FLUGVÉL Iceland Express frá Billund fékk forgang til lendingar á öðrum tímanum í fyrrinótt vegna gruns um bilun í bremsukerfi vélarinnar. Lendingin gekk áfallalaust fyrir sig samkvæmt upplýsingum frá Flugmálastjórn og engan sakaði.

FLUGVÉL Iceland Express frá Billund fékk forgang til lendingar á öðrum tímanum í fyrrinótt vegna gruns um bilun í bremsukerfi vélarinnar. Lendingin gekk áfallalaust fyrir sig samkvæmt upplýsingum frá Flugmálastjórn og engan sakaði.

Á leið vélarinnar til Keflavíkur kviknaði ljós í flugstjórnarklefa sem tilkynnti um bilun í vatnsaflskerfi bremsubúnaðar vélarinnar. Tvö varakerfi eru til staðar í vélbúnaði flugvélarinnar sem taka sjálfkrafa við og var því ekki um mikla hættu að ræða. Flugstjórinn óskaði þó, til að gæta fyllsta öryggis, eftir forgangi til lendingar á Keflavíkurflugvelli.

Í samræmi við þetta var nokkur viðbúnaður á flugvellinum og það voru fyrstu merkin um að ekki hefði allt verið með felldu sem farþegar urðu varir við. Í vélinni voru um 200 manns. Við lendingu var þeim tilkynnt um að tæknilegir örðugleikar hefðu verið við lendinguna.

Ekki var talin þörf á að bjóða farþegunum áfallahjálp.

Matthías Imsland, framkvæmdastjóri Iceland Express, segir bilunina hafa verið minniháttar. Vélin hafi verið yfirfarin og hún sé komin aftur í áætlunarflug. skulias@mbl.is