Leiðbeinandinn „Við gerum mikið af æfingum með litlum körfuboltum,“ segir Kristján Ómar en hér liggja nemendurnir á maganum og lyfta höndum og fótum frá gólfi..
Leiðbeinandinn „Við gerum mikið af æfingum með litlum körfuboltum,“ segir Kristján Ómar en hér liggja nemendurnir á maganum og lyfta höndum og fótum frá gólfi.. — Morgunblaðið/Jakob Fannar
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Áhugamálin hans hafa alla tíð verið tónlist, íþróttir og mannslíkaminn og hann hefur lagt rækt við allt þrennt. Er með meistaragráðu í tónlistarfræðum, stundar knattspyrnuþjálfun og leggur mikla áherslu á heilbrigðan lífsstíl.

Eftir Sigrúnu Ernu Geirsdóttur

sigrunerna@mbl.is

Fótboltamaður, þjálfari, tónlistarmaður, námsmaður og jógaiðkandi eru nokkur orð sem geta lýst Hafnfirðingnum Kristjáni Ómari Björnssyni sem dúxaði um daginn í ÍAK einkaþjálfaranámi Keilis með 9,69 í meðaleinkunn. „Ég hafði virkilega gaman af þessu námi og sat oft inni í kennslustofunni og hló inni í mér yfir því að það væri til nám í einhverju svona skemmtilegu. Ég get ímyndað mér að þetta hafi verið eins og fyrir tölvuleikjafíkil að fara í nám í því að búa til tölvuleiki!“segir Kristján Ómar sem allt frá barnæsku hefur haft mikinn áhuga á íþróttum og mannslíkamanum.

Kristján Ómar hefur í gegnum tíðina stundað fjölmargar íþróttagreinar og nú síðustu árin einnig þjálfað ýmsa aldurshópa, allt frá börnum til eldri borgara, þrátt fyrir að hafa endað í þjálfarastarfinu fyrir einskæra tilviljun eins og hann orðar það sjálfur.

Haukarnir höfðu samband

Fyrir utan íþróttirnar skipar tónlistin ríkan sess í lífi Kristjáns Ómars en hann lauk grunn- og meistaranámi í tónlistarfræðum frá Gautaborgarháskóla árið 2005 eftir að hafa verið þar við nám í fimm ár. Að því námi loknu var haldið til Berlínar sem skiptinemi til þess að læra þýsku og var ætlunin að halda heim jólin á eftir og byrja að vinna í ársbyrjun. „Það gekk hins vegar illa að finna vinnu í tónlistarbransanum og ég var farinn að örvænta aðeins þegar uppeldisfélag mitt, Haukar, hafði samband í nóvember og spurði hvort ég væri bæði til í að þjálfa unglinga og vera í hálfu starfi sem framkvæmdastjóri knattspyrnudeildarinnar. Ég ákvað að taka því,“ segir Kristján Ómar.

Nokkrum vikum eftir heimkomuna bauðst honum svo óvænt draumastarf innan tónlistargeirans en hann ákvað að hafna því. „Þetta var erfið ákvörðun en eftir að hafa verið aðeins stuttan tíma í þessu líflega starfi þar sem maður var í stöðugum samskiptum við fjöldann allan af fólki og að þjálfa unglinga undir beru lofti úti á fótboltavelli, þá fann ég að fræðistörfin og skruddurnar yrðu að fá að bíða í einhvern tíma.“ Tónlistin er þó sem fyrr mikilvæg í lífi Kristjáns Ómars. „Maður er alltaf að grúska eitthvað í tónlist á einhvern hátt. Allt mitt tónlistarnám hefur veitt mér ótal leiðir til að tengja við fyrirbærið tónlist og umhverfi þess, sama hvort það er að spila, hlusta, greina, semja, lesa um, eða annað, Það er helst að ég myndi vilja hafa meiri tíma til að semja og skapa tónlist en það er iðja sem hefur alltaf gefið mér mjög mikið andlega.“

Bindindismaður og borðar ekki kjöt

Heilbrigður lífsstíll er í fyrirrúmi hjá Kristjáni Ómari sem er yfirlýstur bindindismaður að eigin sögn og hefur ekki smakkað kjöt í áratug og í tæp þrjú ár sneitt framhjá öllum dýraafurðum. „Með tímanum hefur þetta þróast þannig að mér hreinlega býður við lyktinni af kjöti. Vissulega verður maður meira var við hana á sumrin þegar grilllyktin svífur yfir öllu en maður lærir að lifa með þessu rétt eins svitamettuðu loftinu í búningsherbergjunum og ólyktinni af umferðarmenguninni,“ segir hann hlæjandi. Kristján Ómar skilgreinir sig því sem jurtaætu og segir að hann hafi orðið var við mikla breytingu til batnaðar á líkamlegri líðan eftir að hann hætti að borða kjöt. Þegar hann tók svo það skref að hætta að neyta mjólkurafurða hafi orðið önnur mikil breyting. Núna sé mun erfiðara að fitna en áður!

Jurtafæði og jóga

Jurtafæðið er líka ríkur þáttur í jógahugmyndafræðinni sem Kristján Ómar hefur fylgt í mörg ár þótt hann játi að því miður fari minna fyrir iðkuninni nú en á háskólaárunum. Í þjálfunarstörfum kemur Kristján Ómar víða við og hefur meðal annars nú í tæp þrjú ár sinnt þjálfun eldri borgara hjá Haukum. „Við tókum þá stefnu að bjóða eldri borgurum loks upp á alvöru þjálfun. Haukar er félag fyrir alla og þar eiga allir að geta fundið sér eitthvað við hæfi,“ segir Kristján Ómar. „Við gerum mikið af æfingum með litlum körfuboltum sem eru alveg kjörnir til að reyna á hreyfifærni, liðleika og samhæfingu.“ Starfið byrjaði smátt. Í byrjun voru 5-7 á æfingum en þetta spurðist mjög fljótt út og núna eru fjörutíu og fimm sem æfa og þar af stór kjarni sem missir ekki úr eina einustu æfingu!, segir Kristján Ómar. „Þau eru orðin mjög fær og elska hreinlega að keppa í körfuboltaskotfimi. Við fáum líka oft áhorfendur sem fylgjast með af hrifningu!“

Kristján hefur mikla reynslu af því að þjálfa unga krakka og segir ýmislegt líkt með hópunum tveimur. Leikgleði sé til dæmis í fyrirrúmi. „Það er svo gaman hjá þeim og þeim finnst skemmtilegt að takast á við krefjandi hluti. Þetta starf með eldri borgurum er skemmtilegasta þjálfun sem ég hef tekið að mér. Þetta eru mínar fyrirmyndir því sjálfur stefni ég á að vera svona hress og líflegur sem eldri borgari.“ Kristján Ómar tekur sjálfur ekkert fyrir þjálfunina. „Þetta er svo gaman að ég er að þessu fyrir mig,“ segir hann. Oft hefur það komið fyrir að hann mæti þreyttur á æfingarnar en það bregðist ekki að hann gangi þaðan út syngjandi glaður.

Enginn verkefnaskortur

Kristján Ómar leikur með Þrótti í úrvalsdeild karla í knattspyrnu og er þjálfari í fullu starfi. „Einkaþjálfaranámið hefur opnað fyrir mér ýmsar dyr og ég er kominn með alls kyns spennandi þjálfunartengd verkefni á mína könnu, t.d. styrktarþjálfun hjá Haukum sem og alla afreksþjálfun í fótboltanum þar. Það er virkilega vel staðið að íþróttamálum í Hafnarfirði en þar gefst efnilegum íþróttakrökkum í grunnskólum bæjarins og við Flensborg að taka ákveðna áfanga í sínu námi hjá Haukum í formi fræðslu og kennslu í sinni íþróttagrein. Þetta samstarf skólanna og íþróttafélaganna er mjög spennandi vettvangur,“ segir Kristján Ómar.

Nýverið stofnaði Kristján Ómar fyrirtækið Mannsrækt þar sem ætlunin er að bjóða upp á ráðgjöf á sviði lífsstíls-, hugar- og líkamsþjálfunar. Hagnýtast hafi verið að stofna fyrirtæki í kringum þau ýmsu verkefni sem hann hafi nú á sinni könnu. „Eitt af verkefnum vetrarins er að koma sér upp þjálfunaraðstöðu í flennistóra bílskúrnum mínum þannig að ég geti tekið á móti fólki í þjálfun þar. Æfinga- og vinnuaðstaða í skúrnum, allt á einum stað. Það væri toppurinn,“ segir Kristján Ómar sem er svo sannarlega ekki maður sem situr auðum höndum.