hugur okkar allra hefur verið hjá honum og hann hefur fengið góðar hugsanir frá svo ótalmörgum.

Við viljum þakka fyrir samfylgdina og sendum okkar innilegustu samúðarkveðjur til allra aðstandenda Muggs. Blessuð sé minning hans.

Ég sendi þér kæra kveðju

nú komin er lífs þíns nótt,

þig umvefji blessun og bænir

ég bið að þú sofir rótt.

Þó svíði nú sorg mitt hjarta

þá sælt er að vita af því,

þú laus ert úr veikinda viðjum

þín veröld er björt á ný.

Ég þakka þau ár sem ég átti

þá auðnu að hafa þig hér,

og það er svo margs að minnast

svo margt sem um hug minn fer,

þó þú sért horfinn úr heimi

ég hitti þig ekki um hríð,

þín minning er ljós sem lifir

og lýsir um ókomna tíð.

(Þórunn Sigurðardóttir.)

Fh. bekkjarfélaga í 6-Z í Versló 1978,

Bjarndís og Guðrún.

Mig langar að minnast látins félaga með fáeinum orðum, þó mörg orð þurfi til að lýsa þessum sérstaka persónuleika og góða vini.

Guðmundur Halldór Atlason, eða Muggur eins og hann alltaf var nefndur, hefur verið vinur minn í 35 ár. Við Muggur kynntust í Verslunarskóla Íslands haustið 1974 þegar við hófum þar báðir nám. Árin í Versló gleymast seint og átti Muggur sinn þátt í að gera þau enn eftirminnilegri fyrir mig. Muggur var einn af fáum félögum úr Versló sem ég hélt ætíð sambandi við þó leiðir okkar hafi legið í mjög ólíkar áttir. Muggur fór snemma að starfa í flutningum, fyrst skipaútgerð og síðan flugfélögum. Af þessum sökum var hann oft fjarverandi á meðan ég hélt mig mest á Reykjavíkursvæðinu. Við hittumst því oft ekki í langan tíma og erfiðara var um fjar- og tölvusamskipti á þessum árum, en alltaf endurnýjuðust kynnin, þegar Muggur birtist aftur í höfuðstaðnum. Ég mun minnast Muggs sem sérlundaða félagans sem ég ferðaðist með um ár og skurði á Englandi fyrir áfall hans. Þannig atvikaðist að við leigðum okkur saman, þrír vinir úr Versló, stóran fljótabát, ásamt tveimur öðrum félögum og ferðuðumst saman í þó nokkurn tíma milli smábæja, kráa, skemmti- og veitingastaða. Báturinn var reyndar svo veglegur að við þurftum mann með skipstjórnarréttindi til að fá hann leigðan. Sigurður Ingi, annar skólafélagi og góður vinur úr Versló, sá um þá hlið. Ég átti í verulegum erfiðleikum með að komast með í ferðina vegna anna, en sá svo sannarlega ekki eftir að hafa farið. Þetta var síðasta og jafnframt skemmtilegasta samfellda samvera okkar félaganna fyrir andlát Muggs og endurnýjaðist vináttan eftirminnilega í þessari ferð. Við lentum í alls kyns ævintýrum og alltaf var húmorinn skammt undan og ferðin því í alla staði vel heppnuð. Enn á ný átti Muggur stóran þátt í að gera ferðina eftirminnilega, með köldum húmornum og nákvæmninni.

Ég minnist einnig með þakklæti samverustundanna eftir að Muggur varð að mestu rúmfastur. Jafnvel þó samtölin væru oft erfið fyrir báða, áttaði ég mig á hvað það var sem ætíð laðaði mig að þessum góða vini. Að baki lá þessi hlýja vinátta sem alltaf einkenndi Mugg í mínum huga. Ég þakka þér, Muggur, kærlega fyrir að hafa verið vinur minn í öll þessi ár. Þú hefur fyrir bragðið gert mig að betri manni. Orðin sem þú endaðir á þegar þú skrifaðir í Verslunarskólabókina mína forðum hafa því ræst að einhverju leyti í mínu tilfelli fyrir þína tilstilli, en þú skrifaðir m.a.; „Batnandi er best að lifa (fyrir báða)“. Ég vil enda á þessum orðum þínum, ásamt meðfylgjandi kvæði:

Ég þakka okkar löng og liðin kynni,

sem lifa, þó maðurinn sé dáinn.

Og ég mun alltaf bera mér í minni,

þá mynd sem nú er liðin út í bláinn.

Und lífsins oki lengur enginn stynur,

sem leystur er frá sinnar æviþraut um.

Svo bið ég Guð að vera hjá þér, vinur,

og vernda þig á nýjum ævibrautum.

(Þórarinn Hjálmarsson.)

Ég færi fjölskyldu og vinum Muggs mínar innilegustu samúðarkveðjur. Blessuð sé minning þín. Þinn vinur,

Hilmar Bergmann.