VALDIMAR Bergstað úr hestamannafélaginu Fáki í Reykjavík, sigraði um helgina í fimmgangi og gæðingaskeiði á Íslandsmóti barna, unglinga og ungmenna í hestaíþróttum, á hestinum Orion frá Lækjarbotnum. Valdimar varð fjórfaldur Íslandsmeistari að þessu sinni, en hann sigraði í tölti á hestinum Leikni frá Vakurstöðum, en það er hestur úr ræktun fjölskyldu hans. Valdimar sigraði einnig í samanlögðum fimmgangsgreinum, en það er samanlögð einkunn úr forkeppni í tölti, gæðingaskeiði og fimmgangi.
„Þetta gekk allt vonum framar,“ segir Valdimar, en hann segist æfa fimm til sex sinnum í viku.
Hestamannafélagið Hörður í Mosfellsbæ var mótshaldari að þessu sinni. Þátttaka var nokkuð góð en 302 keppendur kepptu á mótinu á tæplega 500 hestum, að sögn Þóris Arnar Grétarssonar mótsstjóra.
Valdimar Bergstað, sem er nítján ára, og Linda Rún Pétursdóttir, tvítug, munu keppa á Heimsmeistaramóti íslenskra hesta í Sviss dagana 5.-9. ágúst, en íslensk hross fyrirfinnast um víða veröld. „Þetta leggst bara mjög vel í mig,“ segir Valdimar sem er að fara í þriðja sinn á Heimsmeistaramót íslenskra hesta. thorbjorn@mbl.is