[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Brak hljómplötur halda áfram gróskumikilli útgáfu með plötunni Rokk og róleg lög með DJ flugvél og geimskip, sem er þó ekki plötusnúður heldur listamannsnafn Steinunnar Harðardóttur.

Brak hljómplötur halda áfram gróskumikilli útgáfu með plötunni Rokk og róleg lög með DJ flugvél og geimskip, sem er þó ekki plötusnúður heldur listamannsnafn Steinunnar Harðardóttur. Á þessari sautján laga plötu hristir hún fram úr erminni músík sem væri best lýst sem öfgafullri krútttónlist sem fór út af sporinu og hætti skyndilega að vera krúttleg og varð ógnvekjandi og ágeng. Textarnir sækja í æskuna og fjalla um póníhesta (læsta inni í búrum), komu sumarsins og vonbrigði með lokaða ísbúð, en einnig alls kyns barnalegar en myrkar fantasíur um dularfulla morðingja með pípuhatta, yfirvofandi innrás geimvera eða drungalega frumskóga.

(Ó)Líkindin ná lengra: Þótt rödd Steinunnar sé vissulega barnaleg þá er það á annan hátt en rödd Kristínar úr múm eða Kiru Kiru, og hún hikar ekki við að öskra þegar þess þarf; hún er eiginlega miðja vegu milli þeirra krúttstallna og Peaches. Umslagið er í sama dúr, það er handteiknað og sýnir glaðlynda stúlku við orgel ásamt herskara brosmildra dýra auk vísunar í hinn fræga breska útvarpsplötusnúð John Peel sem hælir plötunni í hvívetna. Hér er nægur húmor.

Lögin rokkuðu og rólegu væri kannski réttast að kalla skissur; fæst lögin ná tveggja mínútna markinu, hljómurinn er eins hrár og orðið getur, frumstæðir orgelskemmtarar (eins og er heima hjá ömmu þinni) sjá um undirleikinn í ansi mörgum lögum, og textarnir eru sérstaklega hroðvirknislegir – hér hefur það fyrsta sem komið upp í hugann verið hripað niður eða sungið beint inn. En það breytir engu; Rokk og róleg lög er fyrst og síðast uppfull af skemmtilegum hugmyndum. Oftast þegar tónlistarmenn gleyma sér við dútl og gefa það út verður útkoman herfileg, og til þess að þetta yrði verulega eiguleg eða „góð“ plata í hefðbundnum skilningi hefði þurft ritstjórn og yfirlegu. Hér er það aukaatriði – vissulega hefði um helmingur laganna mátt missa sig og það hefði verið gaman að heyra frekari úrvinnslu á sterkasta efninu – yfirleitt hrífst hlustandinn einfaldlega af sköpunargleðinni.

Atli Bollason