ÍSLENSKA karlalandsliðið endaði í þriðja sæti á Evrópumóti smáþjóða í blaki sem lauk í Lúxemborg um helgina.

ÍSLENSKA karlalandsliðið endaði í þriðja sæti á Evrópumóti smáþjóða í blaki sem lauk í Lúxemborg um helgina. Þriðja sætið í mótinu veitir liðinu rétt til að taka þátt í Evrópukeppninni á næsta ári, en þó þarf liðið líklegast að leika umspilsleiki við aðra þjóð áður en það heldur á Evrópumótið.

Íslenska liðið lagði lið Norður-Íra í þremur hrinum í gær og tryggði sér þar með þriðja sætið. Fyrstu hrinuna vann liðið 25:21, þá næstu nokkuð örugglega 25:15 en síðasta hrinan var jafnari og lauk með 25:23 sigri.

Íslenska liðið lék ágætlega í gær. Sóknin var undir öruggri stjórn uppspilarans og fyrirliðans Vals Guðjóns Valssonar en bestan leik að þessu sinni átti Róbert Karl Hlöðversson, en hann lék sinn 50. landsleik á laugardaginn er liðið lék við Lúxemborg. Valur Guðjón lék sinn 50. landsleik í gær.

Michael Overhage, þjálfari liðsins, var iðinn við að skipta leikmönnum inná og komu allir leikmenn liðsins við sögu í leiknum í gær.

Á laugardaginn tapaði íslenska liðið fyrir heimamönnum í Lúxemborg, 3-0 þar sem liðið fékk 19 stig í fyrstu hrinu, 21 í þeirri næstu og 19 í þriðju. Allar hrinurnar voru svipaðar, en heimamenn voru betri aðilinn og sérstaklega gekk íslenska liðinu illa að loka á sóknaraðgerðir Lúxemborgara sem eru með hávaxið lið. Einnig fóru full margar uppgjafir í súginn hjá íslenska liðinu.

skuli@mbl.is